19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6394 í B-deild Alþingistíðinda. (5907)

380. mál, utanríkismál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Í ljósi þess að liðið er á dag og hér á að ljúka fundahöldum kl. 19 og fleiri eru á mælendaskrá mun ég mjög stytta mál mitt í þessari umr. um skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál.

Þessi skýrsla er að mörgu leyti gagnleg, ítarleg og yfirgripsmikil, en það mætti þó að mínum dómi víða vera í henni meiri mergur en raun ber vitni. Hins vegar tek ég undir þá gagnrýni sem ýmsir fleiri hafa flutt hér um það hversu seint þessi skýrsla er á ferðinni og hversu naumur tími gefst til að ræða hana. Hlýtur það að koma til athugunar á næsta þingi að sjá örugglega svo til að umr. um utanríkismál geti farið fram með eðlilegum hætti og án þess að fallhamar tímans hangi hér yfir mönnum eins og nú er raunin.

Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Austurt., og raunar fleiri Alþb.-menn hafa haldið sínar hefðbundnu ræður hér með sama hætti og við höfum heyrt á undanförnum árum og hefur þar fátt verið nýtt. Hv. síðasti ræðumaður talaði um það hversu saman tvinnaðist herlíf og þjóðlíf og vék þar að nokkrum þáttum. Það er hins vegar athyglisvert að þegar á nú að aðskilja farþegaflug til útlanda frá þeirri starfsemi sem fram fer í varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli, þá snýst Alþb. gersamlega öndvert við því máli, þar sem á að aðskilja herlíf og þjóðlíf með byggingu nýrrar flugstöðvar. Hv. þm. vék hér að flutningum íslenskra skipafélaga fyrir varnarliðið og ég gat ekki betur heyrt en hann væri á móti því að íslensk skipafélög önnuðust þá flutninga sem bandarískt skipafélag er nú að sölsa til sín í skjóli úreltra lagaákvæða um einokun. Hún kemur víða við. En ég ætla ekki að fara langt út í þessa þætti.

Þeir Alþb.-menn hafa gert því skóna og talað mikið um það á undanförnum árum hvernig eðli varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli hafi breyst. Það eru rangtúlkanir og útúrsnúningar. Þessi stöð gegnir nákvæmlega sama hlutverki og hún hefur alltaf gert. Hún er eftirlitsstöð. Það er mín skoðun að ef við höfum hér uppi búnað til þess að fylgjast með ferðum m. a. sovéskra flugvéla hér í kringum landið þá eigi að gera það með fullkomnum búnaði. Þær radarstöðvar sem nú eru hér starfræktar eru komnar mjög til ára sinna og gegna áreiðanlega ekki vel því hlutverki sem þeim er ætlað. En ef við viljum halda uppi hér eftirliti í íslenskri lofthelgi með þeim hætti sem gert er þá á að gera það með fullkomnum búnaði.

Það væri vissulega ástæða til að segja ýmislegt fleira í tilefni þeirra ræðna sem þeir hv. Alþb.-menn hafa hér haldið. En ég ætla að neita mér um þá skemmtan núna. Til þess gefst betra tækifæri seinna. Mér er það ljóst að fleiri eru hér á mælendaskrá og ég skal ekki tefja þessar umr. frekar. Þó voru eitt eða tvö atriði sem ég vildi víkja að í þessari skýrslu.

Hér er allítarlegur kafli um norræna samvinnu. Þar er m. a. vikið að samvinnu okkar við Grænlendinga og Færeyinga. Af því tilefni vil ég vekja athygli á kaflanum um utanríkismál þar sem fjallað er um hvalveiðibann sem afgreitt var með nokkuð sögulegum hætti hér á hinu háa Alþingi í fyrra. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að leita aukinnar samvinnu við Norðmenn, Færeyinga og Grænlendinga varðandi þessi mál. Við þurfum að leita leiða til þess að héðan verði unnt að stunda hvalveiðar í einhverjum mæli. Við eigum að leita samvinnu við þessa aðila um hvernig eigi að bregðast við því mikla vandamáli sem fjölgun sels er. Þetta er sama vandamál og Norðmenn eiga við að stríða og allt sem því fylgir. Að okkur er sótt í þessum efnum af öfgasinnuðum mönnum, sem kenna sig við náttúruvernd en eiga þó næsta lítið skylt við hin raunverulegu og eðlilegu náttúruverndarsjónarmið, heldur eru hér á ferðinni öfgahópar sem beita ofbeldi til að ná málum sínum fram. Ég held að við eigum að ræða um það við granna okkar hér á norðurslóðum með hverjum hætti við eigum að bregðast við þessum aðgerðum öfgamanna, sem kenna sig við náttúruverndarsjónarmið en eiga, eins og ég sagði, ákaflega lítið skylt við það. Þetta er fólk sem hefur ekki skilning á okkar lífsháttum, okkar menningu. Hvar lætur það staðar numið? Það er ekki séð fyrir endann á því. Það er árás með nokkrum hætti á okkar menningu að meina okkur nýtingu þeirra auðlinda sem eru í hafinu í kringum okkur. Þetta gildir alveg eins um Færeyinga, Norðmenn og Grænlendinga. Ég held að þetta sé býsna alvarlegt mál og við eigum í samvinnu við þá sem ég hef nú nefnt að leita leiða til að hefja gagnsókn í þessum málum. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekkert auðvelt. En það er örugglega ekki óframkvæmanlegt. Ég hef rætt þessi mál m. a. við norska þm. og hef fundið að hjá þeim er áhugi á þessum efnum. Þarna er vegið að veigamiklum hagsmunum okkar og við eigum ekki að taka því þegjandi og hljóðalaust.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vona að hæstv. starfandi utanrrh. komi þessum ábendingum mínum áleiðis til réttra aðila.