21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6516 í B-deild Alþingistíðinda. (6045)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 1069 er nál. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. sem hefur fjallað um frv. Þetta mál er í tengslum við 306 mál, þ. e. um breytingu á lögum um skattskyldu innlánsstofnana. Nefndin fékk til viðræðna Árna Kolbeinsson, Sigurð Hafstein, Þórð Ólafsson og Jónas Haralz.

Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem flutt er á sérstöku þskj. Að þessu áliti standa Páll Pétursson, Friðrik Sophusson, Þorsteinn Pálsson og Halldór Blöndal.

Á þskj. 1078 flyt ég svohljóðandi brtt. við þetta mál: „Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Bankar og innlánsstofnanir, sem versla með erlendan gjaldeyri, skulu frá og með 1. jan. 1984 greiða ríkissjóði 45% af heildartekjum sínum vegna mismunar sölugengis og kaupgengis gjaldeyris, svo og 45% af þóknun (provision) þeirri er þeir taka af viðskiptamönnum sínum fyrir þjónustu við yfirfærslu fjár til útlanda eða aðrar greiðslur erlendis. Þetta gildir jafnt um hvers konar ábyrgðarlaun, innheimtulaun og allar aðrar greiðslur, hverju nafni sem nefnast, fyrir þjónustu þá er hér um ræðir. Seðlabankinn hefur eftirlit með því að hlutaðeigandi innlánsstofnanir inni gjald þetta af hendi svo sem fyrir er mælt í þessari grein.

Heimilt er fjmrh. að endurgreiða eða fella niður innheimtu á 1/6 hluta þess 60% gjalds af gengismun og umboðsþóknun sem lagt var á gjaldeyrisbankana á árinu 1983 skv. lögum nr. 40/1969.“

Eins og þdm. munu sjá er breytingin í því fólgin að í staðinn fyrir 1. gr. frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 593, þar sem gert er ráð fyrir að bankarnir greiði ríkissjóði 40% af heildartekjum sínum vegna mismunar sölugengis og kaupgengis gjaldeyris, þá er gert ráð fyrir því að þeir greiði skv. brtt. 45% og sama gildir um prósentuna af provisioninni. Jafnframt eru felld niður úr 1. gr. orðin: „Á árinu 1985 skulu ofangreind hlutföll lækka í 20%. Frá og með árinu 1986 fellur gjald þetta niður.“