21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6518 í B-deild Alþingistíðinda. (6047)

305. mál, umboðsþóknun vegna gjaldeyrisviðskipta

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það vakti athygli mína þegar sauðfjárbóndinn Páll Pétursson ræddi hér um þessi mál áðan að hann talaði annað hvort orð á útlensku, m. a. orðið provision, sem ég þekki ekki en er sjálfsagt þekkt í sambandi við kjötsölu SÍS, en skýrði þetta bankamál nákvæmlega ekki neitt fyrir mér. sannleikurinn er sá að þetta mál skiptir ekki verulega miklu máli fyrir bankana. Það sem skiptir verulega miklu máli fyrir viðskiptabankana, þá sem sjá um viðskipti við sjávarútveginn, er það að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að drepa þessa tvo viðskiptabanka með því að auka bindiskylduna upp í 10%, sem verður þá samtals 45%, ef gert er ráð fyrir skuldabréfakaupum þessara banka eins og skyldugt er. Hin fasta bindiskylda er 28%, skuldabréfakaupin eru 3–4%, eins og þm. þekkja, og ef 10% leggjast við þá verður bindiskyldan samtals 45%.

Á sama tíma og þetta er ákveðið af hæstv. ríkisstj. er ákveðið af Seðlabankans hálfu að lækka endurkaup afurðalána. Ég er ekki viss um að allir hv. þm. geri sér ljóst hvað það þýðir. Það þýðir það að viðskiptabankar fyrirtækja sjávarútvegsins ráða ekki við að fjármagna þeirra rekstur með þessum hætti. Það sem er að gerast hér af hálfu hæstv. ríkisstj. er hvort tveggja í senn: að auka bindiskyldu og lækka endurkaup Seðlabanka. Afleiðingarnar af því eru ósköp einfaldlega þær að viðskiptabankar þessir, Landsbanki og Útvegsbanki, geta ekki fjármagnað rekstur þessara fyrirtækja. Það þýðir það að þessir bankar verða að gera svo vel að hætta að fjármagna rekstur þessara fyrirtækja eins og nauðsynlegt er og þar með verður að loka meira eða minna þessum fyrirtækjum.

Ég vil minna hæstv. ríkisstj. á það að hvort sem verið er nú að hækka eða lækka einhverja minni háttar skatta á bankana eða rífast um það hvort eigi að taka af þessum viðskiptabönkum svo mikið gjald fyrir gjaldeyrisviðskipti að af þeim verði óhjákvæmilega tap, eins og verið hefur, jafnvel þó mætti snúa því á hinn veginn, þá skiptir það mjög litlu máli fyrir þessa banka. Aðalatriðið er að ríkisstj. hefur ákveðið með þessum ákvörðunum sínum að undanförnu að stöðva rekstur mjög margra fiskvinnslufyrirtækja í landinu ef ekki kemur annað nýtt í ljós. Það er þetta sem ég vil vekja athygli hæstv. ríkisstj. á ef hún hefur ekki haft vit á því að skoða það sem hún hefur verið að gera. Ég er ansi hræddur um að í þessu tilfelli viti ekki hægri höndin hvað sú vinstri er að gera, því miður. Menn eru að rífast hér endalaust klukkutímum saman um aukaatriði, en ákveða aðalatriðin allt annars staðar. Það eru þau sem skipta aðalmáli.