21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6475 í B-deild Alþingistíðinda. (6005)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umr. hefur nú þegar verið tekið fyrir á að ég hygg tveimur fundum í hv. Nd. og það er sannarlega ekki ástæðulaust að það er rætt hér ítarlega og er langt frá því að öll kurl séu komin til grafar í þeim efnum. Hér er vissulega á ferðinni mál af því tagi að rík ástæða er til þess að hv. alþm. átti sig vel á samhengi þess við annað það sem hefur verið að gerast í ríkisfjármálum á tíma þessa þings og tíð núv. hæstv. ríkisstj., ekki aðeins í ríkisfjármálunum heldur einnig í skattamálunum og skattlagningu og þeirri skattlagningarstefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur þegar knúið fram ákvarðanir í, eins og ég vakti athygli á hér fyrr í þessari umr.

Það sem gerði óhjákvæmilegt fyrir mig að taka aftur til máls er ekki síst sú staðreynd að hæstv. fjmrh., sem talaði alllengi síðast þegar þetta mál var rætt hér í hv. Nd., sá ekki ástæðu til að víkja einu einasta orði að þeim fsp. sem ég bar fram við ráðh. Hann tók hins vegar drjúgan tíma til að ræða um eða bera fram skýringar á eigin stjórnmálasögu, til að bera af sér hlutdeild í tilvist og í lífi síðustu ríkisstj., svo sem hv. 3. þm. Reykv. hefur gert hér réttilega og eðlilega að umræðuefni, og hann notaði ræðutíma sinn hér á nýbyrjuðum degi, því að það mun hafa verið um kl. 1 að næturlagi sem hæstv. ráðh. stóð hér í ræðustól, ekki til þess að fjalla efnislega um málið eða svara fsp. heldur til að taka á því með þeim hætti sem ég hef hér nefnt. Ég hlýt því að ítreka hér, áður en ég lýk máli mínu, fsp. til hæstv. ráðh. í von um að hann daufheyrist ekki með sama hætti og hann gerði hér um daginn, fyrir nokkrum dögum og nóttum, þegar ég bar fram fsp. um þetta mál sérstaklega. Kann að vera ástæða til að bæta nokkrum við því að ýmislegt hefur verið að gerast í þessum málum undanfarið, skattamálum og stefnu bankanna gagnvart m. a. atvinnurekstrinum í landinu. Það má teljast nokkuð sérstakt, og ég hugsa að það séu ekki mjög mörg dæmi í þingsögu síðustu ára, að ráðherra standi þannig að máli í sambandi við frv., sem hann ber greinilega mikla umhyggju fyrir og hefur mikinn áhuga á að nái fram að ganga, að hann skuli þá setja á ómálefnalegar umr. að næturlagi og koma sér hjá því að svara fsp. sem fram eru bornar. Þetta er, hæstv. fjmrh., ekki skynsamleg aðferð til að greiða fyrir framgangi þingmála, þegar nýttur er tíminn með þeim hætti. Til þess að finna orðum mínum stað að þessu leyti vil ég, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að vitna í örstuttan kafla úr ræðu hæstv. fjmrh., sem haldin var á öndverðum degi 15. maímánaðar að ég hygg. Þó útskriftin sé dags. 14. maí gæti ég trúað að miðað sé þar við daginn áður því að hér var komið fram yfir miðnætti og vel það. Hæstv. ráðh. sagði, og var þá að svara hv. 3. þm. Reykv.:

„Ég vil fyrst svara fyrstu fullyrðingu hans í frumræðu hans því ég geri ráð fyrir að hann eigi eftir að tala hérna tvisvar enn, meðan hann má tala, í langan tíma í kvöld eða nótt. Hann sagði að ég hefði verið kosinn í bankaráð Útvegsbankans af fyrrv. ríkisstj. Ég vil leiðrétta það. Ég var kosinn í bankaráð Útvegsbankans af lista sjálfstæðismanna og Sjálfstfl. Það eru fyrstu ósannindin.

Þá talaði hann um áhuga minn fyrir tollkrítarmálum og að ríkisstj. undir forustu Alþb.-manna,“ — hv. þdm. átta sig á orðalaginu — „sem fóru með fjármál í síðustu ríkisstj., hefði hjálpað mér. Það er líka rangt. Þetta hefur verið baráttumál síðan 1960 og það mál náði hámarki árið 1962 við stofnun tollvörugeymslunnar, ásamt öðru máli, sem enn er ekki komið í gegn, og það er fríhafnarmálið. Fríhafnarmálið, tollkrítarmálið og tollvörugeymslan voru baráttumál sem ég vann að að beiðni samtaka atvinnurekenda á þeim tíma.“

Þetta er örstutt tilvitnun í ræðu hæstv. ráðh. þar sem hann er að skýra kafla úr eigin stjórnmálasögu. Hv. 3. þm. Reykv. hefur þegar vikið að því í ræðu hér á undan hversu styrkum stoðum þessar söguskýringar hæstv. ráðh. nú standa. Því er ekki ástæða fyrir mig að vera að fara yfir þau efni, enda af nógu að taka í sambandi við málið sem hér er til umr.

Ég vakti athygli á því fyrr í ræðu minni um þetta mál hvernig hæstv. fjmrh. hefur það sem eitt helsta áhugamál sitt að lækka í ríkissjóði. Þetta er ekki fyrsta verk hans að því leyti. Ég skal ekki alveg segja hvar það er í töluröðinni. En þau eru sennilega nokkuð farin að nálgast tuginn þau mál og þær ákvarðanir sem hann hefur tekið sem varða í mjög verulegum mæli tekjur ríkissjóðs. Það er satt að segja með fádæmum, þegar þannig er staðið að málum, að hæstv. ráðh. hefur verið að tjá þjóðinni á þessu ári að hann standi frammi fyrir alveg geigvænlegu og ógnvekjandi og áður óþekktu vandamáli þar sem var tveggja milljarða gatið á þeim vísindalegu fjárlögum sem hann undirbjó og tekin var ákvörðun um af stjórnarliðinu við afgreiðslu fjárlaga. Þetta er nauðsynlegt að hafa í huga jafnframt því sem bent er á viðbrögð hæstv. ríkisstj. í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna og þar á meðal í sambandi við brtt. minni hl. fjvn. og einstakra hv. þm. sem stóðu að brtt. við fjárlagagerðina. Þau efni rakti ég í ræðu minni áður og þarf ekki að fara yfir það í einstökum atriðum lið fyrir lið, en stefna hæstv. fjmrh. nú er að bora enn eitt gatið á ríkissjóð þar sem drjúpa munu niður yfir 20 millj. kr. á þessu ári, 22 millj. kr. a. m. k., 44 á hinu næsta og 44 á árinu þar á eftir, að viðbættum 150 millj. kr. sem sú breyting hefur í för með sér að breytt er úr staðgreiðslukerfi bankanna í eftirágreiðslukerfi, eins og hér hefur verið rakið, 150 millj. kr. lækkun á tekjum ríkissjóðs á næstu tveimur komandi árum. Við hljótum, stjórnarandstæðingar, að minnast þess, þegar þannig er staðið að verki, að það var stuðningslið hæstv. fjmrh. og hann sjálfur sem felldu hér við fjárlagaafgreiðsluna í des. brtt., og einu sameiginlegu brtt. stjórnarandstöðunnar á þeim tíma, um 20 millj. kr. framlag til dagvistarstofnana í landinu. Það er lægri upphæð en svarar tekjurýrnuninni, milljónunum sem drjúpa í gegnum það gat sem hæstv. fjmrh. nú leggur allt kapp á að borað verði á ríkissjóð til lækkunar á tekjum hans á þessu ári. Ég held að nauðsynlegt sé við meðferð þessa máls, fyrst efnin eru svo góð hjá ríkissjóði, að það verði tekið til alveg sérstakrar athugunar í nefnd að tengja þessa tekjulækkun einhverri tiltekinni skynsamlegri ráðstöfun á fjármagni sem svarar til þess sem hæstv. ríkisstj. hefur efni á að láta renna út úr ríkissjóði með þessum hætti, með því að hygla bönkum og innlánsstofnunum með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir. Það væri kannske ekki úr vegi að það yrði skilyrt, ef það ætti að samþykkja lög sem þessi, að ekki minna en helmingi þessarar upphæðar verði varið til skynsamlegra verkefna, þ. e. upphæð sem svaraði til þess sem hæstv. ráðh. hefur efni á að kasta út úr ríkissjóði, eins og t. d. dagvistarstofnana í landinu. Ég held að það væri ástæða til þess að hv. alþm. tækju afstöðu til slíks máls í tengslum við frv. sem hér er lagt allt kapp á að afgreitt verði og haldnir næturfundir eftir næturfundi til að knýja í gegn á Alþingi.

Það eru ekki nema nokkrar vikur, ef það verður þá í vikum talið, síðan við tókum afstöðu til frv. ríkisstj. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum 1984, bandormsins fræga, og ég þarf ekki að minna á marga þætti þess máls hér og nú, en það er eitt atriði sem ég nefni hér sem dæmi vegna þess að það er aðeins brot af því sem nú er ætlunin að láta drjúpa út úr ríkissjóði á þessu ári, en það var sérstök brtt. flutt af meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 832 varðandi bandorminn svonefnda. Með leyfi forseta les ég 1. gr. þeirrar brtt., en hún var þannig:

„Á eftir 16. gr. frv. komi svohljóðandi ný grein og breytist töluröð annarra greina skv. því:

48. gr. laga nr. 63/1974, um grunnskóla, orðist svo:

Í 7.–9. bekk grunnskóla skulu deildir eigi vera færri en aldursflokkar þeir sem sækja þessa bekki skólans nema menntmrn. heimili annað í samráði við viðkomandi skólayfirvöld. Til þess að 8.–9. bekk grunnskóla verði haldið upp í skólahverfi má meðalfjöldi nemenda í deild ekki vera minni en tólf nema að fenginni heimild menntmrn.

Með þessari brtt. var verið að heimila menntmrn. að knýja á um að færðar séu saman bekkjadeildir í efri bekkjum grunnskóla og skerða í rauninni til muna möguleika til eðlilegs skólahalds úti um dreifbýlið í landinu, breyta frá því horfi sem verið hefur til þess að auðvelda hæstv. fjmrh. glímuna við gatið mikla, við það ginnungagap sem hann sagði þegar hann greip fram í fyrir mér í ræðu minni hinni fyrri að ríkisstj. hefði siglt með glæsibrag yfir, eins og hæstv. ráðh. orðaði það, en fleytti sér yfir á erlendum lántökum að meiri hluta.

Ég held að það sé vert í sambandi við þetta eina litla dæmi að það komi hér til skila viðhorf þeirra sem gerst mega þekkja til í þessum efnum, viðhorf Kennarasambands Íslands sem sendi okkur alþm. alveg nýverið stutt erindi sem samþykkt var samhljóða á stjórnarfundi Kennarasambands Íslands 17. maí 1984, undirritað fyrir hönd stjórnar af Valgeiri Gestssyni. Með leyfi forseta vildi ég fá að lesa þetta stutta erindi Kennarasambandsins hér upp. Ég held að það sé hollt fyrir hæstv. fjmrh. að heyra það og íhuga hvort það væri nú ekki skynsamlegt að eiga inni þessar 22 millj. á þessu ári og margfalt hærri upphæðir á hinu næsta til þess að þurfa ekki að ganga á þau réttindi sem tryggð áttu að vera með grunnskólalögum, en ríkisstj. sá ástæðu til að gera á sérstakar breytingar til að eiga eitthvað upp í gatið stóra hæstv. ráðh. Erindið er þannig:

„Stjórn Kennarasambands Íslands mótmælir harðlega áformum stjórnvalda um niðurskurð fjárveitinga til menntamála. Aukin samkennsla bekkja og árganga varðar nær eingöngu nemendur í fámennum skólum í dreifbýli og getur leitt til enn frekari aðstöðumunar þeirra miðað við þéttbýlisskóla. Hætt er við að lækkun launaliða í skólakostnaði um 2.5% leiði til aukins nemendafjölda í bekkjadeildum eða fækkunar kennslustunda og þar með skertrar kennslu.

Hlutfall ríkisútgjalda til skólamála hefur minnkað verulega undanfarin ár. Skólinn á því sífellt erfiðara með að sinna þeim auknu kröfum sem til hans eru gerðar um uppeldi og menntun. Stjórn Kennarasambands Íslands skorar á menntmrh. og Alþingi að koma í veg fyrir niðurskurð til skólamála. Þess í stað er nauðsynlegt að gera áætlun um fulla framkvæmd grunnskólalaganna og laga um samræmdan framhaldsskóla þannig að öll börn og ungmenni í landinu eigi sem jafnasta möguleika til náms í skólum er svara kröfum samfélagsins til almennrar menntunar og sérhæfðrar framhaldsmenntunar.“

Þetta er erindi stjórnar Kennarasambands Íslands til allra alþm. frá 17. maí s. l. og það er sent að gefnu og ærnu tilefni. Vill ekki hæstv. fjmrh. skýra það út fyrir okkur alþm. hvaða nauðsyn það er að gera þá breytingu á skattlagningu banka og innlánsstofnana í landinu til þess m. a. að ganga þannig á hlut nemenda í dreifbýli landsins alveg sérstaklega, aðstandenda þeirra og þeirra sem trúað hefur verið fyrir kennslu yngstu kynslóðarinnar í landinu? Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir okkur að heyra þau viðhorf því að þær upphæðir sem þarna er um að ræða eru án efa lægri, þær upphæðir sem hæstv. ráðh. ætlar að ná inn með skerðingu grunnskólalaganna, en það sem hann kastar út úr ríkissjóði ef hann knýr fram þá breytingu á skattlagningu banka og innlánsstofnana sem hér er stofnað til.

Ég ætla þá, virðulegi forseti, að víkja að nokkrum þeim fsp. sem hæstv. ráðh. lét vera að víkja að í næturræðu sinni í byrjun sólarhringsins 15. maí s. l. Ég þarf að sjálfsögðu, vegna þess að ég treysti því ekki að minni ráðh. nái alveg til þess sem sneri að þessum spurningum, að skýra þær með nokkrum orðum til að samhengið megi vera hæstv. ráðh. ljóst.

Ég bað hæstv. ráðh. um það í fyrsta lagi að gera okkur grein fyrir því hvort þær tölur, sem hann nefndi í ræðu sinni þá fyrr í umr., væru fram komnar frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, hvort fjárlaga- og hagsýslustofnun hefði gert úttekt á afleiðingum þess frv. sem hæstv. ráðh. bar hér fram, en ég hygg að það hafi skort allverulega á að fullnægt hafi verið lögboðnum ákvæðum laga nr. 13 frá 1979 um að skilmerkilegt yfirlit um tekjuáhrif þessa frv. fylgdi með þannig að menn gætu gert sér glögga grein fyrir því hver áhrifin væru af þessu frv. Hæstv. ráðh. hefur nefnilega borið brigður á þær tölur sem fram hafa verið bornar í sambandi við þetta mál og ég tel nauðsynlegt að hann geri skýra grein fyrir því hér við umr. hvaðan upplýsingar eru komnar og hvert er mat fjárlaga- og hagsýslustofnunar sérstaklega á tekjuáhrifum þessa frv. bæði eins og það var lagt fram upphaflega og með þeim breytingum sem meiri hl. ríkisstj. í hv. Ed. gerði á frv. sem eykur enn tekjutap ríkissjóðs frá því sem orðið hefði skv. frv. eins og það upphaflega var lagt fyrir.

Þetta var fyrsta beina fsp. mín til hæstv. ráðh., en þær voru fleiri, sem ég lagði fyrir hann, og kem ég þá næst að því sem sneri að húshitunarkostnaði í landinu. Eins og menn muna aflaði hæstv. fjmrh. sér með brbl. þann 27. maí 1983 heimildar til að taka lán ef þörf krefði að upphæð 150 millj. kr. til að tryggja lækkun húshitunarkostnaðar í landinu. Er tekið fram sérstaklega í þessum brbl., sem Alþingi síðan staðfesti, meiri hl. hæstv. ríkisstj. hér á þinginu, að hæstv. fjmrh. setti reglur um nýtingu þessa fjármagns. Ég staðhæfði við umr. að ekki hefði verið notaður einu sinni helmingur þessarar upphæðar í tilætluðu skyni, þessi afar mildandi aðgerð ríkisstj., sem átti að vera sérstök huggun fyrir dreifbýlisfólk í landinu, fyrir fólkið á „köldu svæðunum“ í landinu, hefði ekki verið nýtt eins og brbl. gerðu ráð fyrir og eins og ríkisstj. margtók fram og talsmenn hennar þegar verið var að réttlæta þær þungu álögur og þá stórfelldu kjaraskerðingu sem ríkisstj. knúði fram í krafti þessara brbl. Ég spurði hæstv. ráðh. og ég spyr hann enn: Hvað olli því að ekki var varið þessum fjármunum í tilætluðu skyni? Hver ber ábyrgð á því að það var ekki gert? Hver var sú upphæð að mati hæstv. ráðh. sem varið var í þessu skyni á árinu 1983? Ég hef aflað mér heimilda frá fjárlaga- og hagsýslustofnun um að aðeins hafi verið notaðar 70 millj. kr. í þessu skyni, en ekki 150 millj. kr. eins og heitið var sem sérstakri mildandi aðgerð. Er þetta röng staðhæfing af minni hálfu, hæstv. ráðh.? Ef svo er, hver var þá upphæðin sem notuð var á árinu 1983 skv. þessari sérstöku heimild og hver var það sem tók ákvörðun um þessi atriði? Hverjar voru reglurnar sem hæstv. ráðh. átti að setja skv. brbl. um þessi efni og er það á ábyrgð hans skv. þessum reglum sem svona fór með þetta mál? Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hæstv. ráðh. upplýsi okkur um það þegar hann ætlar afturvirkt að létta sköttum af bönkum í landinu, því að það er ekki aðeins að þessi skattalétting eigi að gilda fyrir yfirstandandi ár, heldur er samkv. frv. beinlínis gert ráð fyrir því að til endurgreiðslu geti komið til vesalings bankanna í landinu. Ef þeir hafi nú reitt af hendi skatta sem séu ekki skv. þessum lögum megi endurgreiða þeim vegna álagðra skatta og innheimtra skatta á árinu 1983. Þannig kemur þetta mál beint inn í þær brigður sem hæstv. ríkisstj. stóð að í sambandi við fjármagn til lækkunar á húshitunarkostnaði, fyrirheit sem snerust í argvítuga andhverfu sína í reynd skv. þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá fjárlaga- og hagsýslustofnun og iðnrn. En ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. standi hér fyrir máli sínu og greini okkur frá því hvaða upplýsingar hann hafi, hver ber ábyrgðina á þessu ráðslagi.

Ég vil þá jafnframt spyrja hæstv. ráðh. að því í tengslum við þetta hvort gert sé ráð fyrir því að það fjármagn, sem heimild var veitt til skv. brbl., sem staðfest hafa verið af Alþingi, og ekki var notað í umræddu skyni, liggi á lausu í sama skyni til að lækka húshitunarkostnaðinn á þessu ári því að sannarlega veitir þar ekki af að leggja eitthvað í púkkið. Ekki verður um lækkun að ræða frá því sem var við stjórnarskipti því að staðreyndir málsins eru allt aðrar eins og hér hefur margoft komið fram á hv. Alþingi að undanförnu. Ríkisstj. hefur staðið fyrir stórfelldri hækkun á orkukostnaði í landinu þann tíma sem hún hefur setið og þess munu fá dæmi að stjórnaraðilar hafi gengið jafngersamlega gegn einum helstu kosningaloforðum sínum við fólkið í hinum dreifðu byggðum í landinu. Það er svo til að bíta höfuðið af skömminni í þessu máli, sem nú virðist vera að verða staðreynd, að það stjfrv. sem hæstv. iðnrh. lofaði hér við fjárlagaafgreiðslu að ætti að bæta úr því misrétti sem hann hafði aukið við stórlega á síðasta ári, lofaði að kæmi fram á fyrstu dögum þings eftir áramót og leit loksins dagsins ljós þann 26. apríl s. l., sé að deyja drottni sínum, sé sofnað í hv. iðnn. Ed. með samþykki allra nm. Í því felst í rauninni ekkert annað en viðurkenning á því, sem ég hef bent á og ýmsir aðrir, að þetta frv. hæstv. iðnrh., sem ríkisstj. í heild stendur að, sé gagnslaust með öllu, færi ekki fólkinu í landinu, sem býr við eitthvert stærsta misréttið í þessum efnum, nokkra einustu úrbót frá ríkjandi ástandi. Þá er að sjálfsögðu ekki mikil ástæða til að vera að eyða tímanum á hv. Alþingi til að koma slíku frv. fram, enda var það, ef ég hef fengið réttar upplýsingar, sameinuð niðurstaða hv. iðnn. Ed. að það færi best á því að þetta frv. sofnaði í nefndinni. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Virðulegi forseti. Ég er e. t. v. staddur eitthvað nálægt miðju ræðu minnar, tæplega það þó miðað við þau mörgu atriði sem ég á eftir að gera skil, þar á meðal fsp. til hæstv. ráðh. sem hann lét ekki svo lítið að víkja að í ræðu sinni í byrjun dags 15. maí s. l. (Forseti: Ætlunin er að gefa matarhlé nú í einn og hálfan klukkutíma.) Virðulegi forseti. Ekki hef ég á móti því. — [Fundarhlé.]

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. forseta hafi orðið gott af málsverði og matarhléi og ekki síður að hæstv. forsrh. hafi bragðast vel grauturinn sem ég geri ráð fyrir að hann gæði sér á svipað og landsmenn á þessum misserum skv. forskrift hæstv. forsrh.

Þar var ég staddur í ræðu minni að ég var að inna hæstv. ráðh. eftir því hverju það ylli og hver bæri ábyrgð á því að ekki einu sinni helmingi af því fjármagni til lækkunar húshitunarkostnaðar, sem gert var ráð fyrir að ráðstafað yrði í því skyni á árinu 1983, virðist hafa verið komið til skila skv. fyrirheitum hæstv. ríkisstj. um svokallaðar mildandi aðgerðir. Ég vakti einnig athygli á því að hv. iðnn. Ed. hefði gert sér það ljóst samhljóða, eins og stjórnarandstaðan áður, að það stjfrv. um jöfnun hitunarkostnaðar, sem loks leit dagsins ljós 26. apríl s. l., væri nú sofnað að því er virtist í hv. n. skv. samhljóða niðurstöðu hennar eftir ítarlega skoðun málsins. Þetta er vissulega eðlileg niðurstaða hjá hv. þingnefnd og kemur það nú á daginn að hv. 11. landsk. þm., sem tók að sér það hlutskipti, ég held að ég verði að segja erfiða hlutskipti, að verða eins konar eftirlitsmaður með hæstv. iðnrh., hefur látið af því verða í reynd í sambandi við meðferð þessa máls, en eins og einhverja rekur kannske minni til lýsti hv. 11. landsk. þm. því fyrir lesendum DV í viðtali, sem þar birtist 13. ágúst 1983, hvernig þeir skiptu verkum, hæstv. iðnrh. og hann, báðir úr sama kjördæmi. Með leyfi hæstv. forseta, án þess að ég fari langt út í það ítarlega viðtal og þá lýsingu hv. 11. landsk., vil ég leyfa mér að hafa yfir örstutta tilvitnun í orð hans. Hann rakti sinn feril, sumpart óvænta feril, í sambandi við stjórnmálin og sagði m. a.:

„Úrslitin 1979 hljóta að teljast hending, en útkoman í ár er það ekki. Við bættum okkur meira en Sjálfstfl. gerði í nokkru öðru kjördæmi og fengum hærra hlutfall og miklu fleiri atkv. en flokkurinn hefur fengið nokkru sinni áður eða 400 atkv. fleira. Þetta gerir það að verkum að við erum tveir. Sverrir er ráðherra og Austfirðingar hafa nú með vissum hætti áhugaverðasta embættið í þessari ríkisstj., orku- og iðnaðarmál. Auðvitað verður eftir því litið að drengurinn standi sig.“

Þetta eru orð hv. 11. landsk. þm. í viðtali 13. ágúst s. l. „Auðvitað verður eftir því litið að drengurinn standi sig. Svo verð ég væntanlega áfram í fjvn. og við skulum vona að völdin minnki ekki við að komast í stjórnaraðstöðu. Og þið skuluð ekki láta líða yfir ykkur þó að ég komist á þing næst.“

Þetta er tilvitnun í orð þessa vaska eftirlitsmanns með hæstv. iðnrh. og hann hefur ekki látið með öllu sitja við orðin tóm því að við yfirferð á umræddu frv. um jöfnum húshitunarkostnaðar í hv. iðnn. Ed. hefur hann komist að þeirri réttu niðurstöðu að þetta frv. hæstv. iðnrh. væri betur geymt og líklega helst gleymt fremur en reyna að ýta því hér í gegnum þingið óbreyttu. Þetta var skynsamleg niðurstaða hjá hv. 11. landsk. þm. Það fer hins vegar ekki hjá því að landsmenn veiti því athygli að þegar þessu þingi lýkur sér ekki nokkurn staf til efnda á þeim kosningaloforðum sem oftast voru höfð yfir og hæst var talað um í vissum kjördæmum landsins þar sem misrétti er mest varðandi húshitunarkostnað en hefur aukist stórum í tíð núv. ríkisstj. þrátt fyrir loforðin og þrátt fyrir heimildina um auknar fjárveitingar til lækkunar. Ástæðan er vissulega sú, sem menn þekkja, að hæstv. iðnrh. og hæstv. ríkisstj. sáu til þess að orkuverðið hækkaði miklu meira en svaraði því fjármagni sem varið var til niðurgreiðslu og þar með til mótvægis þessum geysilegu hækkunum. Ég hef fyrr á þessu þingi, virðulegi forseti, vitnað til ummæla þessara hv. flokksbræðra núv. hæstv. fjmrh. í sambandi við húshitunarmálin og sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þau. Verkin tala hér sannarlega, verkin eða verkleysið á núv. hv. þingi í þessu máli, og ég er ansi hræddur um að þær verði heldur kaldar fyrirspurnirnar sem beint verður til hv. talsmanna núv. ríkisstj. um þetta efni af því fólki sem þreyja hefur mátt þorrann og góuna við meiri byrðar og ókjör í sambandi við orkukostnað en nokkurn tíma hafa þekkt hérlendis.

Hæstv. iðnrh. fékk sinn eftirlitsmann, en mér er ekki kunnugt um hver sé hinn sjálftilkvaddi eftirlitsmaður með hæstv. fjmrh. og sýnist mér þó að ekki væri vanþörf á að hann hefði einhverja til þess að halda í hönd sér í sambandi við meðferð ríkisfjármála, svo að ekki sé nú minnst á skattlagningu þá sem hér er til umr. og margar gerðir svipaðar sem hæstv. ráðh. hefur staðið fyrir. Hæstv. ráðh. hefur reynt að persónugera sig sem vökumann litla mannsins í þjóðfélaginu, en eitthvað hafa hlutverkin snúist við eða sýn ráðh. brenglast þegar litið er til þeirra og þegar hann er að velja þá úr sem hann telur að séu hjálpar þurfi öðrum fremur hér í þjóðfélaginu og þeir valdir úr sem létt er á skattbyrðum annars vegar og hinir sem skattbyrðar eru þyngdar á. Það er stundum talað um að faðirvorinu sé snúið upp á andskotann, minnir mig að það hafi verið orðað á kjarnyrtri íslensku, og það má með vissum hætti segja að svo fari í sambandi við þá sem telja sig vökumenn og vini litla mannsins í núv. hæstv. ríkisstj.

Ég hef þá komið á framfæri þeirri fsp. í sambandi við húshitunarmálin sem hæstv. fjmrh. vék sér undan að svara í ræðu sinni síðast þegar hann talaði í þessari umr. og ég gæti vissulega rifjað upp fleiri fsp. sem þar voru lagðar fyrir, en get látið þessar, sem ég hef hér nefnt, nægja úr máli mínu hinu fyrra. En ég vil hins vegar koma hér að nokkrum atriðum í viðbót sem snerta stýringu bankamála í landinu og það sem nýjast hefur fram komið eftir að við stóðum hér, hæstv. ráðh., til að ræða frv. sem hér er til umr. og það efni geri ég hér að umtalsefni vissulega að gefnu tilefni. Þar er um að ræða þær ákvarðanir sem bankastjórn Seðlabankans hefur kunngert að ákveðnar hafi verið í samráði við ríkisstj. varðandi lækkun á endurkaupahlutföllum um 5 prósentustig, en tilkynning þar að lútandi mun hafa verið gefin út þann 16. maí s. l. Ég sé, herra forseti, ástæðu til þess að rifja hér upp þessa tiltölulega stuttu fréttatilkynningu Seðlabankans um þetta efni og fara síðan um hana nokkrum orðum, með leyfi forseta. Hún er þannig:

„Bankastjórn Seðlabankans hefur, að höfðu samráði við ríkisstj. og bankaráðið, ákveðið að lækka núgildandi endurkaupahlutföll. Er þessi ákvörðun tekin í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstj. frá 27. maí 1983, en þar segir „að núverandi afurða- og rekstrarlánakerfi verði endurskoðuð með það í huga að þau verði á vegum viðskiptabanka“. Var þessi ásetningur síðan áréttaður með bréfi viðskrh. til bankans, dags. 12. júní 1983, þar sem óskað var tillagna um framkvæmd.

Sú breyting, sem hér er gert ráð fyrir, var veigamikill þáttur í því að ná betri stjórn á þróun peningamála. Á síðari hluta næstliðins árs og á þessu ári hefur ýmislegt verið gert, sérstaklega á sviði lánskjara, sem leiða mætti til betra jafnvægis í peningamálum og á lánamarkaði yfirleitt. Lengi hefur verið ljóst, að hin sjálfvirku endurkaup Seðlabankans hafa verið eitt meginvandamálið í stjórn peningamála. Auk þess hefur þetta kerfi valdið mismunun milli atvinnugreina, sem gengur gegn þeirri stefnu að jafna aðstöðu atvinnugreinanna á sem flestum sviðum.

Ýmsar athuganir hafa farið fram á því á hvern hátt væri best að framkvæma þá breytingu á endurkaupunum, sem stefnuyfirlýsing ríkisstj. gerir ráð fyrir. Niðurstaðan er sú, að við núverandi aðstæður sé eðlilegast að fyrsta skrefið verði breyting sem nái til allra endurkaupa og sé meðallækkun 5%, en skiptist þannig, að lækkun á endurkaupalánum, sem veitt eru í SDR, verði 4.5%, en á öðrum lánum 6% eða úr 52% í 47.5% og úr 48.5% í 42.5%.

Þessi lækkun mun þó ekki koma öll til framkvæmda í einu, heldur í meginatriðum í fjórum áföngum, þar sem því verður við komið, mánaðarlega til loka ágústmánaðar. Er þá höfð til hliðsjónar meðallengd endurkeyptra afurðalána sem hefur reynst vera um fjórir mánuðir.

Mun fyrsta lækkunin, um það bil 2% , koma til framkvæmda við endurkaup 20. þ. m.“

Þetta var fréttatilkynning Seðlabanka Íslands frá 16. maí s. l. og sú dagsetning sem um er að ræða er 20. maímánaðar s. l. Hér er um að ræða ákvörðun af hálfu Seðlabanka að höfðu samráði við ríkisstj. og bankaráð sem varðar ekki litlu fyrir bankastarfsemi í landinu og þó enn frekar atvinnuvegi í þessu landi, aðalframleiðsluatvinnuvegina í landinu. Og þó að málefni Seðlabankans heyri undir viðskrh., sem ekki mun nú vera á landinu og mér er ekki kunnugt um, virðulegi forseti, hver gegnir störfum hans í núv. ríkisstj., (Forseti: Forseta er ekki kunnugt um það.) leyfi ég mér að beina einnig þessu máli mínu til hæstv. fjmrh., sem er eini ráðh. sem hér er viðstaddur, þótt eðlilegra gæti talist að fá viðbrögð hæstv. forsrh. við þessu efni. (Gripið fram í.) Það er í sambandi við ákvörðun Seðlabankans um lækkun á endurkaupum afurðalána um 5% í áföngum. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hverjar hann telji að verði afleiðingar af þessari aðgerð fyrir framleiðsluatvinnuvegina í landinu og þá alveg sérstaklega fyrir sjávarútveginn, en einnig fyrir landbúnað. Vissulega mætti einnig taka iðnað inn í þessa mynd, en ég hygg að hlutfallsleg skerðing á afurðalánum iðnaðarins verði minni en hinna atvinnuveganna vegna þess að iðnaðurinn hefur ekki notið hinna svonefndu sjálfvirku endurkaupa í sama mæli og landbúnaður og sjávarútvegur. Þó var vissulega bót ráðin á endurkaupum á afurðalánum til iðnaðar í tíð síðustu ríkisstj., þannig að verulega munaði um til leiðréttingar milli þessara meginatvinnugreina, og var vissulega ánægjuefni hvernig Seðlabankinn kom á þeim tíma til móts við óskir ríkisstj. þar að lútandi. En ég hygg hins vegar að sú ákvörðun sem seðlabankinn nú hefur tekið um þetta efni að höfðu samráði við ríkisstj. og með tilvitnun í stjórnarsáttmála eigi eftir að verða framleiðsluatvinnuvegunum í landinu, ekki síst sjávarútveginum, þung í skauti ofan á aðra erfiðleika sem þar er við að fást. Ég vil inna hæstv. fjmrh. eftir því hvernig hann gerir ráð fyrir að viðskiptabankarnir, sem gert er ráð fyrir að bregðist hér við og taki við hlutverki Seðlabankans skv. þessari ákvörðun, muni bregðast við og hvort gera megi ráð fyrir að til komi vaxtahækkun af þeirra hálfu til þess að mæta þeirri auknu fjárþörf til úttána sem hlýtur að skapast, eigi þeir að geta sinnt því hlutverki sem Seðlabankinn ætlar að spara sér með þessari ákvörðun. Ég held að það hljóti að vera hverjum þeim ljóst sem þekkir til aðstæðna í okkar undirstöðuatvinnugreinum að sá samdráttur afurðalána, sem hér er verið að ákveða, mun leiða fyrr en varir til stöðvunar fyrirtækja sem notið hafa þessarar fyrirgreiðslu og sem sum hver hafa ekki verið of haldin. Ég vil spyrja hæstv. ráðh. eftir því hvaða ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu ríkisstj. í framhaldi af ákvörðun Seðlabankans hinn 16. maí s. l., eins og fram kemur í þessari fréttatilkynningu. Er kannske hugmyndin að þetta frv., sem hér er til umr., eigi að koma inn í þá mynd og sá aukni hagnaður bankanna? Ég hef ekki heyrt það, enda málið til komið áður en þessi ákvörðun var tekin af Seðlabanka og víst er um það að viðskiptabankarnir munu leitast við að halda sínu á þurru bæði með því að skrúfa fyrir afurðalánaveitingar, sem óskir munu koma fram um frá atvinnuvegunum í sambandi við þær þrengingar sem skapast vegna þessarar ákvörðunar Seðlabankans, og einnig með ákvörðunum um vaxtahækkanir. Hvernig hyggst ríkisstj. bregðast við þessu óefni, sem við mun blasa fyrr en varir í kjölfar þessara ákvarðana eftir að þær verða útfærðar? Ég tel alveg óhjákvæmilegt að fá viðbrögð hæstv. fjmrh. eða annarra talsmanna ríkisstj. eða þess sem gegnir starfi viðskrh. nú áður en fleiri hæstv. ráðherrar fara af landi brott, en svo virðist sem það eigi eftir að verða þunnskipað á þeim bekknum fyrr en varir, ef marka má fréttir af utanferðum sem ráðgerðar eru af hæstv. ráðherrum alveg á næstunni.

Ég vil svo áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, greina frá því að ég mun við þessa umr. flytja brtt. við það frv. sem ríkisstj. leitast hér við að knýja fram á næturfundum á hv. Alþingi, og á ekkert mál er lagt slíkt kapp nú eins og að fá lögfestingu á lækkun skatta hjá innlánsstofnunum í landinu. Ég tel alveg óhjákvæmilegt að ætli alþm. að standa að því máli, sem hér er knúið á um af meiri hluta, verði það a. m. k. tryggt að sá léttir skatta, sem ákveðinn yrði með meiri hl. hér á hv. Alþingi, komi ekki fram í því að létt sé af þeim stofnunum, sem hér um ræðir, gjöldum því að til þess eru engin efni að svo verði gert. Samsvarandi upphæð og þar yrði um að ræða ber að innheimta, að mínu mati, af innlánsstofnunum í landinu og tryggja að þær leggi það til þeirra mála sem nauðsynleg eru í þessu landi ef ekki á að vega enn frekar að því fólki sem þegar hafa verið lagðar á þungar og miklar byrðar af núv. ríkisstj. Ég mun gera það að tillögu minni og e. t. v. hefur þeirri till. þegar verið dreift til hv. þm. að gjald hliðstætt því sem létt verður af innlánsstofnunum verði í fyrsta lagi innheimt og því verði varið í tilteknu skyni, nánar tiltekið til dagvistarstofnana í landinu og skipt milli þeirra í hlutfalli við það sem lagt er til dagvistarstofnana á fjárlögum. Þetta verði gert með lögfestingu um að ekki megi koma til rýrnun á framlögum til dagvistarstofnana á þessu ári eða framvegis, heldur verði hér um viðbót að ræða til þessara mála. Ég trúi ekki öðru en að ef hv. alþm. sjá ástæðu til að fylgja einhverjum skattatæknilegum viðhorfum fram, eins og skilja mátti á hæstv. sjútvrh. sem tók þátt í umr. þessari á fyrra stigi, þá taki þeir a. m. k. undir brtt. af því tagi sem ég mun flytja hér varðandi ráðstöfun hliðstæðra tekna og innlánsstofnanir spara við breytingar á skattlagningu og lækkun á skatti.

Virðulegi forseti. Ég vék að því að þessi ríkisstj., sem nú situr við dvínandi vinsældir sem vonlegt er, þurfi að horfast í augu við að það er ekki með þegjandi þögninni sem við hv. stjórnarandstæðingar hér á þinginu tökum undir mál af þessu tagi. Ríkisstj. hefur, eins og komið hefur fram í þessari umr. og áður, gefið þjóðinni rækilega til kynna með hverjum það er sem hjarta hennar slær. Takmark hennar var augljóst þegar við myndun hennar og því takmarki hefur hún fylgt eftir trúverðug, þ. e. að flytja til fjármagn í þessu landi í ríkum mæli frá launafólki í landinu til eigenda fjármagns og til fyrirtækja. Þar hefur hæstv. fjmrh. verið einna fremstur í flokki, sá maður sem leyft hefur sér að gefa sér einkunnina „vinur litla mannsins númer eitt í ríkisstj.“ Ég held að sjaldan hafi upp komið þvílík öfugmæli þó að ég viti að hæstv. fjmrh. er ekki allt illa gefið. Vissulega má sjá þess merki á stundum, er hann hugsar sitt ráð, að hann vill gjarnan gera vel. En svo virðist fara sem góður ásetningur snúist upp í andstæðu sína, eins og gerist með flutningi þessa frv.

Hæstv. ráðh. hrósar sér gjarnan af því, þegar minnt er á aðgerðir hans til lækkunar skatta á síðasta ári og þessu ári, götin sem hann hefur verið að bora á þann ríkissjóð sem hann ræður fyrir, að hann hafi lækkað tolla á búsáhöldum í landinu. Það kann vissulega að vera góðra gjalda vert að geta vísað á einstök atriði sem slík. En þá ber líka að hafa í huga að hæstv. ríkisstj. hefur með stefnu sinni hagað málum þannig að almenningur í landinu getur sparað við sig búsáhöldin vegna þess að það er minna að hafa til hnífs og skeiðar og það svo að hæstv. landsfaðir, hæstv. forustumaður ríkisstj., hæstv. forsrh., hefur orðað það svo að menn geti látið sér nægja grautinn. Þar með fækkar búsáhöldunum sem menn þurfa að hafa á borðum sínum og hagsbæturnar af tollalækkunum hæstv. fjmrh. í þessu tilviki koma ekki fram sem ýkjamikill sparnaður.

Þetta frv., sem hér er reynt að knýja í gegnum þingið, er enn eitt tákn um þá stefnu ríkisstj. að færa fjármagn til þeirra sem síst skyldi og það á kostnað þeirra sem hafa þörf fyrir annað en að að þeim sé vegið með skattahækkunum, eins og teknar voru ákvarðanir um af hæstv. ríkisstj. í sambandi við breytingar á skattalögum.

Ég skal, virðulegi forseti, ekki lengja mál mitt, en ég vænti þess að hæstv. fjmrh. svari hér á eftir í umr. þeim fsp. sem ég hef fyrir hann lagt. Ég trúi ekki að hann vilji öðru sinni standa hér í stólnum og ræða þetta mál án þess að gera þeim skil og þær skipta margar ekki litlu. Á ég þar m. a. við þær ákvarðanir Seðlabankans sem ég vék að undir lok máls míns.