21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6507 í B-deild Alþingistíðinda. (6016)

37. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Saga þessa máls er vissulega, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur rakið, orðin öll hin skemmtilegasta. Eiginlega sakna ég einskis annars en að endirinn verði sá að hér stigi í pontu hæstv. heilbr.- og trmrh. og bendi flm. á að eðlilegast væri að hér kæmi fram breyting á almannatryggingalögum. Þá væri málið komið í skemmtilegan hring.

Ég hlýt að minnsta kosti að hreinsa mannorð mitt í þessu máli þar sem ég var formaður heilbr.- og trn. s. l. kjörtímabil og er reyndar meðflm. að frv. sem hér er til umr. Sannleikurinn er sá, að afgreiðsla hv. fjh.- og viðskn. á þessu máli er hreinustu endemi. Það er ekki hægt að segja neitt annað um hana. Það liggur fyrir að þetta löggjafarþing hefur einkennst af flutningi fjármagns frá launþegum landsins og yfir til þeirra sem meira höfðu fyrir, fjármagnseigenda og eignamanna. Samtímis hefur verið dregið úr þátttöku í kostnaði tannlækninga, skattar hafa verið hækkaðir og þess vegna getur ekki talist óeðlilegt að þessi undanþága verði gefin til viðbótar þeim öðrum sex sem finna má í skattalögunum til frádráttar skatts vegna mikils kostnaðar við tannviðgerðir.

Það spillti vissulega nokkuð fyrir málinu í fyrra, þegar borið var fram sams konar frv., að því var vísað til heilbr.- og trn. þar sem það átti í raun og veru ekki heima. Það tafði mjög afgreiðslu málsins í þingnefndum. En það má vel vera rétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að það hefði verið farsælt að vísa því þangað nú ef dæma má af þeirri afgreiðslu sem hér hefur orðið.

Það er fráleitt að hugsa sér að núv. ríkisstj. afgreiði frv. sem felur í sér auknar greiðslur almannatrygginga eftir að hún hefur marglýst yfir að úr þeim skuli verulega dregið. Það er því tómt mál að tala um slíkt frv. hér á þessu þingi. Það er hins vegar ekkert á móti því að afgreiða það frv. sem hér liggur fyrir vegna þess að í núverandi skattalögum, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson gerði grein fyrir, eru nú þegar ekki óáþekkar undanþágur frá skattgreiðslum.

Þau undur og stórmerki hafa gerst hér í þinginu í vetur, ekki einu sinni, heldur tvisvar, að þm. hafa tekið rökum: í fyrra skiptið hv. þm. Stefán Benediktsson sem lét sér segjast við umræðu og raunar málflutning hv. 10. landsk. þm., í hitt skiptið hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir við umr. í Ed. um frv. til lögræðislaga, en það náði aldrei fram að koma hér í þinginu vegna þess að málið var gert að lögum áður en það hafði fengið þinglega meðferð. Ég vil því skora á hv. þingheim og hv. dm. að taka nú rökum og vera menn til þess að samþykkja þetta frv. hér og nú. Það er satt að segja til skammar hverja afgreiðslu það hefur hlotið aftur og aftur og er satt að segja ekki bjóðandi upp á að þetta mál detti einu sinni enn og verði vísað til ríkisstj. eftir þá hraksmánarlegu meðferð sem það hefur hlotið.

Það liggur fyrir vilji núv. hæstv. heilbr.- og trmrh. um auknar greiðslur landsmanna vegna tannlæknakostnaðar, því það var hann sem afnam reglugerð fyrrv. hæstv. heilbr.- og trmrh. um auknar greiðslur almannatrygginga vegna tannlæknakostnaðar, svo það þarf varla að spyrja um álit hans, nema það hafi enn einu sinni breyst milli þinga. Það færi betur, en ég hef ekki mikla trú á að svo sé.

Ég vil í stuttu máli eindregið skora á menn að skipta nú um skoðun og afgreiða þetta mál. Hér er vissulega um töluverða réttarbót fyrir hóp landsmanna að ræða. Það væri þá eitt af örfáum frv., sem afgreidd væru á þessu þingi, sem væru til bóta fyrir fólkið í landinu. Langflest þeirra frv., sem hér hafa orðið að lögum, hafa verið til skaða fyrir það.