10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

Umræða utan dagskrár

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er mjög liðið á fundinn og mér eru næstum því skammtaðar fimm mínútur. Að vísu er rétt að taka það fram að forseti beitir mig engum þvingunum, en ég kýs nú fremur að segja hér örfá orð en að þegja.

Það væri fullkomin ástæða til að ræða þessi mál miklu lengur, ekki síst með tilliti til þess að hér hafa eins og fyrri daginn verið hafðar uppi alls kyns fullyrðingar sem ekki byggjast á nægilegri þekkingu og skilningi í þessum efnum. Það er enginn tími til að fara ofan í saumana á því.

En það var hálfleiðinlegt að heyra einn þm. Kvennasamtakanna vitna í skýrslur fiskifræðinga eins og þær væru staðreyndir eins og símaskráin. Það hefur því miður ekki reynst mjög ábyggilegt. Sannleikurinn er sá, að ef litið er til margra ára hafa ágiskanir þeirra, spár og tillögur í þessum efnum verið eins og byggðar á fálmi í myrkri. — Stundum hefur nú fálm í myrkri gefið góða raun að vísu, en einnig stundum haft slæmar afleiðingar eins og kunnugt er.

Hv. þm. hélt því fram að við hefðum ekki tekið tillit til tillagna fiskifræðinga og veitt og veitt án þess að hugsa um aðvaranir þeirra. Það, er rangt. Það hafa verið gerðar margvíslegar ráðstafanir til að ganga síður í fiskistofnana og smáfisk eftir að „svarta skýrslan“ kom út. Það hefur verið stækkaður möskvi, það var fundin upp aðferð til að loka svæðum o.s.frv.

Sannleikurinn er sá, að þegar hæstv. fyrrv. sjútvrh. Matthías Bjarnason leyfði að veiða meira en fiskifræðingar lögðu til minnkaði afli ekki. Hann jókst í sífellu, jafnvel þó að við hefðum farið fram yfir mörkin um 30–50%. Þeir vissu sem sagt ekkert um hvernig málin stóðu og lögðu til enn meiri afla á næsta ári. Þannig gekk þetta í allmörg ár.

Á þessu ári, svo að maður geri langt mál stutt, lögðu fiskifræðingar til að við mættum veiða á fjórða hundrað þúsund tonn af þorski og voru hinir gleiðustu. Það voru fiskimenn hins vegar ekki, því að þeir vissu betur en fræðingarnir eins og svo oft áður. Það verður líklega alls ekki hægt að veiða þau 300 þús. tonn sem þeir töldu æskilegt að veiða, og hafa þeir ævinlega verið í lægri kantinum vegna þess að oft hefur verið bætt svolítið við. Þeir höfðu þarna fyrirvara. En veiðin varð ekki 300 þús. tonn, eins og þeir héldu að óhætt væri að veiða, vegna þess að ástand þorskstofnsins við Ísland var líklega alls ekki betra en 200 þús. tonna talan gefur tilefni til. Það óttast sjómenn. Hins vegar er ljóst að í þessu efni eru geysilega víð skekkjumörk. Við getum vonast eftir að fá göngur frá Græniandi og það gæti jafnvel þýtt að við gætum tvöfaldað okkar afla. Þær eru oft mjög öflugar. Það hefur sýnt sig um langt árabil.

Herra forseti. Ég neita því algerlega fyrir mína parta að skilningur stjórnarandstöðunnar hafi verið lítill í þessum vandamálum þjóðfélagsins. Ég hef fyllilega gert mér grein fyrir þeim og aldrei sagt annað. Ráðh. er kannske að vísa til einhverra annarra stjórnarandstæðinga en mín. (Sjútvrh.: Það er rétt.)

Það er auðvitað ljóst að grípa þurfti til mikilla aðgerða s.l. sumar. Það var svo augljóst að um það þarf ekki að tala. Ég veit ekki til þess að nokkur maður hafi t.d. lagt það til að greiða út 22% vísitöluuppbætur í júní. Það er nú eitthvað annað. Ég heyrði engan úr mínum flokki leggja það til. Hitt er svo annað mál, að okkur finnast þessar aðgerðir að sumu leyti heldur harkalegar og aðrar aðferðir notaðar en við höfum nokkurn tíma gripið til. Út í það get ég auðvitað ekki farið hér vegna þess að til þess þarf langtum lengri tíma. En auðvitað kemur að því að það verður rætt hér betur og ég vona einnig að við eigum eftir að ræða meira en gert hefur verið til þessa um sjávarútvegsmál.

Ég vil svo aðeins nefna það, áður en ég fer héðan úr stólnum, vegna þess að ég hef verið talsmaður kvóta í mörg ár og talaði um það núna síðast á þriðjudaginn, að ég undrast að merkir menn eins og hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason skuli enn ekki hafa áttað sig á því, að þegar um nauman heildarkvóta er að ræða sé hægt að komast hjá því að setja kvóta á skip. Það er einkennilegt þegar svo reyndur maður sem hæstv. ráðh. Matthías leyfir sér að segja hér úr stólnum að ekki megi takmarka þá sem mest hafa veitt. Þeir sem mest hafa veitt af þorski hafa veitt 3–4 þús. tonn, einstaka togarar meira. En það sem er til skiptanna, ef við lítum til 200 þús. tonna afla, er ekki nema sem svarar 1000 tonnum á togara, hvernig svo sem farið verður að að skipta því með misjöfnum kvóta. Það er engin leið að komast hjá því. Þá eru líklega flestar togaraútgerðir landsins komnar reikningslega á hausinn til hverra ráða sem við grípum. Þetta vandamál er ekki til þess að karpa um eins og smástrákar í þessum sal.

Það er einnig nauðsynlegt fyrir hæstv. sjútvrh. að gera sér grein fyrir því, að það verður að setja ákveðið kvótamark fyrir nokkurra mánaða tímabil á árinu, vegna þess að ef vel veiðist snemma ársins, fyrstu fjóra mánuðina eða svo, megum við ekki hafa sleppt hinum aflasælu mönnum hindrunarlaust í þennan stofn ósköp einfaldlega vegna þess að við værum þá búnir að veiða mikinn hluta aflans á stuttum tíma. Honum verður að dreifa yfir árið vegna atvinnusjónarmiða. Hjá því verður ekki komist.

Herra forseti. Það er full ástæða til að segja meira um þetta. En ég vil bæta við örfáum orðum í viðbót við það sem ég sagði áðan um að við hefðum ekki farið eftir fiskifræðingum. Við höfum kannske farið meira eftir þeim en góðu hófi gegnir ósköp einfaldlega vegna þess að forsendur reikningsdæma þeirra hljóta eftir eðli málsins að vera ákaflega veikar, vegna þess að rannsóknaskip þeirra hafa tiltölulega mjög litla yfirferð og hafsvæðið er geysistórt. En við fórum eftir því þegar þeir bentu okkur á, sem við vissum náttúrlega fyrir — eins og ævinlega þegar þeir benda á eitthvað er það komið í ljós-að síldarstofninn væri orðinn of lítill. Það var bönnuð veiði hér á síld og enginn sagði neitt við því. Menn hafa farið nákvæmlega eftir ráðlögðu magni á hverju ári og meira að segja mjög litlu nú í ár því að það er óhemju síldarmagn við strendur landsins. Það sá ég með eigin augum í sumar, þegar ég var á veiðum í kringum hálft land eða svo. Það leyna sér ekki síldarlóðningar. Þetta gerum við líka varðandi loðnu. Það er farið eftir kvótakerfi þar og öllum þykir gott og sama máli gegnir um humar og rækju o. fl.

Herra forseti. Nú eru aðeins fimm mínútur eftir og ég hef fengið að segja þessi örfáu orð, en ég vil mælast til þess að við fáum að tala meira um þessi mál og gefum okkur þá góðan tíma.