21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6520 í B-deild Alþingistíðinda. (6054)

252. mál, fjarskipti

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Svo sem formaður n. tók fram þá stendur hér á þskj. 1067 að Kristín Halldórsdóttir hafi ekki tekið afstöðu til málsins. Þykir mér við hæfi að skýra það ögn frekar. Á hádegi á laugardag fékk samgn. til meðferðar þrjú stórmál sem óskað var afgreiðslu á fyrir þinglok. Þessi þrjú mál eru ekki aðeins stórmál heldur einnig mikil ágreiningsmál, einkum þau tvö sem fjalla um atvinnuréttindi manna á íslenskum skipum. Nefndin hafði engan tíma til að kynna sér fjarskiptafrv. að mínu mati svo nægjanlegt væri og enda þótt ég læsi það að sjálfsögðu allt í gegn svo og þær umsagnir sem borist höfðu samgn. Ed. fannst mér ég engan veginn tilbúin til að taka endanlega afstöðu til þessa máls.

Af umsögnum um þetta frv. má ráða að ekki eru allir á eitt sáttir um efni þess. Vil ég lesa hér eina af þessum umsögnum, með leyfi forseta. Greinargerðin er unnin af fulltrúum eftirtalinna stofnana: Almannavarna ríkisins, flugmálastjórnar, Landsvirkjunar, RARIK, Raunvísindastofnunar Háskólans, Veðurstofu Íslands, Vegagerðar ríkisins, Verkfræðistofnunar Háskólans og Vita- og hafnamálastofnunar:

„Fyrir Alþingi er til umfjöllunar frv. til l. um fjarskipti. Tilgangur með setningu laga um fjarskiptamál er væntanlega aðlögun þeirra að nýrri fjarskiptatækni og breyttum aðstæðum á þessu sviði í þjóðfélaginu frá því að gildandi fjarskiptalög voru sett 1941, sbr. grg. með frv. Við nánari athugun á fyrirliggjandi frv.-drögum kemur í ljós að í veigamiklum atriðum má ætla að frv. stuðli ekki að framförum og tæknivæðingu þjóðfélagsins á sviði fjarskipta né veiti skýr skilyrði fyrir rekstri fjarskiptavirkja hjá ríkisstofnunum öðrum en Póst- og símamálastofnun. Fulltrúar frá ofangreindum ríkisstofnunum, sem reka fjarskiptavirki, hafa fjallað sameiginlega um frv.-drögin. Í meginatriðum eru sjónarmið þessara stofnana eftirfarandi varðandi hlutverk Póst- og símamálastofnunar og einstaka liði frv.:

Almennt markmið fjarskiptalaga ætti að vera að tryggja þjóðinni örugg og hagkvæm fjarskipti. Ljóst er að því markmiði verður ekki náð með algerri einokun Póst- og símamálastofnunar á þessu sviði.

Í 3. gr. er kveðið á um einkarétt ríkisins varðandi fjárskiptavirki. Ekki þykir ástæða til að Póst- og símamálastofnun hafi svo víðtækan einkarétt sem hér er lýst. Leyfisveiting og eftirlit á vegum Póst- og símamálastofnunar, sem tryggir að fjarskiptavirki séu skv. alþjóðlegum kröfum, ætti að nægja, sbr. 3. mgr. 3. gr. um notendabúnað. Óbreytt 3. gr. mundi hamla gegn innlendri þróun í smíði tækja og ráðgjafarstarfsemi á sviði fjarskiptavirkja þannig að skilyrði til framfara á þessu sviði yrðu verri en ella.“

Mér þykir rétt að skjóta því hér inn í að gerð var breyting á þessari gr. í Ed.

„Í 17. gr. er eðlilegt að tilteknar verði ríkisstofnanir er fari með ákveðin fjarskiptamál vegna eigin starfsemi líkt og eldri lög gerðu ráð fyrir. Fyrir liggur að rekstur tiltekinna ríkisstofnana á fjarskiptavirkjum vegna eigin þarfa verði umfangsmikil. Telja verður skv. reynslu að þörfum þessara ríkisstofnana sé hagkvæmast og öruggast mætt með eigin rekstri fjarskiptavirkja á þessum sviðum fremur en með algerri einokun Póst- og símamálastofnunar. Heimildir ráðh. til að veita undanþágu, sem voru í gömlu lögunum höfðu fallið niður í frv. Brýn þörf er á að heimildarákvæði verði áfram í nýjum fjarskiptalögum til að veita svigrúm í sérstökum tilvikum.

Athuga þarf ákvæði V. kafla frv., um umferðarrétt, töku lands eða húsrýmis vegna leiðslulagna og bætur þess vegna. Sem hliðstæðu er vísað til X. kafla vegalaga nr. 6 frá 1977.

Skv. ofansögðu er ljóst að hagur þeirrar þjónustu sem aðrar ríkisstofnanir en Póst- og símamálastofnun veita á sviði fjarskipta er betur tryggður með gildandi lögum frá 1941 heldur en í fyrirliggjandi lagafrv. nema breytingar til samræmis við nútímann komi til.“

Svar póst- og símamálastjóra varðandi þessa greinargerð var ekki fullnægjandi að mínum dómi. Nú er þess að geta að komið er til móts við kröfur um rýmkun á einkarétti ríkisins í þeim breytingum sem gerðar voru á frv. í Ed. og í frv. eru ákvæði sem hafa í för með sér mikla bót varðandi notendabúnað. Af þeim ástæðum vil ég ekki standa gegn frv. En ég mun ekki greiða atkv. með því þar sem ég tel samgn. ekki hafa fengið þann tíma til að afgreiða það sem eðlilegur væri. Er þetta aðeins enn eitt dæmið um þau óeðlilegu vinnubrögð sem þm. er ætlað að tileinka sér.