10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

Umræða utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég var aðeins að benda á að orðið hefur mikill aflasamdráttur í þjóðfélaginu nú þegar. Það sem við erum að tala um hér eru spár fyrir næsta ár. Ég var aðeins að segja að það sem hefur gerst í þjóðfélaginu er vegna þess aflasamdráttar sem þegar er orðinn. Ég var ekki á nokkurn hátt, eins og hv. þm. leyfir sér að nefna það, að beita bolabrögðum. Eru það bolabrögð að segja eins og rétt er í þessu máli? Það mega nú fleiri segja sína skoðun en hv. þm. Ég veit ekki betur en hann hafi stundum gert það þegar hann átti sæti í ríkisstj. og að sjálfsögðu átti hann að gera það. Það var mín skoðun og er enn og ég hef enn sannfærst í því nú, að það sem gert var í vor var rétt að gera. En það kemur ekki þessum tölum við, vegna þess að við erum hér að tala um næsta ár. Þær ráðstafanir voru gerðar fyrst og fremst vegna þessa árs til þess að koma í veg fyrir skuldasöfnun erlendis. Ég skil því ekki hv. þm., ég verð að segja það alveg eins og er. Og að vera að tala um að ég sé að opna huga minn. Að sjálfsögðu er ég að opna huga minn með því að tala hér. Svo segir hann að ég ætli að fara að nota þessar tölur sem einhverja sérstaka ástæðu. Auðvitað verða þessar tölur ástæða fyrir þjóðhagsafkomunni á næsta ári eins og aflabrögðin alltaf. En það hafa menn ekki verið tilbúnir að viðurkenna. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson viðurkenndi það ekki s.l. vor og vildi ekkert á það hlusta hvernig komið var í þjóðfélaginu. — En það kemur ekki þessum tölum við, sem eru fyrir næsta ár.