21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6460 í B-deild Alþingistíðinda. (6000)

221. mál, jarðalög

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Í framhaldi af orðum hv. þm. Steingríms Sigfússonar, þar sem hann lýsir efasemdum sínum sem þm. og landbn.-manns, bæði um efni frv. og um tæknilega umfjöllun þessa frv. í nefnd, þar sem tímaskortur hafi verið mjög áberandi og þar sem nm. hafi staldrað við fjölda atriða en síðan látið renna fram hjá sér vegna þess að ekki sé tími til þess að athuga málið frekar, þá vil ég eindregið leggja til að þetta frv. verði geymt til haustsins og menn vinni þá í þessu nánar til þess að það verði engin atriði sem menn þurfa að staldra við svo alvarlega þegar það kemur næst til umr.

Hæstv. landbrh. kom hingað upp og vék að ýmsu því sem hefur verið rætt um í þessari umr. M. a. sagði hann að jarðanefndir hefðu ekki meira vald eða kæmu ekki víðar við að ráði en þær hefðu gert áður, en þá vildi ég spyrja hvort ekki hefði þá verið ráð að minnka það. Því veldur kannske fákunnátta mín um þessi málefni, en ég á mjög erfitt með að sjá hvers vegna jarðanefndir þurfi að vera umsagnaraðilar um hreint allt sem gerist, að því er mér virðist, í íslenskum landbúnaði allt frá stofnun bifvélaverkstæða til kartöflukofa. Þá er spurning hvort ekki hafi verið ástæða til að fækka eitthvað hlutverkum stimplaranna í jarðanefndinni og einfalda þannig þetta kerfi sem augljóslega kemur í ljós í þessari umr. að ýmsir hafa áhyggjur af.

Það kom fram að þetta kerfi, sem hér í frv. birtist, væri að ýmsu leyti til orðið vegna ásóknar í að fá byggingar eða aðstöðu sem menn koma sér upp í sveitum viðurkenndar sem lögbýli vegna orkulaga. Það er þá spurning hvort ekki sé miklu meiri ástæða til að breyta orkulögum, taka af skarið þeim megin frekar en að skylda hreint alla sem hugsa sér til hreyfings í sveitinni að arka frá Pontíusi til Pílatusar og afla sér stimpla.

Þá kom hæstv. landbrh. að merkilegu atriði, sem hann gerði þó ekki að miklu umtalsefni. Það var í sambandi við stjórnun í landbúnaði. Þá langar mig til að spyrja hæstv. landbrh. hvort þetta frv. væri kannske hugsað sem fyrsta skref eða liður í nánari stýringu á framleiðslu í íslenskum landbúnaði og hvort það væru á borðum hans drög að því að framleiðslu í landbúnaði yrði stýrt nánar eftir landkostum, eins og hann vék að. Mér vitanlega hefur það ekki verið gert, en mér þætti vænt um að fá upplýsingar um það.

Það væri þá tvennt: 1. Eru þessar breytingar á jarðalögum hugsaðar sem fyrsta skrefið í strangri stjórnun á framleiðslu í íslenskum landbúnaði? 2. Eru þegar til tillögur eða drög um það hvernig landbúnaðarframleiðslu yrði stýrt eftir landshögum eða landkostum?