21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6517 í B-deild Alþingistíðinda. (6046)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Minni hl. fjh.- og viðskn. skilar sérstöku áliti um þetta frv. til l. um gjald áf umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta. Minni hl. tetur að sú till. sem meiri hl. hefur flutt og hv. þm. Páll Pétursson gerir grein fyrir sé til bóta. Engu að síður telur minni hl. fráleitt að lækka gjöld bankanna með þeim hætti sem hér er lagt til og mun greiða atkv. gegn frv. þegar það kemur til endanlegrar atkvgr.

Niðurstaðan varðandi breytingu á þessu frv. núna í kvöld varð til þess að það sköpuðust möguleikar á því að skipuleggja þinghald með betra hætti en áður voru horfur á. Stjórnarliðið fellst með þessu á að draga nokkuð úr tekjulækkun ríkissjóðs frá því sem áður hefur verið gert ráð fyrir og kom þannig til móts við stjórnarandstöðuna sem í þetta skipti fékk það hlutverk að verja ríkissjóð. Það er nokkuð óvenjulegt, en engu að síður gerðist þetta nú. Ég fagna því að stjórnin hefur séð sitt ráð vænna og ákveðið að draga nokkuð úr tekjumissi ríkissjóðs.

Til þess að í þingtíðindum séu skýrar tölur í sambandi við þessi mál vil ég greina frá því að ég hef aflað mér nokkuð nákvæmra talna um það hverju tekjutap ríkissjóðs nemur skv. þeim frv., 305. og 306. máli sem hér eru nú til afgreiðslu. Lækkunin á sköttum bankanna nær í raun og veru til þriggja ára, 1984, 1985 og 1986. Á þessu ári lækka beinir skattar bankanna, tekjuskattar þeirra um 40 millj. kr. þegar allt er talið sem fram kemur í frv. um þau efni. Þessi lækkun heldur síðan áfram á árunum 1985 og 1986, 40 millj. kr. á ári. Síðan gerir ríkisstj. ráð fyrir kerfisbreytingu þannig að skattar bankanna verði framvegis innheimtir og lagðir á eftir á, en verði ekki staðgreiðsluskattar. Þessi kerfisbreyting hefur í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð sem nemur 70 millj. kr. á árinu 1985 á verðlagi ársins 1984 og 70 millj. kr. á árinu 1986. Síðan er hér til meðferðar frv. um umboðsþóknun bankanna o. fl. Upphaflegt frv. gerði ráð fyrir því að þetta gjald yrði lækkað á árinu 1984 um 22 millj. kr. þannig að tekið yrði út úr ríkissjóði á þessu ári miðað við fjárlögin 62 millj. kr. og gatið fræga stækkað sem því nemur.

Í öðru lagi gerði frv. ráð fyrir því í upphaflegri mynd að á árinu 1985 féllu niður 44 millj. kr. og á árinu 1986 einnig 44 millj. kr. Samtals er hér því um það að ræða að lækkun skattskyldu innlánsstofnana hefur í för með sér 120 millj. kr. tekjutap fyrir ríkissjóð á þessu þriggja ára biti. Kerfisbreytingin kostar ríkissjóð 140 millj. og lækkunin á umboðsþóknuninni kostar ríkissjóð á þessu þriggja ára bili 110 millj. kr. Í heild er því um að ræða tekjumissi fyrir ríkissjóð á þessum þremur árum um 370 millj. kr. Með þeirri breytingu sem hér hefur verið gerð á frv. um gjald af umboðsþóknun og gengismun vegna gjaldeyrisviðskipta gerist það hins vegar að þessi lækkun verður ekki um 370 millj. kr. heldur líklega í kringum 280 millj. kr., þ. e. 44 millj. kr. lækkunin 1985 er felld niður og 44 millj. kr. lækkunin 1986 er einnig felld niður, en gjöld af umboðsþóknun og gengismun 1984 lækka úr 22 millj. kr. í á að giska um 15 millj. kr. eftir því sem mér sýnist sjálfum eftir að hafa farið yfir þessar tölur.

Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi hér fram um leið og ég lýsti áliti minni hl. fjh.- og viðskn.