21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6441 í B-deild Alþingistíðinda. (5978)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að þegar fram er komin formleg ósk frá nm. í félmn. Nd. þá greini formaður nefndarinnar frá því hvort ætlun hans er að kalla nefndina saman eða ekki. Það er óvenjulegt ef nm. óska fundar án þess að boðaður sé fundur í nefndinni til að fjalla um það mál sem óskir eru um að rætt verði.

Það mál, sem hv. þm. Karvel Pálmason hefur spurt hér um, er með þeim hætti að á því verður að gera ýmsar lagfæringar, það er óhjákvæmilegt. En ef nefndin vinnur rösklega er vafalaust tími til að gera lagfæringar á því máli ekki síður en ýmsum öðrum stjfrv. sem hér hafa verið rædd að undanförnu og afgreidd með undraskjótum hætti með góðu samkomulagi allra flokka í þinginu. Ég held þess vegna að það verði að undirstrika þá ósk hv. 3. þm. Vestf. að formaður félmn. Nd. geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu efni og greini frá því hvort hann ætli að kalla saman fund í nefndinni eða ekki.

Svör formanna þingflokkanna hér áðan voru alveg með ólíkindum. Það sem þeir sögðu var einfaldlega þetta: Ef þingið ekki afgreiðir þau mál, sem hér eru á dagskrá, m. a. ýmis stjfrv. og auk þess 2–3 mál til viðbótar, sem síðar verður gerð grein fyrir en ekki liggur fyrir hver þau verða, þá mun það ekki sitja aðeins þennan sólarhring heldur líka þá næstu og ekki verður um að ræða nein þinglok fyrr en þessum lista er lokið.

Mér er kunnugt um það að mörg mál, sem eru á þessari dagskrá, krefjast mjög ítarlegrar umr. Ég minni t. d. á þau mál sem snerta skattskyldu innlánsstofnana, um skattalækkun bankanna og ég minni á frv. til l. um breytingu á lögum um Búnaðarbanka Íslands sem gerir ráð fyrir því að Búnaðarbankinn verði færður undir viðskrh. Það vill svo til að fjh.- og viðskn. Nd. sýndi mér þann heiður að feta mér að vera frsm. n. þegar það mál verður tekið hér til umr. En mér er kunnugt um það að ýmsir þm. telja nauðsynlegt að það mál verði rætt mjög ítarlega.

Fyrir utan þessi mál, sem hér eru á dagskrá, eru svo auðvitað mörg önnur mál sem þyrfti að fjalla um. Ef stjórnarliðið ætlar sér að keyra málin fram með þessu offorsi hlýtur stjórnarandstaðan að gera kröfur til þess að önnur mál komi hér einnig á dagskrá og til meðferðar og þau verði rædd og þinginu ekki lokið fyrr en þau hafa verið afgreidd. Ég man ekki eftir því að formenn þingflokka stjórnarliðsins hafi sagt stjórnarandstöðunni stríð á hendur með þeim hætti sem þeir gerðu áðan, hv. þm. Ólafur G. Einarsson og hv. þm. Páll Pétursson, þegar þeir lýstu því yfir að þeir væru staðráðnir í að hafa ráð okkar f stjórnarandstöðunni að engu heldur fara sínu fram hvað sem tautaði og raulaði.

Það kann að vera að þetta sé þeim mun erfiðara mál sem það liggur fyrir að ráðh. eru á förum úr landi hver á fætur öðrum. Mér er sagt að hæstv. forsrh. ætti að hlaupa úr landi á morgun og ekki að vera við þingslit sem yrðu síðar í vikunni. Ég hygg að það sé mjög óvenjulegt að forsrh. landsins fari úr landinu áður en þinginu er lokið þegar þingslit eru á næstu grösum. Mér er einnig tjáð að hæstv. menntmrh. sé á leiðinni úr landi og einnig hæstv. iðnrh. Hæstv. viðskrh. er þegar hlaupinn á braut. Auk þess mun það vera meiningin að nokkrir þm. stjórnarliðsins hlaupi úr landi til að vera viðstaddir þingmannafund Atlantshafsbandalagsins. Það skyldi þó ekki vera að það sé ein ástæðan fyrir þeim þrengingum sem eru uppi í stjórnarliðinu núna að menn eru þar á hlaupum úr landi í stórum stíl. Ég kann ekki við það að ráðherrar og síst forsrh. hlaupi úr landi þegar um er að ræða þingslit alveg á næstu grösum.

En hitt er aðatatriðið að menn reyni að koma sér saman um einhver vitræn og skynsamleg vinnubrögð í þessum efnum. Það er skyldast formönnum þingflokka stjórnarliðsins að hafa um það forustu, svo og forsetum þingsins. En það skal líka vera ljóst að ef ætlun þessara manna er að keyra fram með þeim hætti, sem hv. þm. Ólafur Einarsson og Páll Pétursson lýstu yfir áðan, þá verður það að kosta það sem það þarf að kosta varðandi afgreiðslu mála, ekki aðeins frá stjórninni heldur líka frá stjórnarandstöðunni.

Ég vil spyrja hæstv. forseta Nd.: Ætlar hann að virða að vettugi þá ósk sem hér hefur komið fram um að halda fund með forsetum þingsins og formönnum og forustumönnum þingflokkanna til að fara rækilega yfir þessi mál? Ég held að það væri í rauninni tímabært nú þegar að fresta fundi til að fara yfir þessi mál vegna þess að þinghald án samkomulags flokkanna í þinginu er mjög erfitt og það er óeðlilegt að standa þannig að málum. Ég vil því biðja hæstv. forseta Nd. um að beita öllu afli sínu og sanngirni til að reyna að leysa úr þessum hnút sem stjórnarliðið er að setja þingið í núna, m. a. með yfirlýsingum hv. þm. Ólafs G. Einarssonar og Páls Péturssonar.