21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6455 í B-deild Alþingistíðinda. (5997)

221. mál, jarðalög

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ekki ætla ég að lasta það að hér sé gerð tilraun til að einfalda og spara í ríkisrekstrinum og það kemur fram í grg. með þessu frv. Þar stendur að Ríkisendurskoðun hafi reynt að meta þann ávinning sem ríkissjóður mundi hafa af þessari skipulagsbreytingu og miðað við verðlag 1.jan. 1982 sé talið að árlegur sparnaður nemi u. þ. b. 567 þús. kr. Ég ítreka að ég met mikils viðleitni í þá átt að einfalda kerfið.

Einföldun á kerfum þarf að athuga frá tvenns konar sjónarhólum: Í fyrsta lagi þarf að spara peninga, en svo þarf líka að einfalda kerfi til að þau verði mannlegri vegna þess að á nákvæmlega sama hátt og of flókin kerfi eru dýr eru þau líka þess eðlis að þau hefta kannske frelsi fólks til athafna og úr þeim verða völundarhús sem eru e. t. v. ekki nema örfáum mönnum kunnug og standa þess vegna í veginum fyrir því að þeir sem annars kynnu að vilja leita sér þar erinda eigi þess nokkurn kost.

Ég verð að játa það, herra forseti, að það var ekki fyrr en við ágæta ræðu varaþm. Bjarna Guðnasonar hérna fyrir helgi og nú aftur við ræðu Svavars Gestssonar að ég fór að velta þessu jarðalagamáli fyrir mér. Það er ýmislegt sem mér finnst þar skjóta skökku við. Þegar hafa verið rakin hér ýmis dæmi um hvernig stimplagerð og ofstjórn, að því er virðist, eiga að ná yfirráðum í þessum málum. Maður spyr sig af hvaða orsökum þessi flókna stimplun og þetta flókna stimplakerfi sé komið upp, hvort þetta sé sakleysisleg leið til að ná forræði landbrn. eða ná hugsanlega pólitísku forræði yfir því hverjir stunda landbúnað og hvernig og hvar. Þetta getur líka einfaldlega verið framleiðsla einhverra kerfiskarla sem sjá allt fyrir sér í kössum og sjá erindin fyrir sér flækjast frá einu borðinu til annars og alltaf fjölgar stimplunum.

Það hafa hér verið rakin ýmis dæmi um hvernig þetta virðist eiga að koma út í framkvæmd. Það hefur t. d. verið rakið að jarðanefnd virðist eiga að koma til með að hafa umsögn um sumarbústaðabyggingar, sæluhúsabyggingar, veiðihúsabyggingar, skíðaskála og hliðstæðar byggingar, en síðan er talað um að jarðanefnd komi við sögu þegar stéttarfélög æskja þess að byggja orlofsheimili. Væntanlega er það vegna þess að það sé á einhvern hátt hliðstætt við sumarbústaði eða sæluhús. Síðan á jarðanefnd að hafa afskipti af því ef skipt er landi jarða og sameiginlegu landi fleiri jarða til að sameina jarðir eða leggja lönd eða jarðir til afrétta. Það þarf samþykki jarðanefnda, sveitarstjórna og landbrn., að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands. Við höfum heyrt fyrr í umræðunum hvernig þessi gangur er. Þá hefur verið rakið hvernig jarðanefnd kemur við sögu ef stofna á býli til búvöruframleiðslu eða ylræktar eða garðræktar eða fiskiræktar eða loðdýraræktar eða til smáiðnaðar og þjónustu sem því tengist. Þá skal leita umsagnar jarðanefndar. Í „forbifarten“ eiga svo ýmsir aðrir smástimplar að koma við sögu, svo sem eins og landbrn., Búnaðarfélag Íslands, Framleiðsluráð landbúnaðarins og þess háttar. Framleiðsluráð landbúnaðarins á að meta umsókn bifvélavirkjans sem ætlar kannske að fara að setja upp traktoraverkstæði fyrir norðan samkv. þessum plöggum.

Aftar í þessu frv. stendur að heimild landbrn. þurfi til að stofna félagsbú til búvöruframleiðslu á býli. Félagsbú þarf því alveg sérstaka samþykkt. Menn geta verið búnir að fá samþykkt fyrir því að stofna býli til búvöruframleiðslu eða einhvers þess háttar, en síðan þarf búskaparlagið eða eignarlagið, félagsformið, sérstakt leyfi rn., enda hafi náttúrlega sveitarstjórn og jarðanefnd — jarðanefnd líka — samþykkt að menn slái sér saman til búskapar. Jarðanefndin kemur því ansi víða við sögu.

Ef lengra er lesið kemur í ljós að jafnvel þótt jarðanefndin sé nú búin að lofa Pétri og Páli að stofna bú saman er það ekki nóg vegna þess að heimild til stofnunar félagsbús fær ekki gildi fyrr en landbrn. hefur áritað félagsbússamning. Svo á að hnykkja rækilega á þessu með félagsbúin með því að landbrn. birti við hver áramót skrá yfir samþykkt félagsbú á landinu.

Þetta eru nokkur dæmi um það sem bæði hefur komið fram hérna í ræðunum hingað til og það sem ég fann við yfirlestur.

Í 4. gr. og 6., 7. og 8. gr. kemur stjórn Búnaðarfélags Íslands í staðinn fyrir í fyrsta lagi Landnám ríkisins og í öðru lagi landnámsstjórn þegar óskað er umsagna eða þess háttar. Það er ekki alveg ljóst hvernig þetta á að koma í framkvæmd. En mér sýnist að undir því sakleysislega yfirvarpi að verið sé að framkvæma sjálfsagða breytingu á kerfinu og leggja niður stofnun sem sé ekki þörf á lengur séu gerðar ýmsar breytingar sem horfi alls ekki til frjálsræðis sem sérstaklega annar stjórnarflokkurinn hefur gert talsvert úr á undanförnum árum, heldur sé hérna, á sama hátt og við höfum horft upp á í öðrum atvinnugreinum í vetur, verið að byggja upp öflugt og villugjarnt völundarhús fyrir þá sem vilja reyna að afla bjarga sinna sjálfir, en reka sig fljótt á völundarhús og stimplagoð kerfisins.

Að síðustu er í 12. gr. frv. heimilað að veita ábúanda jarðar í ríkiseign, sem byggð er skv. ábúðarlögum, leyfi til að taka lán með veði í jörðinni til varanlegra húsabóta og annarra umbóta á jörðinni. Þetta hefur komið hér til tals áður í vetur í sambandi við lausaskuldir. Ég er hreint ekki viss um að það sé eðlileg ráðstöfun að menn geti veðsett ríkiseign til að byggja hús og aðrar umbætur á ríkisjörðinni og er þeir hætti búskap sé ríkið nauðbeygt til að kaupa af þeim þessar húsbætur. Ég hef ekki verið sannfærður um að þarna sé rétt á málum haldið.

Að síðustu ætlaði ég að minnast á atriði, sem kemur í ljós við lestur þessa frv., um rekstur grænfóðurverksmiðja, en hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur gert ágætlega grein fyrir því og læt ég því lokið máli mínu.