21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6533 í B-deild Alþingistíðinda. (6067)

302. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skrifa undir þetta nál. með fyrirvara. Fyrirvarinn liggur í því að við fengum, eins og fram hefur komið, þrjú frv. um hádegi s. l. laugardag — frv. sem eru bæði flókin og erfitt að eiga við og ágreiningur um. Við höfum haldið síðan um hádegi á laugardag, þrátt fyrir að fundur væri til kvölds á laugardag, fimm fundi um þessi mál. Við komum okkur saman um að halda fund á sunnudegi og fengum þangað skólastjóra Stýrimannaskólans og Kristin Gunnarsson úr samgrn. Þá fékk n. til viðræðu, eins og fram hefur komið, póst- og símamálastjóra í sambandi við fjarskiptamálið og tvo kennara úr Stýrimannaskólanum og þrjá skipstjóra til þess að ræða þessi mál. Við höfum fengið margar hringingar þar sem óskað er eftir því að frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum skyldi liggja til hausts.

Ég vil taka það fram að um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum virðist vera lítill ágreiningur. Við fengum á fund Helga Laxdal formann Vélstjórafélagsins. Hann tók það í sína ábyrgð að það væri ekki neinn umtalsverður ágreiningur um það mál. Hins vegar gat ég ekki tekið þátt í afgreiðslu um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna út af ágreiningnum og út af tímaleysi. Þegar ég talaði við forseta Farmanna- og fiskimannafélagsins kom að vísu í ljós að hann hefði gert samkomulag við hæstv. samgrh. um að málið færi fram á þann veg sem hér er lagt til, en taldi þó að betra hefði verið að bíða til haustsins með þessi mál. Hann tók það fram að það væri þegar búið að gefa allar undanþágur fyrir það tímabil.

Nú hef ég ekki nógan kunnugleika á þessum málum, en við erum búin að leggja í það alla þá vinnu sem við höfum getað og þó er ekki forsvaranlegt að láta málið fara svona frá sér. Það verður að taka sig á með þetta í framtíðinni. Það er engin hemja að n. fái frv. til að fjalla um á svo skömmum tíma. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta. Þeir sem stjórna hér vinnubrögðum verða að taka sig á að þessu leyti. Þetta gengur ekki. Ég segi að lokum að maður getur varla látið nafn sitt undir svona afgreiðslu.

Ég ætla að láta þetta nægja um bæði frv.