10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (597)

Umræða utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það fer ekki milli mála að við lifum á mikilli tækniöld. Vísindamenn leysa ótrúlegustu afrek og framfarirnar eru það miklar að stundum er það orðið úrelt eftir örfá ár sem talið var fullkomin vísindi þegar það var sett fram. Því ræði ég þetta, að í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu byrja sérfræðingarnir á því að geta um að sú aðferð sem þeir hafi notað við að mæla stofnstærð þorsksins við Ísland hafi ekki reynst nægilega vel. Við minnumst þess öll, að ekki fyrir mjög löngu glímdu Svíar, sem eru nú taldir búa yfir þó nokkuð mikilli þekkingu, við að finna kafbát í skerjagarðinum hjá sér, sem þeir vissu að var þar. Þeir notuðu alla tækni sem sænska ríkið hafði yfir að ráða til að leita að kafbátnum. Engu að síður fundu þeir hann ekki. Hann slapp.

Það hvarflar að mér, þegar ég ber saman niðurstöður Svíanna og niðurstöður fiskifræðinganna, hvort það sé hugsanlegt að það vanti eitthvað á enn þann dag í dag að þeir sem búa yfir þeirri miklu þekkingu og starfa hjá Hafrannsóknastofnun Íslands séu færir um að telja svo óyggjandi sé þorskinn í sjónum. En kannske er þessi efi sprottinn af því að maður vill ekki trúa því sem fyrir mann er lagt eða sprottinn af hinu, að þessi skýrsla, ef hún er skoðuð með opnum augum, boðar okkur að fiskifræðingarnir beinlínis játa að þeir hafa ekki yfir þeirri þekkingu að ráða að þeir geti fullyrt um hversu mikið af þorski verði óhætt að veiða á Íslandsmiðum á næsta ári. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að þeir geta ekki svarað því hversu mikið kemur frá Grænlandi. Þeir geta ekki heldur svarað því hversu mikið af íslenska þorskstofninum fer út fyrir landhelgina og verður veitt af Færeyingum. Auðvitað vita þeir meira um þorskinn en aðrir Íslendingar. Það ætla ég aftur á móti ekki að draga í efa.

En í þessari stöðu hlýtur hver stjórnmálamaður að horfa á fleiri þætti. Við höfum 60 ára reynslu í þessu landi — 60 ára reynslu sem segir okkur hvað hafi verið óhætt að veiða mikið af þorski. Spurningin hlýtur að vera: Hefur sú aðferð sem nú hefur orðið ofan á við mat á þorskstærðinni, þ.e. að byggja á togtímum, sannað svo gildi sitt sem hin eina rétta að 60 ára reynsla sé einskis virði og henni beri að fleygja?

Það var sagt um Njál að hann væri misvitur. Og undarlegt má það vera ef það er staðreynd með blessaðan rjúpnastofninn í þessu landi að þar gildi einu hversu margar rjúpur séu skotnar, það sé algjörlega háð sveiflum hversu mikið er til af þeim, en með þorskstofninn sé það þannig, að við getum með veiðum, þó við friðum mjög stór hafsvæði, rústað hann gjörsamlega. Ég hygg að við þurfum að skoða það mjög gaumgæfilega hvað rétt er að gera í þeirri stöðu sem við erum í. Og vissulega þýðir ekki að loka augunum fyrir þessari skýrslu. Hitt er svo annað mál, að margt er þarfara en að boða hana sem slíka bókstafstrú að við, þegar skammdegið sækir að íslenskri þjóð, gerum allt sem við getum til að auka á svartsýni almennings. Ég hygg að sú svartsýni sé næg fyrir, miðað við þá erfiðu stöðu sem við erum í.

Hitt vil ég undirstrika, að um leið og þrengir að þeim möguleikum að nýta gæði hafsins hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar: Hvernig er þá viturlegast að standa að því að skipta þeim þorskafla sem um er að ræða? Ég veit að mikill ágreiningur er um hvernig standa eigi að því. Ég er sannfærður um að það verði að skipta honum niður á byggðalögin, ekki niður á skipin. Og hvers vegna? Er það rökrétt eða skynsamleg stefna að aðalkapphlaupið í íslensku þjóðfélagi sé um að ná í sem flest skip og gera þau út frá ákveðnum stað, þannig að hægt sé að halda áfram með fulla vinnslu á vissum stöðum á landinu meðan aðrir staðir verða þá gjörsamlega sviptir hráefninu? Verður það til að tryggja atvinnuöryggi fólks í þessu landi? Ég segi nei. Það hlýtur að vera réttlætiskrafa þess fólks sem vinnur í landi, verkafólksins, að þessum afla sé skipt á veiðistöðvarnar, á landsvæðin, og þannig sé reynt að tryggja sem jöfnust lífskjör í sjávarþorpunum hringinn í kringum landið.

Mér er ljóst að þegar verið er að takast á um efnahagsleg gæði er harkan mikil. Ég veit ekki hvort þm. gera sér grein fyrir því, að útgerðaraðilar sem slíkir þrýsta auðvitað ekki á þessa lausn. Þeir munu þrýsta fremur á að settur verði kvóti á skip eða frjálsar veiðar. Ég vona að í þeirri umfjöllun, sem þetta á eftir að fá hjá ríkisstj., geri menn sér grein fyrir að vilji menn skapa fjöldaatvinnuleysi í landinu velja menn þann kost að miða fyrst og fremst við kvóta á skip og hefja slagsmál um að handsama sem flest skipin fyrir vissa veiðistaði.

Ég get ekki stillt mig um að víkja hér örlítið að ummælum sem féllu hjá fyrrv. sjútvrh., hv. 1. þm. Vestf., þegar hann talaði um að ekki væri það í samræmi við stöðu íslenskrar þjóðar að láta smíða skip handa þeim sem búa á Grænhöfðaeyjum og senda það á veiðar. Hann vildi gefa þeim tíu gömul, skildist mér. Ég hygg að þessi orð hafi verið sögð í miklu fljótræði. Við höfum reynslu af því að gera út gamalt skip við þessar eyjar. Þar sem viðgerðarþjónusta er nánast engin er afleiðing af slíku fyrst og fremst sú, að skipið fer ekkert á veiðar, heldur liggur við landfestar. Ég hygg að það væri hollt hjá hv. 1. þm. Vestf. að kynna sér hversu marga daga umrætt skip var á veiðum. Ég vona að það tiltæki að byggja nýtt skip reynist þeirri þjóð sem býr á Grænhöfðaeyjum vel, því að vissulega eru hennar vandamál margföld á við okkar Íslendinga.

Ég gæti haldið áfram að ræða þessi mál fram og til baka, því hér er verið að tala um aðalatriðin í þeirri stöðu sem við erum í í efnahagsmálum. En vonandi gefst tækifæri til að ræða þessi mál þegar ákvarðanataka liggur fyrir um fiskveiðistefnu og þess vegna ætla ég ekki að hafa mín orð fleiri hér í kvöld.