21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6434 í B-deild Alþingistíðinda. (5953)

281. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það virðist svo einkennilega vilja til að þeir hv. nm. í sjútvn. deildarinnar, sem eru andvígir þessu frv., hafi ekki verið viðstaddir afgreiðslu n. í morgun, þ. e. að nú kemur í ljós — (Gripið fram í: Það var ekki viljandi.) Nei, það var ekki heldur viljandi gert af okkur að afgreiða málið á þann máta. En um þetta mál var búið að spjalla þó nokkuð mikið í n. og það er svo sem hægt að viðurkenna það að öllsömul munum við hafa svona hálfpartinn, ef svo má orða það, verið að naga blýantinn okkar yfir þessu máli í vetur. En meiri hl. n. var ásáttur um það í morgun að afgreiða málið á þann máta að leggja til að frv. yrði samþykkt óbreytt.

Ég varð ekki var við það í áliti þeirra hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar og Kolbrúnar Jónsdóttur að í eðli sínu væru þau á móti 1. gr., það væri fyrst og fremst 2. gr. sem þau væru andvíg og þar væri verið að gera ýmsa hluti sem þau nefndu ekki sem fegurstum nöfnum, sósíalisma andskotans, það var nafngiftin sem þessi aðgerð fékk. Ég ætla ekki að bera á móti því að þetta beri kannske keim af þeirri nafngift en ekki á þann veg að einstaklingar hafi farið þarna út í fjármálabrask í því augnamiði að afla sér skjótfengins gróða og geta svo sagt á eftir hvað þeir hefðu verið góðir í fjármálapólitíkinni. Þarna var um það að ræða að myndaður var félagsskapur og fyrir þessum félagsskap var kjörin stjórn. Einstaklingarnir, sem stjórnarmenn þessara samtaka, stóðu frammi fyrir því að þurfa að leysa ákveðin fjárhagsleg vandamál og þeir leystu þau ekki öðruvísi en með því að ganga í persónulegar ábyrgðir.

Það má vel vera að það sé ámælisvert að leggja til að þessi leið verði farin sem hér um ræðir. Hún er þó á þann veg að verið er að taka úr sjóðum eða frá þeim hóp sem þessir menn voru fulltrúar fyrir. Ég ætla ekki að jafna þeirri aðgerð, sem við erum sammála um að leggja til að verði gerð hér, við ýmislegt annað sem gert hefur verið með lagalegu yfirvarpi og að sumu leyti með félagslegri aðgerð. Ég ætla ekkert að jafna því, sem við erum að leggja hér til, við það sem verið er að gera í kartöflumálunum. Hverjir ætli borgi það skakkafall sem við stöndum frammi fyrir í sambandi við það að greiða þær skemmdu kartöflur sem hafa verið tíundaðar hér undanfarið? En það er allt gert með löglegu yfirbragði. Hverjir ætti borgi hallann á skekkjunni af Hraðbraut/Olíumöl hf.? Það er allt gert með löglegu yfirbragði. Í þessum samtökum og í þessum fyrirtækjum voru menn sem kunnu að tryggja sig að vissu leyti frammi fyrir spursmálum sem þessum áður en þeir fóru út í það að stofna fyrirtæki. Þessir menn, sem hér er verið að ræða um, gerðu ekki neina tilraun til að tryggja sig áður en þeir gáfu sínar persónulegu tryggingar fyrir því að standa að ábyrgð fyrir sína félaga.

Þó að ekki megi hafa stór orð um að þarna séu ljót mál á ferð er það ekki til að bera mikinn kinnroða fyrir. Ég mæli hiklaust með því að þetta mál verði afgreitt hér úr deildinni og við látum hv. Nd. standa frammi fyrir því að leysa málið til fullnustu og ég vænti þess að hún muni gera það áður en þinginu verður slitið.