21.05.1984
Neðri deild: 103. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6534 í B-deild Alþingistíðinda. (6068)

302. mál, atvinnuréttindi vélfræðinga

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég vil gjarnan, ef hæstv. forseti hefur ekkert við það að athuga, ræða þessi tvö mál undir þessum dagskrárlið. (Forseti: Það er heimilt.) Auðvitað eru þau nátengd og kannske sparar það tíma.

Ég vil í fyrsta lagi taka undir það, sem hér hefur komið fram, að það eru afskaplega slæm vinnubrögð að ætlast til þess af þingnefndum, ekki síst í málum eins og þessum og raunar miklu fleiri málum, að þær taki sér ekki nægjanlegan tíma til að fara ofan í mál og kynna sér þau og skoða. Þetta er því miður ekki ný saga hér á Alþingi. Raunar er kannske sama hvaða ríkisstj. á í hlut eða hvaða meiri hl. er hér ríkjandi. Held ég að þm. hljóti að kannast við álíka vinnubrögð undangenginna ára. Það er því ekkert sérstakt að því er varðar núverandi meiri hl. hér á Alþingi þó að mér sýnist að ýmislegt bendi til þess að það fari á verri veginn. Þó að slíkt hafi gerst áður er auðvitað engin ástæða til þess að halda því áfram.

Eins og menn sjá á nál. hef ég skrifað undir þetta með fyrirvara og áskil mér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Ég sagði við fyrstu umr. að hér væri um að ræða mál sem ég væri ekki viss um að menn hefðu almennt gert sér grein fyrir. Hér er fyrst og fremst um að ræða, að því er ég best veit, ágreining um undanþáguveitingar á flotanum og þá fyrst og fremst líklega á fiskiskipaflotanum undangengin ár. Auðvitað vilja, að ég held, flestir koma á því ástandi að slíkar undanþágur verði a. m. k. sem fæstar. Ég er þó þeirrar skoðunar og lét það í ljós hér fyrr að hefði þetta ekki verið gert undangengin ár hefði íslenski fiskiskipaflotinn ekki verið að veiðum eða stór hluti af honum.

Hér er fyrst og fremst um að ræða undanþáguveitingar til vélstjóra. Miklum mun minna er um að veittar séu undanþágur til skipstjórnar- og stýrimanna þó að þær séu trúlega nokkrar. Þetta á fyrst og fremst við um vélstjórana. Ég held að það sé enginn vafi á því að í landinu eru til miklum mun fleiri einstaklingar með full réttindi til þessara starfa en viljað hafa sinna þeim á undangengnum árum. Ég held því að ekki sé hægt að halda því fram að beinlínis sé skortur á menntuðum mönnum til þessara starfa. Þeir hafa hins vegar kosið að gegna öðrum störfum, ekki viljað fara í þessar starfsgreinar. Af þessu stafar vandamálið sem nú blasir við og hefur raunar blasað við lengi. Það er sjálfsagt að gera eins og hægt er í þeim efnum að hlúa að þeim stofnunum sem eiga að mennta menn til þessara starfa. Ekki á það hvað síst við um skipstjóra og stýrimenn, sem gegna hvað mikilvægustum störfum í þessum efnum, en hinu held ég að menn megi ekki gleyma og verði að horfast í augu við þær staðreyndir, að undanþáguveitingarnar eru til komnar vegna þess að réttindamenn, sem þó eru fyrir hendi í landinu, hafa ekki viljað vinna við þessa atvinnugrein.

Um þennan þátt, a. m. k. í frv. er varðar skipstjórnarmennina, er hvað mestur ágreiningur. Þess ber þó að geta hér, sem ég hygg að hafi kannske komið fram áður, að núna síðustu dagana veit ég a. m. k. ekki betur en nokkurs konar samkomulag hafi tekist milli hæstv. samgrh. og forsvarsmanna Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um að 15. gr. frv. falli út, þ. e. um aukin réttindi þrátt fyrir að menntunin segi ekki þar til um, og að þeim þætti málsins verði frestað og taki ekki gildi fyrr en um áramót 1984–85 eða 1. janúar 1985. Um þessa málsmeðferð veit ég ekki betur en sé nokkur friður við forsvarsmenn Farmanna- og fiskimannasambandsins og í ljósi yfirlýsinga hæstv. samgrh., sem er greint frá í nál., sætti þeir aðilar sig, úr því sem komið er, við þessa málsmeðferð. Hinu ber þó ekki að leyna að ýmis félög eða a. m. k. einhver félög innan Farmanna- og fiskimannasambandsins eru óánægð. Þar má nefna Skipstjórafélag Íslands, en fulltrúar þess félags komu á fund n. í morgun og höfðu ýmsar athugasemdir uppi að því er þetta varðaði og vildu að málið lægi til hausts.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé æskilegast, svo fremi sem það er hægt og eigi raunar að ganga eins langt og hægt er til þess, að sætta sem flest sjónarmið í þessum efnum. Þetta eru viðkvæm mál, en þó ber að hafa í huga að menn skyldu ekki ætla að leiðrétting frá því sem nú er gerist eins og hendi sé veifað. Ég held að menn verði á skikkanlegum tíma og með skikkanlegum aðdraganda að vinna sig út úr því máli. Ég held líka þó að uppi séu raddir og kannske margar og þær séu víða sem óski eftir því að þessu máli sé frestað sé það a. m. k. ekki verri leið að afgreiða málið með þeim hætti sem nú er lagt til, með því að taka mesta ágreiningsatriðið út og gefa mönnum tækifæri til þess á komandi sumri fram á haust að reyna að ná sáttum. Þegar fyrir liggur að þetta mál er búið að vera í nefnd í sex ár og er nú fyrst komið úr höndum nefndar með þeim hætti sem hér liggur fyrir er ég alls ekki sannfærður um að það þurfi ekki að þvinga menn til að slíðra sverðin og reyna að ná saman í sem mestri sátt um mesta ágreiningsatriðið sem er í frv., varðandi skipstjórana. Ég hygg að ef mönnum er á annað borð umhugað að ná þar saman höndum ætti það að vera hæ t á þeim tíma sem hér er til umræðu.

Ég vil líka í sambandi við undanþágumálið upplýsa að ég sé ekki betur en að eins og með þau mál hefur verið farið frá því 1979, þ. e. frá samgönguráðherratíð hv. þm. Ragnars Arnalds, sé um hreint lögbrot að ræða. Lög gera ráð fyrir að rn. hafi heimild til undanþáguveitinga undir vissum kringumstæðum, en árið 1979 var sett í þetta sérstök nefnd. Ég sé ekki neins staðar, og menn leiðrétta mig þá ef ég fer rangt með, nokkra lagastoð til þess að rn. afsali sér undanþáguvaldinu og láti það í hendur einhvers annars. Nú er þetta ekki sagt til þess að kasta rýrð neitt á þá einstaklinga eða þá nefnd sem þarna hafa um fjallað, en lögin gera ótvírætt, að mínu viti, ráð fyrir því að rn. annist sjálft þessa undanþáguveitingu eftir þeim ákvæðum sem gildandi lög gera ráð fyrir.

Ég taldi rétt að þetta kæmi fram og ég ítreka að þó að ég telji að ekki síst í þessum efnum sé ástæða til að hlúa að menntun þessara einstaklinga eftir því sem möguleikar eru verði aldrei komist hjá því að einhverjar undanþáguveitingar eigi sér stað í þessum efnum. Ég held að menn komist aldrei fram hjá því. Hversu vel sem menn telja sig búa í haginn til að mennta einstaklinga til þessara starfa held ég að reynslan sýni að að minnsta kosti þarf að verða mikil hugarfarsbreyting og bætt aðstaða á fleiri sviðum en að því er menntunina sjálfa varðar. Þar þurfa líka að koma til bætt kjör þeirra einstaklinga sem hér eiga hlut að máli ef það á að vera von til þess að menn geti siglt þann sjó í framtíðinni að undanþágur verði úrsögunni.

Um þetta voru þeir, sem komu á fund samgn. í morgun af hálfu Skipstjórafélags Íslands, sammála. Þeir telja ekki hægt, a. m. k. ekki á næstunni, að komast frá þessu máli öðruvísi en að undanþáguveitingar verði að minnsta kosti fyrir hendi, að hægt sé að leyfa þær.

Ég skal ekki, herra forseti, flytja öllu lengra mál um þetta. Ég get í raun og veru, eins og ég sagði áðan, talað um bæði frv. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þau bæði. Annars vegar er brtt. á þskj. 1082, sem er brtt. við það frv. sem hér er nú til umr., þ. e. um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Nú vill svo til að í gildandi lögum segir að því er þessar starfsstéttir varðar, með leyfi forseta, í 17. gr.:

„Ef skortur er á mönnum með nægjanleg vélstjóraréttindi getur siglingamrn.“, taki menn eftir, siglingamrn., þetta eru lög frá 1966 ef ég man rétt, „eftir ósk útgerðarmanns eða skipstjóra veitt manni, sem eigi fullnægir skilyrðum laga þessara, með undanþágu rétt til vélstjórnar á tilteknu skipi um takmarkaðan tíma, þó ekki lengur en sex mánuði í senn. Áður en undanþága er veitt skal ávallt leita umsagnar viðkomandi stéttarfélags vélstjóra.“

Þetta er í gildandi lögum. Það er þó nokkuð um það að einstaklingar með full vélstjóraréttindi eru ekki félagar í aðildarfélögum innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Það er þó nokkuð um það að menn með þessa menntun eru fullgildir félagar í hinum ýmsu verkalýðs- og sjómannafélögum víðs vegar í kringum landið. Ég tel að það nái ekki nokkurri átt að réttur þeirra stéttarfélaga, sem þessir menn eiga aðild að, sé skertur og umsagnaraðild þeirra sé kippt út úr löggjöf. Hinir einstaklingarnir, sem eru félagar innan vébanda Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, eiga samkv. frv. að eiga aðild að undanþágunefnd þannig að þar á að vera hægt að gæta hagsmuna þeirra, en ég tel óeðlilegt að svifta stéttarfélög hinna einstaklinganna allri umsögn um þetta mál. Ég geri ráð fyrir því, og mín brtt. hljóðar upp á það, að sams konar ákvæði verði tekið inn í lög nú og er í gildandi lögum um að stéttarfélög viðkomandi vélstjóra hafi umsagnaraðild að því er varðar undanþágubeiðnirnar. Þetta tel ég eðlilegt og á ekki von á því að nokkur mæli því gegn.

Að því er varðar hitt frv., sem er um skipstjórnarmennina, er ekkert slíkt ákvæði þar í gildandi lögum. Ég tel hins vegar eðlilegt að gæta samræmis með því að taka sams konar ákvæði inn í það frv. og flyt því brtt. á þskj. 1081 þar sem ég geri ráð fyrir því að aftan við 1. málsgr. 19. gr. frv. komi inn sams konar ákvæði, þ. e. þess efnis að áður en undanþága er veitt skal ávallt leita umsagnar viðkomandi stéttarfélags skipstjórnarmanna.

Ég tel að eðlilegt sé að stéttarfélög fái umsagnarrétt um þetta. Það er að sjálfsögðu hlutverk þess, sem á að veita undanþáguna, að taka endanlega ákvörðun. Ég legg sérstaka áherslu á að þessu ákvæði verði haldið í lögum um vélstjórana þó að ég telji jafnframt mjög eðlilegt og æskilegt að samræmingar gæti þannig að í báðum þessum frv., ef að lögum verða, fái stéttarfélög a. m. k. að hafa umsagnarrétt um málið.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa um þetta öllu fleiri orð. Ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að hér er vissulega um mál að ræða sem mjög vafasamt er að náist víðtæk samstaða um. Þetta er tilfinningamál líka. Hér er auðvitað um að ræða stórmál að því er varðar þá tilteknu einstaklinga og starfsstéttir sem hér eiga hlut að máli. Í slíkum málum er a. m. k. rétt að fara varlega og gæta sín. En auðvitað er ekki hægt í þessu frekar en öðru að fara að vilja allra. Einhvers staðar verður að taka af skarið. Ég held þó, það er mín skoðun, að með afgreiðslu af því fagi sem hér er lagt til að fram gangi eigi að vera hægt að ná nokkuð víðtækri samstöðu um þann ágreining sem nú er hvað mestur um frv. eins og þau komu til hv. Nd. frá Ed.