19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6399 í B-deild Alþingistíðinda. (5910)

380. mál, utanríkismál

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Hér undir lok umr. mun ég reyna að einskorða mál mitt sem mest við þær fsp. sem beint var til mín og vona að ég segi hér ekkert sem stofni til langra umr. eða sem menn ekki séu sammála um.

Fyrst var það fsp. frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um meðferð þáltill. um fordæmingu á hernaðaríhlutun Bandaríkjanna á Grenada í utanrmn.till. hefur verið tekin fyrir beint eða óbeint, formlega eða óformlega, a. m. k. þrisvar eða fjórum sinnum og þ. á m. á báðum þeim fundum sem ég hef stýrt núna síðustu vikuna og hefur verið til umr. og þá síðast í gær, að vísu í mikilli tímaþröng. Þar greindi ég frá því að hv. þm. Svavar Gestsson hefði óskað þess að hún kæmi sérstaklega til umr. og flm. hefði einnig rætt við mig um það. Þar voru einnig til umr. ég held fimm frekar en sex þáltill. um afvopnunarmál og kjarnorkumál, friðarmál, og um það hafa þingflokkar reynt að ná samkomulagi. Það upplýstist þar að slíkt allsherjarsamkomulag hefði ekki náðst og þess vegna var ekki hægt að afgreiða þær till. Mín skoðun var sú að hæpið væri að taka till. um Grenada eina út úr ef ekki næðist samkomulag um hinar og í þessari tímaþröng, eins og ég sagði, voru engar þessara till. afgreiddar á fundinum í gær, en að sjálfsögðu mundi ég hvenær sem væri boða til nýs fundar í utanrmn. ef óskir kæmu fram um það, svo fremi að einhver tími verði þá til að ná mönnum saman. Þetta er svarið við þessari fsp.

Á báðum þessum fundum gat ég líka um till. um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða hérlendis. Þar komu fram upplýsingar um að allt það sem væri farið fram á í till. væri þegar í íslenskum lögum, það þyrfti þess vegna ekki samþykkt till., heimildirnar væru til ef stjórnvöld vildu nýta þær. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gat um hvort gagnkvæmnissjónarmið yrðu látin gilda. Hann bað bæði um sjónarmið n., að mér skildist, og mín persónulegu sjónarmið. Ég held að það gæti nú varla verið að við mundum meina t. d. Sovétríkjunum, og ég tala nú ekki um Bandaríkjunum, sem við höfum miklu meiri viðskipti við, að hafa fleiri sendiráðsstarfsmenn hér en við höfum þar eða þá að við færum að taka upp sérstakar ferðatakmarkanir hér þótt Sovétmenn geri það gagnvart okkar sendiráðsmönnum. Ég efast um að það yrði hyggileg ráðstöfun. Till. er óafgreidd eins og hv. fyrirspyrjandi raunar veit, en hún er ekki órædd. Hún hefur verið rædd í n. og hann veit sjálfsagt rökin gegn því að hún verði samþykkt. Persónulega er ég þeirrar skoðunar að margt í þessari hugsun hv. þm. sé á rökum reist og það mætti gjarnan hafa frekara eftirlit en gert hefur verið með starfsemi a. m. k. eins erlends sendiráðs hér á Íslandi. En ég hygg að ég geti ekki svarað fyrirspurninni á annan veg en þennan: Hún var allmikið rædd á næstsíðasta fundi utanrmn., bæði af utanrrh. og ráðuneytisstjóra, sem gáfu okkur upplýsingar í þessu efni, og reyndar nm. mörgum. Hún er ekki órædd, en hún er óafgreidd.

Hér var vikið aðeins að hvalveiðibanninu, sem svo er nefnt, og ég held að það sé ekki úr vegi að ég ræði það lítillega. Það er í rauninni ekki um hvalveiðibann að ræða. Samkv. sáttmála alþjóðahvalveiðiráðsins, sem gerður var 2. desember 1946, er því heimilt að setja kvóta á hvalveiðar einstakra þjóða. Það sem gerðist í fyrra var að kvóti þessi var settur í núll hjá öllum hvalveiðiþjóðum og í þessum sáttmála er ekkert sem gerir ráð fyrir undanþágum. Ég get ekki komið auga á að neitt slíkt sé í þessum sáttmála, og hef reynt að kynna mér þetta mál eftir því sem ég hef getað. Hitt er alveg ljóst að við Íslendingar hljótum að skoða það þegar á fundi alþjóðahvalveiðiráðsins, sem mun verða seinnipartinn í júnímánuði, hvort við eigum ekki þar að óska eftir því að verði einhverjar hvalveiðar yfirleitt leyfðar verði það undir vísindalegu eftirliti og jafnvel til að afla vísindalegra upplýsinga og þá yrðum það einmitt við sem ættum að sinna því því að við höfum gert það, við höfum reynt að stunda hvalveiðar á vísindalegum grundvelli. Mín skoðun er sú að afstaða okkar í fyrra, án þess að ég ætli nú að vekja upp deilur um það, hafi gert það að verkum að kannske séum við þeir einu sem hugsanlega gætum fengið slíka heimild eftir að þessi núllkvóti verður gildandi fyrir hvalveiðiþjóðirnar, einmitt af því að við mótmæltum ekki. Svo er mál með vexti að 3/4 hluta atkvæða þarf á fundum ráðsins til að breyta samþykktum sem gerðar hafa verið, en einungis helming til að taka mál á dagskrá. Það sem við misstum við að mótmæla ekki, ef einhverjir telja að við höfum glatað rétti, var einungis það að við fáum ekki sjálfkrafa teknar á dagskrá okkar óskir um aukinn kvóta, hvað þá hinir sem mótmæltu, en þeir þurfa 3/4 atkvæða til að fá ákvörðuninni um núllið breytt. Ég get ekki ímyndað mér og ég býst ekki við að nokkur maður ímyndi sér það, að ósk okkar, sem ekki mótmæltum, verði ekki tekin fyrir með einföldum meiri hluta ef einhverjar líkur væru til að hinir fengju sínum kvóta breytt með 3/4. Ég held því að staða okkar sé mjög sterk.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var, ef ég skildi hann rétt, andvígur því að við færum fram á undanþágu. Slíkt er ekki til. Það er ekkert til sem heitir undanþága. Við förum fram á að kvóti okkar verði eitthvað annað en núll, a. m. k. ef kvóti einhverra annarra verður eitthvað annað en núll, og skuldbindum okkur þá til vísindalegra veiða.

Ég held að þetta sé mjög viðkvæmt og vandasamt mál. Það var ákveðið að stefna að því að halda fund í utanrmn. 4. júní n. k. þar sem menn gæfu sér góðan tíma til að fjalla um þetta mál og undirbúa för sendimanna okkar á fundinn í alþjóðahvalveiðiráðinu og náttúrlega önnur mál miklu, miklu stærri en þessi. Ég ætla aðeins að fá að víkja að þeim, en skal ekki eyða í það mörgum mínútum. Ég held þó að hv. þm. eigi heimtingu á að fá að vita hvernig þau stórmál standa.

Þannig er mál með vexti að Rockall-málið og landgrunnsmálin á Reykjaneshrygg eru nú að komast alveg í brennidepil, en það verða varla margar vikur þangað til aðgerðir hefjast í því máli, beinar aðgerðir, til að reyna að ná samkomulagi um hagnýtingu Rockall-svæðisins við Færeyinga fyrst og fremst en jafnvel líka Breta og Íra. Þau mál eru sem sagt í fullum gangi. Og Reykjaneshrygginn eigum við atveg frá efnahagslögsögu Grænlands og yfir á Hatton-banka. Það getur enginn vefengt. Þessi gífurlegu hafsbotnssvæði verða eign okkar Íslendinga, Reykjaneshryggurinn og umhverfi, okkar einna, og Rockall-svæðið væntanlega með einhvers konar samningum við nágranna okkar og við væntum þess í utanrmn. Utanrrh. mun ræða mál þessi við Hans G. Andersen nú í Bandaríkjunum og sérstakan ráðgjafa okkar sem verið hefur nú á annað ár og var raunar ráðgjafi okkar líka í Jan Mayen-málinu, dr. Talwani. Væntanlega kemur Hans G. Andersen heim til að vera á þessum fundi og vera til samstarfs við utanrmn. og ríkisstj. og e. t. v. líka dr. Talwani sem boðist hefur til þess fyrir alllöngu að koma hingað ef íslensk stjórnvöld óskuðu.

En þessi mál verða sem sagt stærstu málin hér á næstu vikum og mánuðum, vænti ég, og allt bendir til þess að við munum sigra í þeim málum ef hyggilega er á þeim haldið eins og gert hefur verið. Ég vil sérstaklega taka það fram að alger eindrægni ríkir í utanrmn. og utanrrn. um það hvernig þessum málum skuli vera hagað og allir flokkar munu eiga aðild að þeim aðgerðum sem eru í vændum, að þeim lokasigrum sem við munum vinna á næstu mánuðum eða a. m. k. misserum í okkar landhelgismálum.