21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6449 í B-deild Alþingistíðinda. (5995)

221. mál, jarðalög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta mál, um breyt. á jarðalögum, fjallar í raun og veru fyrst og fremst um það má segja að leggja niður Landnám ríkisins í því formi sem það hefur verið, og það má segja að verið hafi allvíðtækt samkomulag um það á undanförnum árum að Landnám ríkisins í því formi sem það var hefði lokið hlutverki sínu og því væri ástæða til að breyta þar verulega til. En fyrir utan ákvæðið um Landnám ríkisins er svo að finna í þessu laumuákvæði sem hafa farið inn í frv. í skjóli þess að menn hafa hugsað sem svo að hér væri verið að leggja niður Landnám ríkisins og menn hafa ekki skoðað málið, held ég, vandlega að öðru leyti. Ég t. d. hef rekist á það að eftir að hv. varaþm. Bjarni Guðnason flutti hér ljómandi athyglisverða og skemmtilega ræðu um þessi mál í síðustu viku kom í ljós að ýmsir hv. þm. höfðu ekki áttað sig á því hvað frv. um breytingu á jarðalögum nr. 65/1976 í raun og veru inniheldur.

Það sem ég vil hér koma á framfæri, herra forseti, eru aths. sem eru mjög hliðstæðar þeim sem hv. þm. Bjarni Guðnason hafði hér í frammi og snerta í fyrsta lagi 3. gr. þessa frv. eins og það er komið frá Ed., en á þskj. 858 er að finna 3. gr. eins og hún lítur núna út. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Óheimilt er að reisa sumarbústaði á landi, sem lögin taka til skv. 3. gr. og ekki hefur verið leyst úr landbúnaðarnotum skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. nema jarðanefnd samþykki. Ekki er skylt að afla samþykkis skv. 1. og 2. mgr. vegna lóða fyrir sumarbústaði utan sumarbústaðahverfa.“

M. ö. o. það er óheimilt eftir þessu að reisa sumarbústaði á landi nema jarðanefnd samþykki. Nú er það svo, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði í þessari umr., að auðvitað verða að vera einhverjar reglur um hvernig háttað er byggingu sumarbústaða. En þá vill svo til að þær reglur eru til því að skv. lögum er það þannig að skipulagsyfirvöld viðkomandi sveitarfélags verða að fjalla um hvort reistur er sumarbústaður. Þannig er það óþarfi frá skipulagssjónarmiðum og alveg út í hött að vera að bæta jarðanefndum hér við. Þetta finnst mér að sé nauðsynlegt að hafa í huga því að hérna er um að ræða býsna víðtækar heimildir fyrir jarðanefndir eða eins og segir í 4. mgr. 3. gr. á þskj. 858:

„Sumarbústaður skv. grein þessari er bygging sem reist er til þess að búa í að sumri til og einungis endrum og eins á öðrum tíma árs.“ Það eru slík hús sem verið er að tala um og jarðanefndirnar eiga um að fjalla.

„Ákvæði þessarar greinar um sumarbústaði eiga einnig við um sæluhús.“ Jarðanefnd á að stimpla það hvort reist er sæluhús á Bröttubrekku eða Holtavörðuheiði. Það þarf að bera það undir jarðanefnd í viðkomandi byggðarlagi.

Og það eru ekki bara sæluhús, heldur líka gert ráð fyrir að jarðanefndir eigi að stimpla það hvort reist er veiðihús. Ég er sannfærður um það, og meiri hluti þingheims er mér sammála, að jarðanefndir eiga ekkert að hafa að gera með það hvort reist eru sæluhús. (HBl: Það er kannske skipulagsskylt.) Það er skipulagsskylt hvort eð er, hv. þm., þannig að hérna er verið að bæta einum stimplinum ofan á eins og hv. varaþm. Bjarni Guðnason benti á.

En það eru ekki bara sæluhús og veiðihús sem þessar jarðanefndir eiga að fjalla um, heldur líka skíðaskála. Það stendur í 4. mgr. 3. gr. á þskj. 390: Jarðanefndir skulu fjalla um skíðaskála. Skíðaskálar falla hér undir sama ákvæði og sumarbústaðir, sem er mjög athyglisverður skilningur á veðurfari Íslands og nýstárlegur.

Það er sem sagt gert ráð fyrir að jarðanefndir, þessar stimpilstofnanir sem hér á að fara að koma upp, stimpli sæluhús. Þær stimpla sæluhús á Holtavörðuheiði. Þær eiga að stimpla veiðihús. Þær eiga að stimpla skíðaskála. Í síðasta lagi eiga þær að stimpla „hliðstæðar byggingar“. Hvar er hæstv. landbrh.? Getur hann ekki komið í salinn til að fylgja eftir sínum málum? Hvað eru hliðstæðar byggingar við sæluhús, veiðihús og skíðaskála? Hvaða byggingar eru það sem jarðanefndirnar eiga að fara að fjalla um til viðbótar við allt þetta? Eru það gangnamannakofar? Verða gangnamannakofar framvegis skipulagsskyldir eða kartöflukofar sem gjarnan eru reistir til að geyma í kartöflur og hafa gefist vel, eru jarðhýsi við kartöflugarða? Eru kartöflukofar skipulagsskyldir samkv. þessu hér? Ég held að nauðsynlegt sé að hæstv. landbrh. svari því hvort kartöflukofar verða skv. þessu skipulagsskyldir, jarðhýsi sem byggð eru til að geyma í kartöflur. Verða gangnamannakofar skipulagsskyldir og þarf jarðanefnd að stimpla þá eins og veiðihús, sæluhús og skíðaskála? Hvað kemur jarðanefndunum skíðaskáli við? Hvers lags ofsókn er þetta í að þenja út kerfið sem núverandi ríkisstj. beitir sér fyrir? Ég held að aldrei hafi önnur eins firn sést eins og þetta frv. Skipulagsmálin eru frá. Þau eru leyst skv. skipulagslögum og afgreidd þar. Það þýðir því ekkert fyrir hæstv. landbrh. að bera fyrir sig skipulagsmálin. Hérna er verið að fjalla um breytingu á jarðalögum sem eiga í raun og veru að fjalla um annað en skipulagsmál.

Sumarbústaður er skv. þessari grein bygging sem reist er til að búa í að sumri til og einungis endrum og eins á öðrum tímum ársins - ekki mikið, en lítið. Og síðan segir: „Ákvæði þessarar greinar um sumarbústaði eiga einnig við um sæluhús, veiðihús, skíðaskála og hliðstæðar byggingar.“ Hérna er auðvitað seilst svo langt í þessu efni að það er með öllu fráleitt. Út af þessum orðum, „og hliðstæðar byggingar“, við allt sem á undan er komið spyr ég hæstv. ráðh. að því: Hvaða önnur hús er hann að hugsa um að stimpla í viðbót? Eru það gangnamannakofar, kartöflukofar eða hvað er það sem hæstv. ráðh. er að hugsa um að koma undir stimpil sinn með þessu frv.? Við höfum orðið vör við það undanfarna daga að hæstv. landbrh. er tregur til að sleppa nokkru undan sínum stimpli og íhaldið hefur lotið í lægra haldi í Ed. í þeim efnum. Það er bersýnilegt að hann ætlar að halda mönnum fast undir stimpli sínum. Jafnvel þegar menn færu í sæluhús, veiðihús, sumarhús eða skíðaskála væru þeir undir stimpli hæstv. landbrh. Ég hygg að aldrei hafi nokkur ráðh. verið eins framhleypinn, verð ég að segja, með stimpilinn og hæstv. núv. landbrh. Ég hygg að hann fari þarna framar en nokkur annar landbrh. T. d. man ég eftir því að hæstv. fyrrv. landbrh. Pálmi Jónsson var ekki þessi ákafamaður í stimplun allra hluta, allra mannlegra viðvika af hvaða tagi sem er. Hann var ekki þessi kappsmaður um að stimpla alla skapaða hluti eins og núv. hæstv. landbrh. virðist vera og núv. ríkisstj.

Hér er, herra forseti, ekki um neitt gamanmál að ræða vegna þess að hér er verið að tala um hvaða frelsi og möguleika menn hafa til að hreyfa sig um í þessu landi. Geta menn ekki snúið sér við án þess að fá á sig marga stimpla af mörgu tagi í bak og fyrir?

Í 10. gr. þessa frv., sem er á þskj. 858, kemur fram mjög athyglisvert ákvæði sem einnig er rétt að hafa í huga í þessu sambandi, en þar segir:

„Til þess að stofna nýtt býli til búvöruframleiðslu, þar með talið til ylræktar, garðræktar, fiskræktar og loðdýraræktar eða til smáiðnaðar og þjónustu, sem tengd er landbúnaði, þarf heimild landbrn., enda hafi viðkomandi sveitarstjórn og jarðanefnd samþykkt stofnun býlisins.“

Ef reist er þjónustubýli þar sem um er að ræða að menn koma sér saman um að hafa bílaviðgerðir eða dráttarvélaviðgerðir má ekki koma upp slíkri þjónustu í landbúnaðinum öðruvísi en spyrja fyrst jarðanefnd hvort viðkomandi hafi réttindi til að gera við trukka og dráttarvélar. Viðkomandi sveitarstjórn á að stimpla líka. Því næst á það háa landbrn. að skrifa undir það og kvitta að viðkomandi bifvélavirkjar séu færir um að setja á fót verkstæði til að gera við dráttarvélar, múgavélar, snúningsvélar og aðrar vélar sem notaðar eru í landbúnaðinum.

Ég er þess fullviss, herra forseti, að ýmsir hv. þm. hafa ekki áttað sig á því leyfafargani sem er verið að innleiða hér á öllum sviðum. Það er ekki bara í sjávarútveginum sem búið er að koma því á varðandi veiðarnar. Það er núna í undirbúningi í sambandi við vinnsluna, þannig að menn fái ekki að verka fiskkvikindi öðruvísi en að bera það undir sjútvrh. Núna mega menn ekki hafa hér kvikfjárrækt af neinu tagi, ekki einu sinni reka bílaverkstæði ellegar þá að vera með aðrar tegundir búskapar öðruvísi en að spyrja landbrn., jarðanefnd og sveitarstjórn. Ég er hræddur um að Bjarti í Sumarhúsum hefði þótt þetta talsvert og þótti honum nóg, eins og öðrum smábændum í sögunni, að leita til Rauðsmýraryfirvaldsins. Nú er verið að hlaða hverjum Rauðsmýrarstimplinum ofan á annan. Það er jarðanefnd, það er sveitarstjórn og síðast en ekki síst landbrn. Allra virðingarfyllst ætlar hæstv. landbrh. að skrifa undir það hvort menn mega gera við dráttarvélar í sveitum. Og hann ætlar að gera fleira samkv. þessu. Ef settur er upp smáiðnaður í sveitum stimplar landbrh. og veitir allra náðarsamlegast leyfi.

En það er ekki nóg í þessum efnum að sveitarstjórnin, landbrh. og jarðanefnd fjalli um málið. Það þarf meira til áður en stofnað er bílaverkstæði í sveitum eða menn setja upp bú með hundrað rollum. Það þarf líka að leita umsagnar Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins á hverri umsókn eða eins og hér segir:

„Rn. leitar umsagnar Búnaðarfélags Íslands og Framleiðsluráðs landbúnaðarins á hverri umsókn.“

Takk fyrir. Á hverja einustu umsókn sem kæmi um það ef menn vildu efna til búskapar af einhverjum toga eða jafnvel stofna til þjónustu á lögbýlum skulu menn fá stimpil og samþykkt frá jarðanefnd, frá sveitarstjórninni, frá landbrn. og eftir að þetta allt er búið að fá umsögn frá Búnaðarfélagi Íslands og frá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Þá eru komnir fimm. Kórónan á sköpunarverkinu er síðasti málsliður þessarar greinar því þar stendur:

„Búnaðarfélagið lætur gera úttekt á búrekstrarskil yrðum býlisins.“

Í hvert skipti sem sótt er um að mega setja hérna upp sauðfjárbú, kúabú eða jafnvel að reka þjónustu sem tengist landbúnaðinum á Búnaðarfélag Íslands að gera úttekt á búrekstrarskilyrðunum.

Þó er það svo, herra forseti, að þessi athyglisverða upptalning í 10. gr. segir ekki allt vegna þess að fyrir utan jarðalögin eru í gildi margvísleg önnur lög, eins og skipulagslög og fleiri og fleiri lög, sem menn þurfa að sjálfsögðu að taka tillit til í sambandi við það hvort efnt er til og hvernig hagað er þessum málum í landinu. Það er ekki eins og þetta sé stjórnlaust allt saman, jafnvel þó að ákvæðum 10. gr. væri sleppt að einhverju leyti.

Ég mun fyrir mitt leyti, herra forseti, og vil láta það koma fram, greiða atkvæði á móti 1. málsl. 3. gr. um sumarbústaðina og sömuleiðis 4. málsl. þar sem gert er ráð fyrir því að hvers konar afhýsi sem menn reisa sér þurfi að fá stimpil frá landbrn. Ég mun greiða atkvæði á móti því og sömuleiðis þessu fargani í 10. gr., staflið a.

Það er annars merkilegt sem kom fram í sambandi við þetta mál í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar. Hann hélt um það langa ræðu að hérna væri í rauninni verið að gera þetta fyrir bændur. Og hv. þm. Bjarni Guðnason sagði einhvern tíma í sinni ræðu að það væru fulltrúar bændastéttarinnar sem væru að heimta þetta. Ég vil leyfa mér að mótmæla því. Bændur eru ekki að heimta þetta kerfi. Þetta „apparat“ allt saman er yfirleitt á móti bændum. Bændur hafa margir og í vaxandi mæli fullan hug á að snúa þetta kerfi niður. Hér er um að ræða sjálfvirkt skrifstofuferlíki, sem hefur orðið til á síðustu áratugum, sem stöðugt heimtar að þenjast meira og meira út. Þegar ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. situr eru svona óskir afgreiddar á færibandi. Þetta skrifstofuferlíki má endalaust þenjast út þó menn þykist vera aðhaldssamir á öðrum sviðum í opinberum rekstri. Þetta skrifstofu- og stimplaferlíki má endalaust þenja út.

Hér er þess vegna ekki verið að koma til móts við bændur. Þeir eru ekki að biðja um það leyfafargan sem íhaldið og framsókn eru að innleiða hér f landinu. Bændur hafa yfirleitt margt við það kerfi að athuga og eru orðnir þreyttir á því pappírsflóði sem stöðugt rennur inn á heimili þeirra frá opinberum aðilum. Mætti margt fleira um það segja, m. a. í sambandi við skattaframtöl bænda. Þeim er ætlað mér liggur við að segja ofurmannlegt verkefni við að ganga frá pappírum sem eru flóknari en nokkrum öðrum manni hér í þessu landi er boðið upp á í sambandi við skattaframtölin.

Ég vildi ekki, herra forseti, láta þetta frv. fram hjá mér fara öðruvísi en að mótmæla ýmsum þáttum þess þó að ég taki undir greinarnar um Landnám ríkisins. Og ég vil endurtaka þá spurningu sem ég bar fram við hæstv. landbrh.: Hversu langt á að ganga í sambandi við 4. málsl. 10. gr.? Hvaða hliðstæðar byggingar við sæluhús, veiðihús og skíðaskála eru það sem hann ætlar að stimpla samkv. þessu frv. ef það verður að lögum? Og ég vil einnig inna hæstv. ráðh. eftir því hvort hann getur ekki samið við þingið um það og breytt þessu frv. þannig að ákvæðin um sæluhús og skíðaskála verði felld út því það er mín skoðun og ég er sannfærður um það að allir hv. þm. taka undir að það er óeðlilegt að jarðanefndir séu að stimpla sæluhús og skíðaskála. Það er of langt seilst með stimpilinn. Ég vil þess vegna beina þeim orðum til hæstv. landbrh. að hann kanni sérstaklega hvort ekki getur verið um það pólitískt samkomulag að draga aðeins úr þessu stimpilfargani þannig að skíðaskálarnir sleppi a. m. k. og sæluhúsin, svo ekki sé nú lengra gengið í þá átt að breyta því undarlega frv. sem hér er til umr.