21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6440 í B-deild Alþingistíðinda. (5977)

Um þingsköp

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er atveg ljóst og a. m. k. var því lýst yfir á þingflokksfundi Alþfl. áðan af formanni þingflokks hans að ekkert bindandi samkomulag væri um hvenær ljúka skyldi þingi. Allt getur því gerst enn. Ég tek undir það að mjög þarft væri a. m. k. að gera tilraun til að komast að slíku samkomulagi og ég trúi ekki öðru en það sé hægt.

Hv. þm. Páll Pétursson sagði að menn ættu nú að sitja á strák sínum og vera ekki að tala. Það er út af fyrir sig gott að geta sagt slíka hluti, talað að óþörfu meira að segja um þingsköp. Ég tel síður en svo að það sé að óþörfu að minna á það mál sem hér var gert í upphafi. Það er stjfrv. og er réttindamál svo langt sem það nær og leiðréttir atriði sem ekki eru í nógu góðu lagi fyrir. Ég skil hins vegar mjög vel að hv. þm. Páli Péturssyni, formanni þingflokks Framsfl., þyki það ekkert ljúft að sitja undir svona umr. þar sem hvert málið á fætur öðru er þess eðlis að Sjálfstfl. kúgar Framsfl. til að falla meira og minna frá þeim grundvallarmálum sem flokkurinn lagði hér fram tiltölulega snemma á þinginu og mælt var fyrir. Þetta er eitt þeirra mála. Þetta er eitt þeirra mála sem hæstv. félmrh. hefur verið beygður í af formanni Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteini Pálssyni, beygður til að falla frá því að málið fengi eðlilega umfjöllun og þar með yrði það saltað og kæmi ekki meira í ljós á þessu þingi.

Ég vil taka undir ósk hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og vil gjarnan fá um það vitneskju áður en þessari umr. lýkur hvort hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður félmn. deildarinnar, ætlar að verða við þeirri ósk eins nm. úr n. að kalla nefndina saman og freista þess að koma þessu máli og raunar fleirum kannske út úr nefndinni þannig að hægt verði að taka afstöðu til þess hér í deildinni. Ég óska mjög eindregið eftir því að hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður n., sjái sér fært að segja þd. fyrir um það hvort hann ætlar að verða við þessari ósk eða ekki.