21.05.1984
Neðri deild: 105. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6544 í B-deild Alþingistíðinda. (6099)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Það er nú komið nokkuð langt fram á nýjan dag og liggur mikið á að koma fram mörgum málum sem því miður hafa fengið afar litla athugun í nefnd, en þar sem þetta mál kemur loksins fram nú verður auðvitað að ganga frá því með formlegum hætti.

Í fáum orðum sagt er þetta frv. komið aftur til þessarar hv. deildar frá Ed. vegna þess að í Ed. voru gerðar nokkrar breytingar á frv. eins og það kom frá þessari hv. deild. sjútvn. kom saman strax að lokinni afgreiðslu Ed., eins og lög gera ráð fyrir, og sjútvn. Nd. ræddi breytingar þær sem urðu á frv. í Ed. Nefndin leggur til að þessar breytingar verði samþykktar.

Í hv. Ed. urðu nokkrar smávægilegar breytingar á frv. eins og það kom frá okkur í fjórum liðum.

Í fyrsta lagi var þar gerð sú breyting á 16. gr. að í stað orðsins „Ráðuneytinu“ kemur: Ríkismat sjávarafurða. Í öðru lagi varð í Ed. önnur breyting á 16. gr. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Verði meiri háttar mistök í meðferð sjávarafla og/eða framleiðslu sjávarafurða skal Ríkismat sjávarafurða framkvæma ítarlega rannsókn á orsökum þess og gefa sjútvrh. og fiskmatsráði skriflega skýrslu um tildrög og orsakir mistakanna.“

Þarna er um það að ræða að menn geti lært af mistökum.

Í þriðja lagi var gerð sú breyting á síðustu mgr. greinarinnar að í staðinn fyrir „veitingu vinnsluleyfis“ komi: endurveitingu vinnsluleyfa.

Í fjórða lagi varð sú breyting á 18. gr. frv. að í stað orðanna „taka þátt í yfirmati“ komi: fylgjast með yfirmati.

Herra forseti. Ég tel rétt og nauðsynlegt að geta þess að síðasta brtt., sem kemur frá Ed., hafði verið samþykkt í hv. sjútvn. þessarar hv. deildar, en sú breyting hafði fallið niður í vélritun eða prentun og var þess vegna nauðsynlegt að flytja þá brtt. aftur.

Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að endurtaka að sjútvn. þessarar hv. deildar leggur til að þessar breytingar, sem komu frá Ed., verði samþykktar.