21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6431 í B-deild Alþingistíðinda. (5947)

156. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Stjskrn. hefur fjallað um þetta frv. sem hér er til umr. og leggur til að frv. verði samþykkt. Stefán Benediktsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins.

Mér þykir rétt að taka það fram að efni þessa frv. er í beinum tengslum við frv. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis sem við vorum að ræða hér næst á undan.

Í þessu frv. er um tvennt að ræða. Í fyrsta lagi gerir þetta frv. ráð fyrir því að þrátt fyrir þær breytingar, sem gert er ráð fyrir að verði skv. frv. um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis að því er varðar það atriði hvernig finna eigi hve margir frambjóðendur hafi náð kosningu af hverjum lista, þá skuli óbreytt skipan haldast að því er varðar kosningar til sveitarstjórnar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að sama regla gildi varðandi möguleika kjósenda á að hafa áhrif á það hvernig listum er breytt, bæði að því er varðar kosningar til Alþingis og til sveitarstjórna.

Þetta frv. er því í beinum tengslum við frv. um kosningar til Alþingis og varðar einungis samræmingu við það frv.