21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6522 í B-deild Alþingistíðinda. (6055)

252. mál, fjarskipti

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur um málatilbúnað hér. Eins og fram kom af lestri hennar úr umsögn er þetta mál sem skiptir mjög miklu að sé rétt úr garði gert, vegna þess að nú eru mjög örar breytingar í þessum efnum, sem koma til með að ráða mjög miklu um það hvernig okkur tekst að nýta okkur og hafa stjórn á þeim breytingum sem munu verða í tölvumálum og fjarskiptamálum á næstunni. Þetta hefur í raun og veru ekki fengið neina meðferð í Nd., hvorki hér í stól né í nefnd, eins og hv. þm. lýsti. Mér þykir þessi málsmeðferð ekki nægilega góð.

Ég hef verið að reyna í dag, svona á milli mála, að glugga í þykkan bunka af umsögnum sem hafa borist um þetta mál. Mér sýnist við fyrsta lestur að hv. samgn. í Ed. hafi fengið fjölda umsagna, sem síðan hefur verið vísað aftur til Póst- og símamálastofnunar, sem virðist hafa ansi ríkt forræði í þessu máli. Í umsögn sinni um umsagnir málsins gefur Póst- og símamálastofnun síðan leyfi eða, eins og sagt er, getur Póstur og sími fallist á að svofelld breyting verði gerð á 2. gr. frv., svo að ég taki dæmi. Ég viðurkenni að vísu að ég hef ekki fengið aðra tíma til að fara nákvæmlega í þetta en ég kann ekki við það t. d. að Póst- og símamálastofnun gefur hv. þingnefnd leyfi til að flytja brtt. sem síðan koma á þskj. 913. Mér sýnist nú að það hefði verið ástæða til að líta ögn nánar á þessi mál, vegna þess að eins og umr. hafa sýnt telja margir að forræði Póst- og símamálastofnunar í þessum efnum sé þegar orðið meira en nóg og handleiðsla þeirrar stofnunar við meðferð samgn. á málinu sé kannske meiri en góðu hófi gegnir.

Ég mun ekki greiða atkv. með þessu máli.