21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6493 í B-deild Alþingistíðinda. (6007)

306. mál, skattskylda innlánsstofnana

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að halda hér allyfirgripsmikla ræðu og ítarlega um þetta mál og væri sannarlega full þörf á. Við nánari umhugsun hef ég þó ákveðið að stytta nokkuð mál mitt. Ber þar margt til. Hér hafa þegar verið haldnar mjög vandaðar og yfirgripsmiklar ræður þar sem þessu hafa verið gerð rækileg skil. Þarf því kannske ekki að bæta svo ýkjamiklu við þær. Það eru þó örfá atriði sem ég ætla að leyfa mér að fjalla hér um í nokkrum orðum. Þá er fyrst til að taka það sem ég er ánægður með og sáttur við í þessum frv.-bálki.

Ég vil taka undir þau ákvæði sem birtast í 2. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta: „Innlánsstofnanir með lægri heildarinnlán en 50 millj. kr. í lok næsta árs á undan tekjuári skulu undanþegnar skattgreiðslum skv. lögum þessum, en skulu engu að síður framtalsskyldar.“

Ég held að það sé í raun og veru full þörf á að hafa þetta svo. Margar af hinum smæstu innlánsstofnunum skipta sáralitlu í þessu heildardæmi. Þær stofnanir sem hér um ræðir munu velta um 4% af innlánsfé landsmanna. Þær eru engu að síður mikilvægar stofnanir hver á sínum stað og ákveðið sjálfstæðismál að þær haldi lífi sínu, en mér skilst að á því sé allur gangur um þessar mundir hversu vel þær standa. Þessi skattur er þeim á sinn hátt miklu þyngri í skauti en hann hefur verið hinum stærri aðilum f þessu dæmi. Ég vil því, herra forseti, taka undir þetta atriði til þess að byrja á því sem jákvætt má kallast í þessu frv. Er upptalningu á því þar með lokið.

Hitt væri miklu lengra mál, að fara yfir allt sem finna má þessu til foráttu, en eins og ég sagði áðan hefur nú þegar verið vikið rækilega að því. Ég kemst þó ekki hjá því, herra forseti, að fjalla örlítið um það sem er að gerast á peningamarkaðinum einmitt þessa dagana, því að það skiptir að sjálfsögðu miklu máli í þessu samhengi. Þannig hefur hið mikla vald, alvald Seðlabankans, gefið út fréttatilkynningu, eins og það gerir gjarnan þegar það tekur stærstu ákvarðanir í efnahagslífi landsmanna, þá gefur það út stutta, snotra fréttatilkynningu, þar sem það tilkynnir þjóðinni að þetta hafi nú Seðlabankinn ákveðið að gera, eins og kom um daginn, þar sem frá því var skýrt að Seðlabankinn ætlaði að lækka innkaupsskyldu sína á afurðatánum. Þetta gerist örfáum dögum eftir að hér hefur verið til umfjöllunar annað frv. til l., svonefndur bandormur, þar sem Seðlabankinn fær í III. kafla 25. gr. þessa frv. heimild til að ákveða allt að 10% sveigjanlega bindiskyldu innlánsstofnana til viðbótar þeirri bindiskyldu sem fyrir er.

Þetta samhengi er atveg nauðsynlegt að menn hafi í huga þegar fjallað er um þetta mál, enda gaf hæstv. ríkisstj. upp boltann í þessum efnum þegar hún setti fram sína frægu grænu bók, sem er hér framsóknargræn, dags. 26. maí 1983. Þar segir í kafla um endurskipulagningu í stjórnkerfi og peninga- og lánastofnunum, í 2. lið neðarlega á síðunni:

„Núverandi afurða- og rekstrarlánakerfi verði endurskoðað, m. a. með það í huga, að þau verði á vegum viðskiptabanka.“ Sennilega er það liður í því að auðvelda viðskiptabönkunum að taka þetta hlutskipti á herðar sínar að auka bindiskyldu þeirra hjá Seðlabankanum um 10%. Það er sennilega þannig sem á að fara að því að auðvelda minni viðskiptabönkum og innlánsstofnunum að yfirtaka þetta hlutverk afurðalánanna, að festa fyrstu 10% til viðbótar af fé þeirra í Seðlabankanum. Þannig virðist a. m. k. hæstv. ríkisstj. hugsa þessa dagana.

Reyndar væri fróðlegt að fara yfir það hér hvernig 1. lið í þessum kafla um stjórnkerfi og peninga- og lánastofnanir í stefnuskrá ríkisstj., grænu bókinni, hefur reitt af. Þar segir nefnilega, og ég ætla að lesa þetta fyrir hv. þm. Friðrik Sophusson, sem oft þykist nú hafa ákveðið vit á efnahagsmálum, þar segir, með leyfi forseta:

„Komið verði í veg fyrir óhóflega útþenslu í bankakerfinu með heildarlöggjöf um banka og sparisjóði.“ Þessi vaxtamál og slíkt, sem er að birtast okkur þessa dagana, eru sennilega aðgerðir ríkisstj. til að koma í veg fyrir óhóflega þenslu í bankakerfinu. Þá er fróðlegt að lesa grg. með bandorminum, þar sem fjallað er nokkuð um árangurinn af þessum störfum ríkisstj. til að koma í veg fyrir óhóflega þenslu í peningakerfinu. það væri kannske fróðlegt fyrir hæstv. fjmrh. að hlusta á þetta líka ef hann hefur ekki þegar lært þetta utan að. Þar segir einmitt, með leyfi forseta:

„Við þau skilyrði í þjóðarbúskapnum sem nú ríkja steðjar vandinn í stjórn peningamála að frá báðum hliðum:“ — Ljótt er það, maður. — „peningauppsprettu frá ríkissjóðshalla, endurkaupum og erlendum lánum annars vegar og mikilli lánsfjáreftirspurn hins vegar til þess að mæta víðtækum fjárhagsörðugleikum fyrirtækja og einstaklinga.“ — Þeir hafa þá nú reyndar með þarna, einstaklingana. Það er nú sjálfgert að sjá þá með umfjöllun ríkisstj. um efnahagsmál. Og svo segir með leyfi forseta: „Þessu fylgir mikið álag á bankakerfið og hefur leitt til mikillar aukningar útlána. Á fyrsta fjórðungi ársins hafa útlán aukist um 9.1% og innlán með áætluðum vöxtum um 8.9%, eða um 42% að ársvexti, meðan verðbólgustig telst um eða innan við 15%, en aukning þessi svarar jafnframt til nálægt tvöfaldri meðatársávöxtun á vegum innlánsstofnana. Óhagstæð þróun inn- og útlána hefur leitt til neikvæðrar lausafjárstöðu innlánsstofnana um tveggja ára skeið, og var hún neikvæð um 1029 millj. kr. í marslok.“

Þannig standa nú þessi fyrirheit ríkisstj. um að koma einhverjum böndum á óstjórnina í peningamálum og hefst á þenslu í bankakerfinu. Þeir gefa það út sjálfir í grg. með sínum eigin bandormi að þetta hafi alls ekki tekist, vandinn steðji að úr öllum áttum. Í þeim sama bandormi eru svo jafnframt gerðar tillögur um að auka bindiskyldu innlánsstofnana um 10%. Ef þetta er ekki að fara í hring í kringum sjálfan sig og reyndar marga hringi þá veit ég ekki hvað það er.

Rækilega hefur verið rakið hér, herra forseti, það siðferði sem felst í þessum ráðstöfunum hæstv. ríkisstj., að skattpína almenning og skera niður opinbera þjónustu og bera þá við peningaleysi, á sama tíma og af einhverjum stöndugustu aðilunum í þessu þjóðfélagi, þeim einu sem nú um stundir, ef svo má segja, hafa efni á því að vera að saga gabbró og gefa málverk út um hvippinn og hvappinn og sækja um það að opna útibú hér og útibú þar, nógir peningar hvort sem það er í listaverk eða byggingarframkvæmdir, af þeim á nú að létta sköttum, eins og ástandið er hjá einstaklingunum í dag í þessu þjóðfélagi. Ég þarf ekki að bæta fleiri orðum við þetta en mun að sjálfsögðu ekki styðja þetta frv. sem hér er flutt með svo sérkennilegum hætti á þessum tíma.