21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6430 í B-deild Alþingistíðinda. (5943)

155. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan með tilliti til þessa margumrædda samkomulags, því að enginn fulltrúi Framsfl. virðist ætla að tala í þessu máli, að kannað væri hvort forsrh. væri til tals og viðræðu. Ég held að það sé mjög hollt að fá fram skoðanir manna á því hver gildistími þessa samkomulags er því ég sé ekki betur, enn þá allavega, en að það sé ekki samkomulag um það heldur ágreiningur. Hv. 3. þm. Norðurl. v. og hv. 4. þm. Vestf. svöruðu í nokkru því sem ég hafði hér fram að færa og þau svör gátu að vissu leyti upplýst eitt og annað. Sú spurning sem ég vildi leyfa mér að bera fram við hæstv. forsrh., og beiddist þess vegna að hann kæmi í salinn, er ekki flókin. Hún er þessi: Hver er gildistími samkomulagsins fræga að mati forsrh.? Er gildistími samkomulagsins útrunninn þegar frv. hefur orðið að lögum, þ. e. frv. með sínum fylgifrv., eða er gildistíminn þar til lögunum hefur verið beitt í kosningum?

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði að kjósandi hvar sem væri á landinu hefði eitt atkvæði, alls staðar, af því að hann kysi flokka eða stefnuskrá en ekki eitthvað annað. Það má vera mikið rétt vegna þess að þau framboð sem hann hefur úr að velja eru flokkaframboð. En auðvitað er þarna þá líka um að ræða ákveðna takmörkun valkosta sem kjósandinn hefur úr að velja og þannig má líka líta á þetta frv. sem nokkurs konar lokatilraun flokkakerfisins til þess að framlengja líf sitt. Hvað eru þessir blessaðir flokkar sem við sjáum hér í kringum okkur? Ég ætla ekki að fara að rifja upp þær lýsingar sem viðhafðar hafa verið um flokka nú á síðustu dögum, en menn sjá þá fyrir sér uppleysta allt upp í öreindir og það að kjósa stefnuskrá slíkra stofnana er mjög vafasamt og m. a. s. djarft tiltæki því það vita menn nokkurn veginn þegar þeir kjósa þessa flokka að þegar þeir eru komnir inn á þing gengur þeim meira og minna mjög erfiðlega að framfylgja þeim stefnuskrám sem þeir buðu upp á.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði líka að kjósendur hefðu verið hafðir með í ráðum með þeim hætti sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Það er alveg rétt, en stjórnarskráin er náttúrlega eitt af þessum margnefndu valdatækjum í höndum stjórnvalda og flokka og hún gerir ráð fyrir sem allra þægilegastri afgreiðslu mála fyrir stjórnvaldið, að kjósandinn hafi ekki nema mátulega mikið um það að segja hvaða breytingar eru gerðar á grundvelli valdsins sem stjórnvaldið hefur undir höndum. Ég held að það sé ekkert ótímabær eða óskynsamleg krafa að meðhöndlun stjórnarskrárbreytingar verði í framtíðinni með öðrum og því sem ég mundi kalla lýðræðislegri hætti en hún er í dag. Ég býst líka við að það séu flestir hér inni sammála mér um það. Það sem vefst fyrir mönnum í því er að til þess þurfa þeir að breyta stjórnarskránni og það gerist þá aftur með þessum sama gamla hætti og ég hef ákveðna löngun til þess að kanna hvort ekki er almennur vilji eða áhugi manna á því t. d. að breyta því atriði stjórnarskrárinnar hvernig henni er breytt, að það þurfi ekki að gerast með þeim þunglamalega hætti sem er í dag og það sé ekki í henni, eins og sagt er á góðri íslensku í dag, þessi „stressfaktor“ að þurfa að rjúfa þing nánast tvisvar til þess að stjórnarskrárbreytingar nái fram að ganga. Mönnum óar svo þessi athöfn öll að þetta virkar mjög lítið hvetjandi til þess að aðlaga stjórnarskrá að breyttum þjóðfélagsháttum.

Ég held að það fari heldur ekkert á milli mála í huga nokkurs manns að sú stjórnarskrá sem við búum við í dag tilheyrir allt öðrum tíma, allt öðrum stað og allt annarri stund en okkar tímum. Hún er kannske að því leyti þó betri en t. d. norska stjórnarskráin að norsku stjórnarskrána les enginn maður orðið öðruvísi en með löngum og miklum skýringum því að orðalag hennar er svo ónákvæmt á okkar tíma vísu að hún er illskiljanleg án túlkunar sérfróðra manna. En ég er ekki þar með að segja að stjórnarskrá Íslands sé að öllu leyti ónýtt plagg, langt í frá. (Gripið fram í: Mjög góð.) Hún er mjög góð. Ég er ekki þar með að segja að það þurfi endilega að fjölga stjórnarskrárgreinum, en það þyrfti kannske að breyta þeim þannig að þær tækju tillit til lýðræðislegra stjórnarhátta sem eru opnari og valddreifðari en menn gátu samþykkt á þeim tíma þegar hún var sett.