21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6513 í B-deild Alþingistíðinda. (6026)

221. mál, jarðalög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það hefur gerst í sambandi við afgreiðslu þessa frv. til l. um breyt. á lögum um jarðalög að það er fram komin brtt. frá formanni landbn. um að draga nokkuð úr því stimplafargani sem jarðanefndirnar áttu að hafa með að gera.

Nú er því, sýnist mér, búið að fella það út að menn þurfi stimpla frá jarðanefndum til að byggja sæluhús eða skíðaskála. Auk þess mun hv. formaður landbn. væntanlega gefa hér yfirlýsingu um framhaldsmeðferð málsins. Ég vil þá láta koma fram af minni hálfu að ég tel að þar með hafi verið komið nokkuð til móts við þau sjónarmið sem sett voru fram í minni ræðu fyrr á þessum fundi.