21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6485 í B-deild Alþingistíðinda. (6006)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. fjmrh. síðast ræddi þessi mál, sem nú eru til umr., hér í stól varð mér minnisstætt að eftir nokkurra klukkustunda umr. um það hvernig nú er umhorfs í fjármálum Íslendinga, eftir umr. sem höfðu orðið um ástand á íslenskum láglaunaheimilum, eftir umr. sem urðu um ýmsar aðgerðir sem birtust í bandorminum, þar sem klippt var utan af limgerði íslenskrar félagsþjónustu, hafði hæstv. ráðh. um þessi skattamál það að segja að þetta væri ósanngjarn skattur á gjaldeyristöku bankanna. Þá er um að ræða skattinn í sambandi við gjaldeyristökuna. Ósanngjarn skattur á gjaldeyristöku bankanna! Ég held að það ætti að setja þetta upp á gullskjöld og koma þessu líka í heimsmetabók Guinnes yfir verst tímasettu athugasemdir íslenskra stjórnmála, að rétt í kjölfar þess að búið er að draga stórkostlega saman á flestöllum sviðum íslenskrar félagsþjónustu, þegar búið er að skera niður aðstoð við t. d. tannlæknaþjónustu, þegar búið er að minnka rétt fólks til sjúkrapeninga, þá kemur vinur „litla mannsins“ í stól og ræðir þessi mál á bankatæknilegu plani og talar um þennan ósanngjarna skatt á gjaldeyristöku bankanna.

Það er hægt að ræða þessi mál frá ýmsum sjónarhólum. Það er velkomið að ræða þetta bankatæknilega eða skattatæknilega eða bankaskattatæknilega, allt eftir því hvernig menn vilja hafa það. Í sambandi við breytingar á lögum um skattskyldu innlánsstofnana eru vafalaust ýmis mál sem eiga góðan rétt á sér skattatæknilega. En þarna er líka um að ræða annan sjónarhól: afstöðu manna til samneyslu og virðingu manna fyrir félagskerfi sem hefur tekið áratugi að byggja upp og komið var á fót í fullri samvinnu allra stjórnmálaflokka á Íslandi.

Á sama tíma og hæstv. ríkisstj. gengur um og kvartar og ber sér yfir blankheitum, leitar með logandi ljósi að nýjum aðferðum til að spara í félagslega kerfinu eða reynir að koma á nýjum sköttum og tollum, þá vill hún af skattatæknilegum ástæðum borga á annað hundrað millj. íslenskra króna til þess að skattkerfið fari ekki eins í taugarnar á teknokrötum bankanna. Þannig er þetta nú. Þeim finnst þetta svolítið óþægilegt, það er ekki alveg nógu gott samræmi. Síðan eru ýmsar tæknilegar ástæður. Einhvern tíma í framtíðinni munu íslenskir bankar hugsanlega standa í samkeppni við erlenda banka og þá þurfa náttúrlega íslensk skattalög að gefa þeim tækifæri til að standa þar sæmilega jafnfætis. Ýmis slík atriði eru nefnd sem eins og ég segi eru skattatæknilegs eðlis. Og auðvitað skipta þau máli. Menn greinir ekki á um að þessar tillögur bankamálanefndar eru í sjálfu sér skynsamlegar. Deilan stendur hins vegar um það hvort núna sé rétti tíminn, hvort eftir allan niðurskurðinn í vetur og eftir allt blankheitatalið sé núna virkilega rétti tíminn til að splæsa á annað hundrað millj. í svona leiðréttingu, vegna þess að þessir peningar, sem við tökum frá ríkissjóðnum, munu birtast okkur aftur. Hvernig munu þeir birtast okkur? Þeir munu birtast okkur í erlendu láni í haust. Þeir peningar, sem ríkissjóðurinn afsakar sér núna, munu koma sem erlent lán í haust. Þess vegna er eðlilegt að spyrja: Telur fjmrh. skynsamlegt að taka erlent lán að upphæð á annað hundrað millj. íslenskra króna til að gera tæknilega breytingu á skattkerfi bankanna? Um það snýst málið. Við erum að tala um það hvort við viljum taka þessa peninga að láni í haust hjá erlendum bönkum til að geta lagað íslenska bankakerfið skattatæknilega. Ég held að svarið hljóti að verða nei.

Þegar við erum að ræða um afstöðu til samneyslu og afstöðu til félagslegrar þjónustu, þá er mjög fróðlegt að líta svolítið á feril ríkisstj. Sjónarmið hennar og viðmót birtist á sérstaklega skemmtilegan hátt í þessum örfáu orðum fjmrh., sem stendur hér uppi um miðja nótt, þegar verið er að ræða grundvallaratriði í sambandi við félagslega þjónustu og fjárhag almennings og talar um hinn ósanngjarna skatt á gjaldeyristöku bankanna. Hvernig byrjaði ríkisstj.? Við sáum fyrst til hennar í maí s. l. Og hvað sáum við til hennar í maí? Var það í einhverju samhengi við það sem er að gerast núna? Það var einmitt í samhengi við það sem er að gerast núna.

Þá kunni ríkisstj. enga leið út úr vandanum aðra en þá að skerða kjör fólks í landinu um 25%. Það gaf okkur tóninn. Og það er vissulega fróðlegt að líta á það sem síðan hefur gerst með hliðsjón af þessum fyrsta óhreina tón sem heyrðist frá hæstv. ríkisstj. í brbl. sem voru gefin út 27. maí s. l. Þá voru lífskjör skert á stórkostlegri hátt en nokkurn tíma hafði gerst áður í sögu Íslands. Og hvað fékk fólk til baka? Það fékk hækkun á persónuafslætti um 1500 kr. Það voru svona rúmar 120 kr. á mánuði síðasta ár. Þetta var fyrsta aðgerðin sem við sáum. Síðan fór sumarið í hönd með geigvænlegu blankheitatali. Í blöðum og fjölmiðlum og hvar sem tækifæri gafst til að koma þessum boðskap á framfæri vorum við undirbúin undir það sem gerðist síðan í vetur. Það var talað um að vissulega væri ágætt að geta staðið undir félagslegri þjónustu af ýmsu tagi. En til þess þyrfti peninga og við yrðum að gera okkur grein fyrir því að það sem við eyddum í skóla og það sem við eyddum í sjúkrahús þyrfti einhvers staðar að fást. Það þyrftu einhverjir að afla þessara peninga.

Við sjáum núna hvers konar undirbúningur þetta var. Þetta var undirbúningurinn að fjárlögum. Þar birtist í annað sinn á grímulausan hátt viðhorf þessarar ríkisstj. til samneyslu og til hinna láglaunuðu í þjóðfélaginu, til fólksins sem býr við verstu kjörin. Það sem gerðist í fjárlögunum var að þar var samviskulítið — ég vil ekki segja samviskulaust — skorið niður af einum félagslega þættinum á eftir öðrum: barnaheimili, skólar, sjúkraþjónusta, allt var skorið niður. Í umr. sem urðu um fjárlögin var síðan hnykkt á því sjónarmiði á hverjum einasta morgni í Þórshamri þar sem fjvn. sat að störfum og þar sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar reyndu eftir mætti að verja 20–30 ára framsókn íslenskra félagslegra sjónarmiða. Árangurinn sáum við síðan í fjárlögum sem voru lögð fram fyrir jól. Þá var gerð ein tilraunin enn til að bjarga því sem bjarga mátti. Það var lagður fram fjöldi brtt. til að reyna að lagfæra þar sem mönnum þótti harðast gengið fram, t. d. í sambandi við dagheimilamálin. Við vitum öll hvernig það fór. Ég vil leyfa mér að vitna í þessu sambandi í nál. minni hl. fjvn. sem lagt var fram í haust. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Fjárlagaafgreiðslan nú markar tímamót að því leyti að hafinn er markviss niðurskurður félagslegra réttinda og ráðist gegn þeirri félagshyggju sem á undanförnum áratugum hefur í æ ríkara mæli tryggt afkomuöryggi þeirra sem fyrir áföllum verða.

Til viðbótar stórfelldri skerðingu kaupmáttar lífeyrisbóta er við afgreiðslu fjárlaga lagt til atlögu gegn þeim réttindum sem sjúklingar hafa notið til ókeypis sjúkrahúsvistar, og stigin eru spor áratugi aftur í tímann þar sem ákveðið er að velta 355 millj. kr. útgjöldum af ríkissjóði yfir á þá sem þurfa á sjúkraþjónustu að halda. Þessi upphæð jafngildir um 7600 kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.

Hugur stjórnarflokkanna til jafnréttismála og hagsmuna barnafjölskyldna kemur skýrt fram í því að í fyrsta sinn eru engar framkvæmdafjárveitingar ætlaðar til þeirra dagvistarheimila sem áður hafa fengið fé á fjárlögum til undirbúnings og hönnunar.

Minni hl. fjvn. lítur svo á að ekki séu aðstæður til að flytja brtt. til hækkunar útgjalda svo að nokkru nemi umfram það sem fjvn. flytur sameiginlega. En vegna þess hversu brýn þörf er á auknu dagvistarrými víðast hvar á landinu telur minni hl. fjvn. að engan veginn verði við það unað að ríkisvaldið stöðvi allar fyrirætlanir sveitarfélaga um úrbætur í þessum málaflokki, auk þess sem tillögur um fjárveitingar til heimila í byggingu séu of lágar.“

Þetta var tilvitnun í nál. minni hl. fjvn. frá því í fjárlagaumr. fyrir jól. Þarna birtist okkur nefnilega í annað sinn þetta undarlega sjónarmið og þessi undarlega ást sem ríkisstj. hefur á því að skera niður það sem hún getur í öllu sem heitir félagsleg þjónusta.

Svo fórum við í jólafrí og engar stórkostlegar atlögur voru gerðar á meðan. En næst komu lánsfjárlög. Eitt af því fyrsta sem menn tóku eftir þegar farið var í gegnum lánsfjárlagafrv. var það, að allt sem hét fjármögnun húsnæðislánakerfisins stóð á miklum brauðfótum, svo að vægt sé til orða tekið. Það er óþarfi að fara í einstaka liði þar. Stjórnarandstaðan gagnrýndi þessi mál mjög harkalega og sýndi fram á með gildum rökum að þegar tölur í lánsfjáráætlun og frv. til lánsfjárlaga voru settar upp til þess að láta líta svo út sem fjárhagsgrundvöllur húsnæðislánakerfisins væri tryggur, þá var verið að slá einu sinni enn upp nýju fötunum keisarans, enda liðu ekki margar vikur þangað til í ljós kom að það voru engir peningar, þetta voru bara orðin tóm, Atvinnuleysistryggingasjóður gat ekki staðið við sitt o. s. frv. Allt saman varð þetta ljóst, enda kom þá í ljós að hinn félagslegi þáttur, hin félagslega hlið lánsfjárlagafrv. hafði greinilega staðið á brauðfótum. Þannig birtist einu sinni enn þessi undarlega ást vinar „litla mannsins“ á „litla manninum“.

Svo kom að bandorminum sem við getum sagt að væri þriðja meiri háttar fjárhagsmálið til umfjöllunar á þinginu. Það kom í kjölfar umræðunnar um „gatið“, sem frægt var orðið. Bandormurinn var niðurstaða þriggja mánaða leitar þar sem gengið var um alla afkima ríkiskerfisins með logandi ljósi og potað og potað og reynt að finna leið til að spara, að því er okkur var sagt. Það var litið inn í alla afkima.

Menn urðu náttúrlega vongóðir og sögðu: Kannske nú komi eitthvað af því sem ríkisstj. lofaði að gera. Og menn fóru að rifja upp alls konar áætlanir. Menn fóru að rifja upp það sem ríkisstj. ætlaði að gera í sambandi við breytingar á kerfinu. Menn fóru að rifja upp að ríkisstj. ætlaði að breyta öllu sjóðakerfinu og hún ætlaði að breyta Framkvæmdastofnun. Hún ætlaði að koma í veg fyrir óhóflega þenslu í bankakerfinu og hún ætlaði að endurskoða afurða- og rekstrarlánakerfið. Hún ætlaði að endurskipuleggja allt fjárfestingarsjóðakerfið. Það átti að breyta og bæta á stórkostlegan hátt til að koma nú í veg fyrir alla óráðsíuna sem þeir sögðu að hefði einkennt ríkisbúskapinn allt þangað til þeir tóku við.

Manni skildist að allt væri endurskoðað. Það voru skrifuð bréf til allra stofnana ríkisins, allir áttu að spara, alls staðar áttu að skila sér miklir peningar. Svo kom bandormurinn. Svo kom þessi stórkostlega tilraun til hagræðingar og sparnaðar í íslensku stjórnkerfi og íslensku hagkerfi. Enn þá einu sinni var keisarinn ber. Það kom í ljós að ekkert hafði gerst. Það má eiginlega skipta bandorminum í tvennt. Helmingur bandormsins er eins konar óskalisti og hinn helmingur bandormsins er niðurskurður félagslegra réttinda.

Ég hef nú því miður ekki þetta ágæta frv. hjá mér, en þessi partur kraftaverksins í íslenskum ríkisfjármálum, óskhyggjulistinn, hljóðaði eitthvað á þessa leið: Mikið væri nú gaman að spara í forsrn. Mikið væri gaman að spara í menntmrn. Mikið ósköp og skelfing væri gaman að spara svolítið í sjútvrn. Og ekki þætti okkur nú verra að spara svolítið í viðskrn. Við höfum fullan hug á því að spara í trmrn. Og svo höfum við náttúrlega hugsað okkur að spara í stofnunum ríkisins. Þetta er í raun og veru fyrri parturinn, þetta er óskhyggjulistinn yfir sparnaðaráform ríkisstj. sem eiga að skila 350–400 millj. ef ég man rétt. Það eina sem hönd á festir í þessu er rýmkun á niðurgreiðslum. Allt hitt er óskhyggjan tóm. Keisarinn er ber. Nýju fötin keisarans eru engin. Þetta er fyrri parturinn af bandorminum.

Seinni parturinn af bandorminum, þar sem virkilega kemur að því sem hönd á festir, þar sem við sj áum hvað ríkisstj. hefur getað gripið, það er ekki óskhyggjan ein, það eru áþreifanlegar tölur. Og í hverju felast þessar áþreifanlegu tölur? Þessar áþreifanlegu tölur felast t. d. í því að minnka stuðning ríkisins við tannréttingakostnað barna. Nú hugsar einhver: Ja, það mátti nú svo sem aldeilis taka eitthvað á því, þetta kostar svo mikið. Þar kemur í ljós kannske áralöng innibyrgð reiði yfir launum tannlækna. Og það getur vel verið að tannlæknar hafi allt of há laun. En málið er það, að á bak við meðaltöl um laun tannlækna og á bak við heildarniðurstöður um kostnað við tannréttingar er fólk. Það er fólk sem stendur á bak við, vegna þess að það eru börn sem eru með þessar skökku tennur, sem verið er að rétta. Og jafnvel þó ríkisstj. gæti sett það þannig upp að verið væri að spara 16 millj. kr. með því að minnka hlut hins opinbera úr 75% niður í 50%, þá var ekki nokkur leið að draga út úr fulltrúum ríkisvaldsins upplýsingar um það hvað þetta þýddi fyrir konuna í Breiðholtinu sem er svo ógæfusöm að eiga barn með skakkar tennur. Það var spurt og spurt. Fulltrúar rn. voru spurðir, fulltrúar frá Tryggingastofnun voru spurðir og enginn vissi. Þeir sögðu: Þetta sparar 16 millj. Og þeir sögðu: Tannréttingakostnaður var orðinn svo óheyrilega hár. Það varð að lækka tannréttingakostnaðinn. Það varð að auka þátt fólks í þessum kostnaði.

Við gerðum okkur það til dundurs og til upplýsingar í þeirri umr. að setja annað orð í staðinn fyrir „tannlækningakostnað“ og segja t. d.: Kostnaður vegna hjartasjúkdóma er orðinn svo hár, hann er orðinn ótrúlega hár og það verður að auka þátt fólksins í þeim kostnaði. Þá kom í ljós að það var hægt að upplýsa með einu símtali það sem um var spurt. Það var hringt til tannréttingasérfræðings. Það var spurt: Hvað kostar aðgerð við barn, sem er með tannskekkju sem þarf að lagfæra, ekki af fegrunarástæðum heldur vegna þess að þetta er læknisfræðilega þannig að það þarfnast lagfæringar. Hvað kom þá í ljós? Slík aðgerð kostar 70–80 þús. kr. Hlutur foreldra áður en bandormurinn kom til var upp á 15–20 þús. Nú hefur sá hlutur hækkað upp í 30–40 þús. Þetta er það sem sakleysisleg grein um að spara 16 millj. með því að lækka svolítið þátttöku hins opinbera í tannréttingum kostar fólk.

Þeir gleyma því nefnilega gjarnan, þeir háu herrar, að á bak við öll meðaltölin og bak við allar summurnar er fólk. Ef það lenti nú á einstæðri móður í Breiðholtinu að þurfa að borga þarna til viðbótar 15–20 þús. kr. fyrir tannréttingu á barni, sem hún á, þá er fljótur að fara 1500-kallinn sem hún fékk í persónuafsláttar aukninguna síðast. Það þarf 10 1500-kalla bara í þessa einu tannréttingaaðgerð. Ég ætla að vona að þessi kona sé ekki svo óheppin að eiga fleiri en eitt barn sem þarfnast slíkrar aðgerðar.

Þarna birtist okkur í einu litlu dæmi frækileg framganga ríkisstj., sem var búin að ganga, að því er hún sagði, í gegnum ríkiskerfið með logandi ljósi, kanna hvern einasta þátt, því að nú átti að taka á kerfinu og nú átti að spara. Og hvað fundu þeir? Krakka með skakkar tennur. Þannig birtist vinur „litla mannsins“ í því tilfelli.

Við höfum fleiri dæmi. Við höfum t. d. dæmi um það hvernig var uppgötvaður skattstofninn: sjúklingar sem þurfa á lyfjum að halda. Það var skattstofn sem ekki hörfaði undan. Það var skattstofn sem ekki gat veitt jafnharkalega mótstöðu eins og sjóðakerfið og Framkvæmdastofnun og allir sukkararnir hinir virðast hafa gert. Þessi skattstofn, þessir gjaldendur komust ekki neitt vegna þess að þeir þurftu að fá sín lyf. Fram að þessu höfðu þeir þurft að borga 100 kr. Nú eiga þeir að borga 300 kr. Þannig hverfur með einum einasta lyfseðli tveggja mánaða hækkun persónuafsláttarins sem þetta fólk fékk á síðasta ári. Hann er fljótur að fara 1500 kallinn sem ríkisstj. af sinni miklu náð gaf íslensku láglaunafólki þann 27. maí s. l. Þannig birtist sú mikla náð. Þetta var fólk sem ekki komst neitt vegna þess að það þurfti á sínum lyfjum að halda. Hins vegar skín þó þarna í gegn á dálítið skemmtilegan hátt nýsköpunarviðleitnin. Það verður að gefa þeim það sem þeir eiga. Þarna sáu ríkisstjórnarspekúlantarnir nefnilega loksins örla á svolítilli nýsköpun. Vitið það hvernig? Maður getur spurt: Hvernig er það nýsköpun, hvernig er það tiltekt í kerfinu, hvernig er það breyting að hækka lyf úr 100 kr. upp í 300? Vitið þið hvernig? Það minnkar eftirspurnina eftir lyfjum. Þannig ríkja markaðslögmálin líka í lyfjunum. Líklega minnkar það að fólk sé t. d. að taka magnyl að ástæðulausu. Það minnkar að fólk sé að vandra til sérfræðings að ástæðulausu vegna þess að sérfræðiheimsóknirnar hækkuðu líka upp í 300. Þarna eru líklega að verki nýju mennirnir í Sjálfstfl. Svona birtist þeirra frjálshyggja: að minnka eftirspurnina með því að hækka lyfin og pillurnar og hækka þetta sérfræðingaráp. Þetta er óþarfi. Fólk er að rápa til sérfræðings. Til hvers á að vera að ýta undir það að fólk sé að rápa til sérfræðings? Það er ekkert að því. Það er bara kvein. Minnka eftirspurnina. Því verður ekki neitað að það er nýsköpun í þessu, talsverð nýsköpun.

Þarna höfum við tekið tvö lítil dæmi um það hvernig sama meginstefnan hefur ríkt allan tímann hjá hæstv. ríkisstj. allt frá því að hún setti lög 27. maí sem náttúrlega sviptu allt fólk í landinu lýðræði og lækkuðu launin um 25%. Þar birtist þessi stefna. Það sást að hverjum hún vildi og að hverjum hún þorði að ganga. Þetta sást aftur í fjárlögunum, þetta sást aftur í lánsfjárlögunum og svo kom það í bandorminum. En hvað segir fólkið í landinu um þetta? Ja, eftir því sem manni skilst þá er fólkið í landinu farið að hafa svolitlar áhyggjur af þessu. Menn komu að vísu, þjóðin öll, í maí og júní undan hetjaráróðursherferð með þrúgandi samviskubit yfir allri velferðinni og allri eyðsluseminni. Menn voru að drepast úr samviskubiti yfir því að hafa lifað svo mikið um efni fram að menn tóku því þegjandi að tekin var af þeim fjórða hver króna. Og menn undu þessu nokkuð lengi vegna þess að menn sættu sig við röksemdafærsluna. Röksemdafærslan var þessi: Það verður að styrkja fyrirtækin í landinu vegna þess að á þessum fyrirtækjum lifið þið. Ef þessi fyrirtæki drepast þá drepist þið. Það varð því umfram allt að láta fyrirtækin lifa. En nú er fólk farið að velta þessu fyrir sér. Fólk er farið að segja: Fyrirtækin virðast lifa ágætlega en þau borga ekkert hærra kaup. Hvað eigum við að taka þessu lengi? Hvað eigum við að taka því lengi að í hvert einasta skipti sem hæstv. fjmrh. leggur fram eitthvert plan í íslenskri fjármálapólitík er ráðist á okkur. Hvað eigum við að taka þessu lengi?

Það hefur komið í ljós við ýmsar kannanir, sem hafa verið gerðar að undanförnu, að fólk er farið að draga þetta mjög í efa. Fólk er farið að segja við sjálft sig: Þetta er líklega bara blöff, alveg eins og nýju fötin keisarans. Líklega er þetta ekki til þess að lækka verðbólguna. Kannske er þetta engin framtíðarlausn. Kannske er það engin frambúðarlausn. Það kemur a. m. k. í ljós að stórfellt fleiri en áður eru orðnir þeirrar skoðunar að þetta sé bara eins og nýjustu fötin keisarans, að keisarinn sé ber. Það kemur líka í ljós af umr. innan verkalýðshreyfingarinnar að fólk er ekki tilbúið að láta bjóða sér þetta endalaust. Fólk sem ekki vildi fara í verkfall í vor, ekki vildi fara í verkfall í vetur talar um að fara í verkfall í september. Það er ekki af því að einhver stórkostleg herferð hafi verið rekin til þess að reyna að ota því út í verkfali. Við vitum öll að það hafa engin viðlesin málgögn á Íslandi, það hafa engir þeir fjölmiðlar sem virkilega væru nýtanlegir til þess að koma af stað einhverri múgsherferð, það hafa engir slíkir fjölmiðlar haldið því að fólki að fara í verkfall. Og ekki hafa verkalýðsfélögin æst til verkfalls. Fólk er bara búið að koma auga á það að þetta er allt saman blöff, að lausnir hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstj. hafa aldrei verið aðrar en þær að taka peninga frá fólkinu í landinu. Það er hinn beiski sannleikur. Hin mikla endurreisn íslenskra atvinnuvega, sem átt hefur að reisa fólkið upp úr öskustónni, er ekki hafin. Það hefur ekkert verið endurreist.

Ef blaðað er í gegnum þjóðhagsáætlun fyrir árið 1984, sem samin var í haust, og leitað að einhverjum framtíðarlausnum þá eru þær engar. Maður flettir upp í kaflanum um málefni atvinnuveganna. Þar er bara eitthvert kjaftæði. Afsakið forseti, ég ætlaði nú ekki að vera grófur, en ég get eiginlega ekki notað öllu fínlegra orð um kaflann um málefni atvinnuveganna í þessari áætlun. Það er ekkert, það er ekki glæta þar sem bendir til þess að menn séu neitt búnir að hugsa fyrir því hvernig á að létta þessu oki af fólkinu í landinu þannig að næst þegar fjár verður vant verði róið á einhver önnur mið.

Hins vegar uppgötvaði ríkisstj. framtíðina á fundi á Akureyri fyrir nokkrum vikum. Þá fór helmingur ríkisstj. á fund á Akureyri í þrjá daga og stökk 300 ár fram í tímann í hugsunarhætti. Þeir uppgötvuðu framtíðina á Akureyri. Og þeir ákváðu að eyða miklum peningum í endurreisn íslenskra atvinnuvega. Ætluðu þeir að styrkja líftækni með 500 þús. eða ætluðu þeir að styrkja rannsóknir á Íslandi með 5 millj.? Nei, þeir ætluðu sko að styrkja þennan bransa með 500 millj. Það munar ekkert um það. Þegar þeir loksins fundu framtíðina fundu þeir líka 500 millj. sem hún þurfti til þess að komast á legg. Maður var kannske að vona að þetta væri merki um það að íslensk stjórnvöld uppgötvuðu að við eigum 20 ára skuld að gjalda íslensku menntakerfi og íslensku rannsóknakerfi, vegna þess að þegar við lítum í kringum okkur og horfum á hina nýju atvinnuvegi, hátæknigreinarnar, nýtæknigreinarnar, sem eru að vaxa upp í öllum löndum í kringum okkur, þá eru þær ekki bara orðnar til vegna þess að einhver strákur hafi fundið hvernig er hægt að láta bakteríur breyta skógi í metanól. Nei, þessar aðferðir eru orðnar til vegna þess að þessi lönd fjárfestu í menntun og fjárfestu í rannsóknum og eru nú að uppskera, sum eftir 20 ár.

Ég ætla að vona að Sjálfstfl. skreppi nú til Akureyrar og finni framtíðina líka, vegna þess að ef hún er svo augljós þar ætti jafnvel Sjálfstfl. að geta séð hvert menn þurfa að ganga á næstu árum. Þess vegna ætla ég að gera það að tillögu minni að nú strax eftir þinglausnir fari Sjálfstfl. svo sem eins og þrjá daga — þrír dagar dugðu Framsókn, þá hljóta þrír dagar að duga Sjálfstfl. líka — til Akureyrar að leita framtíðarinnar. Þeir voru þar á opnum þingflokksfundi í vetur en framtíðin birtist þeim í öllu falli ekki þá. Þeir áttu nú í hálfgerðu veseni út af bankastjóramálum þá líka svo að það hefur kannske verið annað sem olli þeim áhyggjum. Það eru þessi atriði sem eru þau einu sem geta létt okinu af íslensku fólki þegar til lengdar lætur. En málið er að íslenskir launþegar, sem er búið að höggva í núna þrisvar, fjórum sinnum í röð, geta ekki beðið í öll þessi ár. Þeir geta ekki beðið eftir þessari uppskeru. Þeir krefjast og þeir verða að fá úrbætur innan skamms. En ríkisstj. hefur enn þá ekki fundið neina leið. Hún hefur ekkert gert annað en að tala um það og býsnast yfir því að helmingur hennar fann framtíðina á Akureyri.

Virðulegi forseti. Hérna höfum við farið yfir það í grófum dráttum hvernig stefna ríkisstj. hefur birst fólki í stærstu stjórnvaldsaðgerðum hennar frá því að hún komst að. Við höfum rakið það hvernig sami óhreini tónninn hefur verið sleginn í maí með brbl., í haust með fjárlögunum, fyrr í vetur með lánsfjárlögum og síðan með bandorminum. Hæstv. ríkisstj. hefur alltaf fundið gjaldandann, fólkið í landinu, sem hefur átt sér engrar undankomu auðið. Hún hefur aldrei gengið að því að dreifa þessum byrðum. Hún hefur aldrei reynt að búa svo í haginn að þetta hörmungarástand verði ekki hér viðvarandi næstu fjögur árin. (Forseti JS: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni. Það hefur verið óskað eftir hléi til þingflokksfunda næstu 20 mínúturnar.) Ég á talsvert eftir. Ætli ég sé ekki svona um það bil hálfnaður. (Forseti: Þá vil ég spyrja hv. ræðumann hvort hann geti fallist á að gera hlé núna á ræðu sinni og taka aftur til máls að loknum þingflokksfundum?) Já, ég mun gera það með ánægju. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég fór hér í fyrri hluta ræðu minnar yfir afrekaskrá ríkisstj. og það hvernig hún hefur tekið á ýmsum málum er varða afstöðu til félagslegrar þjónustu í landinu og þeirra sem lægst og verst kjörin hafa. Ég sýndi fram á hvernig altar aðgerðir stjórnarinnar í svokölluðum ríkisfjármálum hingað til hafa beinst að því einu að taka frá þessu fólki á einhvern hátt, annaðhvort með því að rukka það um meiri peninga fyrir lyfin sín eða láta það borga stærri hluta af tannréttingum barna sinna eða á ýmsan annan hátt. Allar þessar aðgerðir hafa á einhvern hátt höggvið í þennan sama knérunn. En það hefur ekkert verið tekið á því sem allir eru þó sammála um, þ. á m. seðlabankastjóri, að séu rætur meinsemdanna í íslenskri pólitík.

Þess vegna erum við komin að því einu sinni enn að áformaðar breytingar á gjaldainnheimtu af bönkunum eru þessu sama marki brenndar. Á sama tíma og talinn er nauðsynlegur niðurskurður á félagslegri þjónustu í stórum stíl, á sama tíma og tekin eru lán til að kosta rekstur ríkisins, kaupa blýanta og penna, á sama tíma og erlend lán eru bjargráðið í ríkisbúskapnum, þá á núna að taka erlent lán fyrir eitthvað á annað hundrað millj. kr. til þess að koma á skattatæknilegri breytingu í bankakerfinu. Á það get ég alls ekki fallist, vegna þess að þeir peningar sem út úr ríkissjóðnum renna við þessa breytingu verða teknir að láni á erlendum lánamarkaði í haust. Það hlýt ég að áfellast.