21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6499 í B-deild Alþingistíðinda. (6013)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Minni hl. fjh.- og viðskn. Nd., sem þeir skipa Guðmundur Einarsson og Svavar Gestsson, skilar svofelldu áliti um frv. þetta:

„Undirritaðir nm. telja ekki eðlilegt að koma til móts við fólk vegna mikils tannlæknakostnaðar með breytingum á lögum um tekju- og eignarskatt. Ástæðan er sú að slík aðgerð kæmi þeim einum að notum sem greiða tekjuskatt, en þeir sem skattlausir eru, eru jafnframt þeir tekjulægstu og þurfa helst á stuðningi að halda. Undirritaðir telja því eðlilegast að leysa þann vanda með því að breyta lögum um almannatryggingarnar þannig að skylt verði að greiða hluta tannviðgerðakostnaðar almennt auk þeirra greiðslna sem nú er um að ræða skv. almannatryggingalögum. Augljóst er að heimilt er að auka greiðslur til tannviðgerða skv. gildandi lögum eins og ákveðið var á s. l. ári með setningu reglugerðar. Núv. ríkisstj. felldi þá reglugerð úr gildi með skírskotun til þess að fjármagn skorti. Undirritaðir nm. telja að núv. ríkisstj. hafi þá sýnt að hún er andvíg aukinni samneyslu og það er fyrst og fremst á grundvelli þeirrar pólitísku afstöðu sem reglugerðin var afnumin. Í þessu sambandi má benda á að þessa dagana er Alþingi að fjalla um sérstaka lækkun á bankasköttum sem dygði til þess að greiða verulega þátttöku ríkisins í tannviðgerðakostnaði. Undirritaðir flytja því á sérstöku þskj. frv. um breytingu á almannatryggingalögum þar sem gert er ráð fyrir því að almannatryggingarnar greiði 20% tannviðgerðakostnaðar. Þetta væri þá fyrsta skrefið í átt til þess að taka tannlæknakostnað inn í almannatryggingakerfið.

Með tilliti til þess að meiri hl. Alþingis hefur nú ákveðið að lækka hlutfall ríkisins í tannviðgerðum barna og unglinga sýnist örvænt um að almenn þátttaka í tannviðgerðum eigi stuðning á Alþingi. Tillaga um breytingu á almannatryggingalögum er því flutt til þess að sýna þann pólitíska vilja sem undirritaðir nm. vilja leggja áherslu á.“

Í samræmi við þetta nál. höfum við flutt frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, sem er á þskj. 874, 357. mál. Þar er gert ráð fyrir því að 1. gr. orðist svo, að á eftir 5. tölul. 44. gr. almannatryggingalaganna komi nýr tölul. sem verði 6. tölul. og orðist svo:

„Fyrir einstaklinga sem ekki falla undir 1.–5. tölul. skal greiða 20% kostnaðar við tannlækningar aðrar en gullfyllingar, krónur eða brýr.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Þessu frv. fylgir svohljóðandi grg.:

„Þetta frv. er flutt af tveimur nm. í minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. Ástæðan er sú að fyrir n. hefur legið frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt sem gerir ráð fyrir því að menn fái afslátt frá tekjuskatti ef þeir verða fyrir verulegum útgjöldum vegna tannviðgerðakostnaðar. Flm. telja eðlilegra að almannasjóðir komi til móts við fólk vegna tannviðgerðakostnaðar með breytingu á almannatryggingalögum eða með reglugerð á grundvelli þeirra. Núv. ríkisstj. hefur afnumið reglugerð sem taka átti gildi á s. l. ári um þátttöku ríkisins í almennum tannviðgerðakostnaði. Jafnframt hefur meiri hl. á Alþingi lækkað framlög ríkisins til tannviðgerða samkv. frv. um ríkisfjármál sem liggur fyrir Alþingi. Ólíklegt virðist því að meiri hl. sé á Alþingi fyrir þessari breytingu á lögum um almannatryggingar, enda er frv. flutt til þess að sýna afstöðu flm. í þessum efnum, jafnframt því sem þeir taka þátt í afgreiðslu á frv. um breytingu á lögum um tekju- og eignarskatt sem er 37. mál þingsins, þskj. 38.“

Með þessum orðum, herra forseti, hef ég gert grein fyrir áliti 2. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. sem þeir skipa Guðmundur Einarsson og Svavar Gestsson.