21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6438 í B-deild Alþingistíðinda. (5972)

Um þingsköp

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég á sæti í félmn. Nd. sem á að fjalla um þetta mál. Það hefur lítið sem ekkert verið fjallað um þetta mál, en ég hefði talið eðlilegt, eins og hv. þm. Karvel Pálmason bendir á, að þetta mál fengi umfjöllun í nefnd og þess yrði freistað að afgreiða það út. Þess vegna vil ég fara þess á leit við formann félmn. að hann kalli nefndina saman og athugi hvort ekki sé grundvöllur fyrir að afgreiða málið út og leita samráðs um það í n. að svo geti orðið.

Þar sem verið er að fjalla um störf félmn. vil ég einnig, herra forseti, nota tækifærið og benda á annað mál sem ég hef lagt mikið kapp á í n. að fái a. m. k. umfjöllun í n. Það mál var lagt fram í októberbyrjun og er að ég hygg 12. eða 13. mál þingsins um endurmat á störfum láglaunahópanna. Það eru sex eða sjö mánuðir síðan þetta mál var lagt fram og þrátt fyrir ítrekaðar óskir mínar í nefndinni, sem bókaðar hafa verið, um að málið fengi a. m. k. umfjöllun í n. hefur ekki af því orðið. Ég mun óska eftir því líka ef formaður félmn. verður við ósk minni um að kalla saman nefndina að það mál fái einnig umfjöllun.