21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6449 í B-deild Alþingistíðinda. (5993)

115. mál, lífeyrissjóður bænda

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þegar hefur verið vakin athygli á dálítið undarlegri þingmeðferð þessa máls, þar sem það er í umfjöllun landbn. Ed. Alþingis en síðan vísað til fjh.- og viðskn. og hefur því ekki komið til umfjöllunar landbn. Nd. Þetta er heldur ankannalegt en er þó ekki tilefni þess að ég kem hér upp til að gera þetta mál að umtalsefni. Ég vil aðeins rifja það upp að haldinn var einn sameiginlegur fundur landbn. Ed. og Nd. þar sem þetta mál var kynnt. Á þeim fundi gafst lítill tími til umr. en þó var spurst fyrir um fjárhag þessa sjóðs. Ég vil aðeins vekja athygli hv. alþm. á því að þegar verið er að fjalla um mál sem varða lífeyrissjóði eru það nú fyrst og fremst einmitt tvær hliðar: annars vegar spurning um aukin réttindi en hins vegar um getu sjóða til að standa við þessar skuldbindingar. Af þeim umr. sem fram fóru á þessum fundi um þennan sjóð dreg ég þá ályktun að hann sé greiðsluþrota og það sé algjörlega borin von að óbreyttu að hann geti staðið við sínar skuldbindingar nema með því að leggja verulegar kvaðir á einhverja aðra þegna í þjóðfélaginu. Út frá þeim forsendum tel ég það með öllu óviðunandi að leggja fram frv. um slíkan sjóð þar sem um annað meginatriðið, sem er fjárhagur sjóðsins, er fjallað í einni setningu, nefnilega þar sem segir: „Hins vegar hefur ekki verið lagt heildarmat á fjárhagsstöðu og fjárhagshorfur fyrir og eftir breytingu.“

Þegar þannig er staðið að málum tel ég það nánast aðeins rétt og skyldu Alþingis að vísa slíku máli frá, því að það er fyrir neðan allar hellur að vera að taka einhverjar ákvarðanir um hluti þegar menn hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að gera. Ég legg þess vegna til, og það hefði vafalaust komið fram ef málið hefði farið þá boðleið að koma til landbn. Nd., að þessu máli verði vísað aftur til ríkisstj.