21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6413 í B-deild Alþingistíðinda. (5935)

298. mál, áfengislög

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir góð orð hv. 2. þm. Austurl. tel ég mér skylt að fara um málið nokkrum orðum vegna þess að það hittist þannig á að ég er formaður allshn. Ed. núna.

Þetta mál kom skyndilega í n. okkar s. l. laugardag frá Nd. og ég var beðinn að taka málið upp í allshn. sem ég og gerði. Ólafur Haukur Árnason var búinn að hafa samband við mig áður og bað hann mig að hafa samband við sig ef þetta kæmi inn í okkar deild. Það gerði ég á laugardaginn og sagði honum hvernig staðan væri. Það varð að samkomulagi með okkur, þar sem þeir kæmust ekki á laugardagseftirmiðdag á fundinn sem var haldinn í n., að þeir sendu inn bréf viðvíkjandi því sem hv. 2. þm. Austurl. var að skýra frá áðan.

Ég vildi að þetta kæmi fram. Það var haft samband við áfengisvarnaráð og umsögnin kom í hólfin okkar í morgun. Það skal jafnframt viðurkennt að ekki var á þessum skamma tíma hægt að boða ráðsmenn á fund allshn. og formaðurinn var sammála mér í því að ekki væri tími til þess að boða þá þrjá aðila sem hann talaði um að kalla á þennan fund. Það voru hann sjálfur, Páll Daníelsson og Jóhannes Bergsveinsson sem hann talaði um að gætu komið til n. En við vorum sammála um að betra væri að senda umsögn. Þetta vil ég biðja hv. þdm. að afsaka, en skýri þeim jafnframt frá hvernig í málinu liggur frá okkar hendi.