21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6458 í B-deild Alþingistíðinda. (5999)

221. mál, jarðalög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að meðferð og umr. um þetta frv. endurspegli mjög vel hversu bagalegt það er þegar þm. hlaupa hálfvansvefta yfir mál hvert á fætur öðru, nánast á handahlaupum, og hafa lítinn tíma til að athuga þau, ég tala nú ekki um ef það sama á við um hv. þingnefndir, eins og var í þessu tilfelli. Ég vil byrja á að átelja að lagafrv. sem þessi séu hér keyrð í gegn á svo naumum tíma sem var í þessu tilfelli. Við hefðum nm. allir, held ég, kosið að fá að hugleiða og skoða þetta mál nokkuð betur og mörg af þeim atriðum sem við lítillega ræddum en höfðum ekki nægan tíma til að skoða hafa nú einmitt verið dregin hér fram og sem hver gagnrýnd mjög réttilega.

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. hv. landbn. Nd. með fyrirvara og vil gera stuttlega grein fyrir því í hverju hann felst. Hann er reyndar ekki fyrst og fremst hvað varðar stimplafjölda á veiðihús, skíðaskála og hliðstæðar byggingar þó að ég ætli ekki að fara að verja það. Ég held að það sé fulllangt gengið að láta menn þurfa að sækja um leyfi fyrir jafneinfaldri framkvæmd og skíðaskála, ég tala nú ekki um sæluhús sem yfirleitt stendur á 3–5 fermetrum einhvers staðar uppi á heiðum og er nú varla mikil atlaga við framtíðarmöguleika landbúnaðarins á viðkomandi svæði. En að hluta til á þetta sér þó eðlilegar skýringar. Þær eru að allt þetta land er orðið skipulagsskylt og þarf að sæta ákveðinni meðferð áður en ráðstöfun þess er breytt, eins og er í þessu tilfelli, og hér er fyrst og fremst um það land að ræða sem er að hverfa úr landbúnaðarnotum og þarf vegna þeirra breytinga sem þar verða að hljóta ákveðna meðferð.

En fyrirvari minn beindist fyrst og fremst að því óeðlilega, að mínu mati, fyrirkomulagi sem verður um stjórnun fóðurverksmiðja eða graskögglaverksmiðja ríkisins, eins og þegar hefur verið bent á hér af hv. 3. þm. Reykn., Kjartani Jóhannssyni. Mér sýnist þar staðið fremur óvenjulega að hlutunum þar sem landnámsstjórn, landnámsstjóri og stofnunin sem slík eru lögð niður, en engu að síður ætti landnámsstjóri, sem í þessum tilfellum er einn af stjórnarmönnum í fóðurverksmiðjunum, að starfa áfram. Þá vil ég spyrja: Í hvers umboði? Er hann þá fulltrúi landnámsstjórnar, sem verið hefur hingað til, hver sem hann nú er? Ég hefði talið að úr því að svo fór að lög um fóðurverksmiðjur ríkisins voru ekki lögð hér fram hefði verið eðlilegra að brúa það tímabilsástand sem þar skapast með öðrum hætti, t. d. með þeim að leggja ekki niður að svo komnu máli sjálfa landnámsstjórnina, heldur láta hana starfa áfram og hafa þetta verksvið á hendi. Það kom ekki í veg fyrir það, að mínu mati, að hægt væri að gera þær skipulagsbreytingar, sem að mörgu leyti ganga til réttrar áttar, að leggja niður Landnám ríkisins og ráða ekki í embætti landnámsstjóra, en færa það starfslið, sem þar hefur unnið, annað. Ég held að flestir séu sammála um það, sem til þekkja, að fjarað hafi undan þeirri stofnun hvað verkefni varðar og það sé skipulagsbreyting sem til fyrirmyndar er í hinu opinbera kerfi að reyna þá að ná sparnaði sem því nemur þó að maður óttist vissulega að hann verði ekki eins mikill og æskilegt væti því að þessi verk flytjast einfaldlega milli húsa.

Fyrirvari minn var sem sagt fyrst og fremst hvað þetta varðar. Ég tel í fyrsta lagi óeðlilegt að hafa þessar lagabreytingar ekki samferða og reyna að koma þessu hvoru tveggja í gegnum þingið á sama tíma. En ég held að úr því sem komið er sé nauðsynlegt að þetta frv., a. m. k. þeir hlutar þess sem til bóta horfa, fari f gegnum þingið þó ekki væri nema vegna þess að búið er að gera að lögum breytingar á ábúðarlögum sem eru fyrst og fremst afleidd breyting vegna þess frv. sem við erum enn að fjalla um. Má segja að það sanni skýrar en flest annað að ýmislegt skolast til í þingstörfunum á síðustu dögum, herra forseti.

Að síðustu vil ég segja að ég hef skipulagslega séð fyrir hönd landbúnaðarins sem heild efasemdir um að það sé til bóta að leggja niður einu þingkjörnu nefndina í öllum þessum geira og skipta verkefnum hennar í eins konar helmingaskiptum eins og gjarnan tíðkast þessa dagana. Hér er um að ræða einhvers konar helmingaskipti milli Búnaðarfélagsins og landbrn. sem í anda hinna margfrægu helmingaskipta deila þessu bróðurlega upp á milli sín. Ég sé það vel hugsanlegt að nefnd eins og Landnámið, hugsanlega í nokkuð breyttu formi og stærri nefnd, gæti átt fyllilega rétt á sér sem ákveðinn tengiliður og ákveðinn umsagnaraðili milli þessara tveggja stóru risa í landbúnaðinum, þ. e. rn. og Búnaðarfélagsins. Satt best að segja held ég að fyllilega sé ástæða til þess fyrir ýmsa flokka að hugsa það til enda hvort þeir glata ekki aðstöðu sinni til að fá upplýsingar og hafa áhrif í þessu bákni öllu saman þegar þessi eina pólitískt kjörna nefnd verður lögð niður og þetta fer til helminga inn í landbrn. og Búnaðarfélag til þeirra manna sem þar ráða ferðinni.

Það hefur verið uppi sú gagnrýni á landnámsstjórnina og Landnámið sem slíkt að það hafi vantað tengsl milli þess og þeirra aðila sem eru að stjórna framleiðslunni í landinu. Það má til sanns vegar færa, en mér er samt til efs að ekki hafi mátt koma þeim tengslum á t. d. með því að breyta starfssviði landnámsstjórnar eða hugsanlega einhvers arftaka hennar sem kosinn væri hér á Alþingi eða á einhvern annan hátt pólitískt því að ég hef, eins og ég hef rakið hér, herra forseti, ákveðnar efasemdir um að það sé heillaspor eða horfi til framfara að leggja þessa stofnun niður.

Það er fleira í þessu frv. sem ég hefði gjarnan viljað gera aths. við. Eins og ég hef þegar rakið hefur gefist allt of naumur tími til að skoða það. Ég er þó á því að í megindráttum horfi þær skipulagsbreytingar, sem hér eru gerðar um till., til bóta, en ég átel ýmislegt í framkvæmd þeirra og með það í huga hef ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og læt þetta nægja til að lýsa honum, herra forseti.