10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

75. mál, flugbraut á Egilsstöðum

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka það tækifæri sem ég fæ hér til að tala fyrir þeirri þáltill. sem hér liggur fyrir, þrátt fyrir annasaman dag hér á Alþingi, því að ég mun hverfa af þingi eftir þennan dag.

till. sem hér er til umr. fjallar um að Alþingi álykti að fela yfirvöldum flugmála að hefja uppbyggingu nýrrar flugbrautar á Egilsstöðum. Ég hef áður hér á hv. Alþingi flutt tillögu sem gekk í sömu átt en hún hlaut ekki afgreiðslu á sínum tíma.

Þýðing flugsins í samgöngukerfi okkar Íslendinga er meiri en menn gera sér grein fyrir daglega. Er það að vonum því að fjarlægðir eru hér miklar og landið strjálbýlt. Erfiðar flugsamgöngur á vetrum auka enn mikilvægi greiðra flugsamgangna. Það kom rækilega í ljós núna nýverið, þegar flugmálastjóri lét boð út ganga um að hætta snjómokstri á flugvöllum, að fljótt var að sverfa til stáls og skapast ástand sem menn vildu ekki una við. Allir vilja hafa samgöngunet flugsins í lagi, vilja að flugsamgöngur gangi greiðlega fyrir sig. Hins vegar eru fjárveitingar til þessara mála af skornum skammti, hvort sem miðað er við þau verkefni sem fyrir liggja eða aðra þætti samgöngukerfisins. Uppbygging flugvalla og búnaðar þeirra hefur dregist aftur úr á undanförnum árum og ekki fylgt þeirri þróun sem orðið hefur í búnaði flugvéla. Hefur lélegt ástand flugvalla og skortur á búnaði valdið aðilum í flugrekstri ómældum fjárútlátum með truflun í flugi og sliti á flugvélum.

Flugvöllurinn á Egilsstöðum er sá flugvöllur á Austurlandi sem mesta umferð ber og má segja að hann sé þungamiðja flugs til landshlutans og innan hans. Að sjálfsögðu skal það undirstrikað hér að mörg verkefni þarfnast úrlausnar á öðrum flugvöllum á Austurlandi þótt till. fjalli eingöngu um Egilsstaðaflugvöll vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem þar eru og ég kem að nánar síðar. Austurland er sá landshluti sem ásamt Vestfjörðum er háðastur innanlandsfluginu vegna þeirra miklu fjarlægða sem eru til annarra landshluta og erfiðra landsamgangna á vetrum. Í grg. sem fylgir till. er skrá yfir umferð á Egilsstaðaflugvelli á 5 ára tímabili. Þar sést að á síðasta ári var farþegafjöldi um völlinn sá mesti á þessu tímabili og lendingarnar flestar. Umferðin um völlinn hefur vaxið jafnt og þétt og hann er einn af þeim fjórum flugvöllum landsins sem mesta umferð bera. Hins vegar hefur Egilsstaðaflugvöllur orðið mjög afskiptur með fjármagn á undanförnum árum og ástand hans er í algerri mótsögn við mikilvægi hans í samgöngukerfinu. Þetta stafar m.a. af því að alger óvissa hefur ríkt um hvaða leið skuli fara í uppbyggingu hans.

Alvarlegasta málið sem upp hefur komið um ástand vallarins er sú aurbleyta sem situr uppi á honum við ákveðin veðurskilyrði á veturna. Aurbleytan hefur lokað vellinum við hin bestu skilyrði að öðru leyti og hún hefur valdið truflunum á viðkvæmum lendingarbúnaði flugvéla. Það er fáheyrt að aðalsamgönguæð til heils landshluta sé lokuð af þessum orsökum og það á meðan hafist er handa við malbikun flugvalla annars staðar á landinu, þó vissulega skuli ekki lasta það sem vel er gert í þessum efnum.

Í vistarverum starfsmanna flugmálastjórnar og Flugleiða á Egilsstaðaflugvelli hanga uppi á veggjum myndir úr starfi þeirra. Það má sjá flugmenn Fokkervéla Flugleiða í fullum skrúða með vatnsslöngur að spúla aurbleytu af lendingarbúnaði véla sinna fyrir brottför. Þetta eru að sjálfsögðu mjög óvenjulegar myndir og hafa ekki sést opinberlega, en vonandi verða þær brátt að safngripum. Það er óviðunandi að það skuli þurfa að grípa til kostnaðarsamra viðhaldsaðgerða til að koma í veg fyrir þetta ástand, viðhaldsaðgerða sem koma ekki að gagni nema takmarkaðan tíma. Áreiðanlega mundu menn frekar þola þessar truflanir ef séð væri fram á varanlegar úrbætur í þessum greinum.

Í grg. með þeirri þáltill. sem hér um ræðir er drepið á þann samanburð sem gerður hefur verið á vegum flugmálastjórnar á þeim kostum sem fyrir hendi eru um uppbyggingu flugvallarins. Eins og fram kemur var skilað ítarlegri skýrslu um þau mál til flugráðs í apríl s. l Í skýrslunni er metinn stofnkostnaður og flugmannvirki og flugleiðsögukerfi og blindaðflug. 1. júlí var etni skýrslunnar kynnt heimamönnum og hinn 7. júlí var gerð á fundi flugráðs sú bókun sem kemur fram í grg. Þar segir m. a.:

„Samkv. framlögðum skýrslum og miðað við þær forsendur sem þar eru tilgreindar er eftirfarandi samanburður á áætluðum kostnaði við hvern valkost:

Uppbygging núverandi brautar 1500 metrar 33.4 millj., 2000 metrar 49.1 millj.

Ný flugbraut 1500 metrar 45.8 millj., 2000 metrar 73.4 millj.

Flugráð telur að bygging nýrrar flugbrautar hafi í för með sér svo ótvíræða kosti varðandi allt aðflug og öryggi flugs að þá lausn beri fremur að velja þrátt fyrir nokkurn kostnaðarmun. Jafnframt bendir flugráð á að gera má ráð fyrir að 1500 metra flugbrautarlengd verði fullnægjandi á Egilsstöðum um langa framtíð og þurfi því hvorki að koma til flutningur þjóðvegar né lenging flugbrautar suður fyrir þjóðveginn.

Flugráð samþykkir því á fundi sínum í dag að mæla með þessari stefnumótun í uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar, þó að því tilskildu að viðunandi samkomulag náist við hlutaðeigandi landeigendur. Flugráð felur því flugmálastjóra að hefja þær viðræður hið fyrsta með það fyrir augum að unnt verði að mæla með fjárveitingu til byrjunarframkvæmda á Egilsstöðum strax á árinu 1984, og stefnt að því að taka hina nýju flugbraut í fulla notkun á árinu 1987.“

Þeir kostir sem eru við það að byggja nýja flugbraut eru einkum þessir: 1. Beint aðflug að flugbraut sem skapar mun meira öryggi. 2. Lágmarkshæð í blindflugi fer úr 150 metrum í 60 metra með fullkomnum tækjum. 3. Truflanir á flugumferð á byggingartíma verða engar. 4. Flugvöllurinn færist eilítið fjær þorpinu á Egilsstöðum, sem þýðir hindrunarlausara og öruggara aðflug að honum.

Þannig standa þessi mál nú. Allar upplýsingar liggja fyrir utan hvað nauðsynlegt er að hefja samninga við landeigendur, sem hlut eiga að máli, svo að sú hlið málsins liggi einnig ljóst fyrir. Hins vegar mundi það styrkja framgang málsins að mun ef Alþingi gerði þá stefnumótun sem kemur fram í bókun flugráðs að sinni og mælti með því að völlurinn yrði byggður á árunum 1984–1987 með fjárveitingu til undirbúningsframkvæmda á næsta ári.

Ég hef rakið að nokkru mikilvægi þessara framkvæmda fyrir Austurland að því er varðar öryggi í samgöngum og í ljósi þeirrar staðreyndar, að það er nauðsynlegt að hafa þá miðstöð flugs á Austurlandi sem völlurinn er sem best búna. Það má einnig horfa til framtíðarinnar í þessu sambandi og benda á að ferðamál hafa verið og eru vaxandi atvinnugrein á Austurlandi og góður flugvöllur er eitt af grundvallaratriðum í uppbyggingu þeirrar atvinnugreinar, ekkert síður en t.d. flugstöð á Keflavíkurflugvelli, sem gjarnt er að vitna til um þessar mundir.

Flugbraut við Egilsstaði kann að þykja kostnaðarsamt mannvirki miðað við fjárveitingar til flugmála. En þó dýrasti kosturinn sé tekinn og reiknað með nýrri malbikaðri flugbraut 2000 metra að lengd með aðflugstækjum nær kostnaðurinn ekki þeirri lántöku sem ætluð er í hluta íslenska ríkisins í framkvæmdum í flugstöð á Keflavíkurflugvelli á þessu ári einu. Þar með er ég ekki að draga neitt úr mikilvægi þeirrar framkvæmdar, flugstöðvarinnar, eða leggja neinn dóm þar á. Ég var aðeins að gera samanburð á stærðum í þessu sambandi.

Ég vil ljúka þessari framsögu með því að lýsa þeirri skoðun minni að breyta verður áherslum og veita meira fé til uppbyggingar flugvalla og búnaðar á næstu árum. Mér er ljóst að nú árar ekki til aukningar opinnberra framkvæmda, en við hættum samt ekki að lifa og starfa í landinu og gera áætlanir fyrir framtíðina. Við höfum tekið flugið í þjónustu okkar og ör þróun hefur verið á því sviði. Þróunin í uppbyggingu og búnaði flugvalla verður að fylgja tækniframförum í fluginu sjálfu.

Herra forseti. Að lokinni umr. óska ég að málinu verði vísað til allshn.

1