21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6522 í B-deild Alþingistíðinda. (6056)

252. mál, fjarskipti

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil að það komi fram að ég mun greiða atkv. gegn þessu frv. af mörgum þeim ástæðum sem þegar hafa verið hér tilnefndar, en af þeim tveimur ástæðum til viðbótar: Ég tel að hér sé um algerlega ótímabæra lagasetningu að ræða. Á döfinni er breyting á útvarpslögum, sem vafalaust getur haft áhrif á að breyta þurfi þá jafnframt fjarskiptalögum, svo og vegna þess að sú nefnd er samdi þetta frv. bendir réttilega á að um kapalkerfi hefur ekki verið mótuð nein stefna, og nefndin telur það ekki í sínum verkahring að móta hana. Eins og mjög skiljanlegt er. Það er einu sinni stjórnmálamanna að gera það. Þess vegna tel ég þessa lagasetningu með öllu ótímabæra og get ekki undir nokkrum kringumstæðum greitt henni atkv. mitt hér og nú.

Þess utan hafa þm. haft allt of lítinn tíma til að fjalla um þetta frv., en það er eins og hér hefur komið fram eins og annað hér á hinu háa Alþingi þessa dagana, að öll lagasetning sýnist vera meira og minna hraðsoðin, meira og minna upphaflega samin af einhverjum þrýstihópum úti í bæ, gersamlega snauð af nokkrum pólitískum hugmyndum og frumlegri hugsun þm. sjálfra. Síðan eiga þm. að sitja hér sólarhringum saman og greiða þessu atkv., eins og það er kallað til að flýta fyrir þingstörfum. Í þetta skipti er þolinmæði mín þrotin, og ég mun ekki greiða þessu frv. atkv. mitt.