21.05.1984
Neðri deild: 105. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6548 í B-deild Alþingistíðinda. (6102)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar ég var beðinn að fresta máli mínu hér áðan var ég búinn að skýra frá ýmsu í sambandi við sögu Búnaðarbankans. Ég var að leitast við að sýna fram á það að Búnaðarbankinn væri fyrst og fremst stofnlánasjóðir sem nú er verið að reyna að kljúfa frá bankanum. Ég sýndi fram á það, að ég tel með rökum og skýrum dæmum, að það voru stofnlánasjóðirnir sem mynduðu bankann og hann hefur síðan þróast upp í það sem hann er, fyrst og fremst að þeirra tilstuðlan.

Ég vil líka í sambandi við það sem ég hef þegar sagt rifja það upp að það hefur verið mjög einkennilega haldið á þessu máli. Því er kastað hér inn í þingið án þess að kanna það til hlítar, kanna þau önnur lög sem þarf að breyta, kanna hvað þetta þýðir fyrir þessa stofnun, og greinargerðin, sem fylgir með frv., er í sjálfu sér ekkert annað en fullyrðingar sem, ef þær eru skoðaðar, standast ekki. Það er alveg sama hvað maður lítur á í því sambandi, þá stendur ekki steinn yfir steini.

Löngu áður en nokkuð gerðist í landbúnaðinum voru stigin risaskref í sjávarútvegi með tilkomu þilskipa og síðan gufuskipa og togara. Þau spor voru að vísu stigin með brauki og bramli. Brautryðjendurnir fóru á hausinn hver af öðrum en þeir skildu eftir sig verðmæt framleiðslutæki og dýrmæta reynslu handa þeim sem við tóku.

Rétt fyrir síðustu aldamót fer þó að breytast viðhorfið til landbúnaðarins. Aldamótamennirnir svokölluðu tóku trú á ræktun landsins og lögin um Ræktunarsjóð eru sprottin úr þeim jarðvegi. Þeir tóku að afla sér nýrra tækja, járnrekan þokar um set og hverfur, ristuspaðinn tekur við af torfljánum við túnsléttun og er talið valda byltingu í landbúnaðinum, svo frumstæður var hann þá. Síðan kemur plógurinn, herfin og önnur hestverkfæri sem aldrei verða þó verulega almenn. Engin risaskref voru stigin í landbúnaði fyrr en á síðustu tímum með innflutningi stórvirkra landbúnaðarvéla, sem hafa ræst fram og tætt sundur móa og mýrarfláka og breytt þeim á tiltölulega mjög skömmum tíma í rennislétt grasgefin tún, svo að nú má heita að á aliflestum bæjum sé einvörðungu heyjað á ræktuðu landi. Síðan 1947 hefur túnstærðin aukist um nær 90% og er orðin 75 þús. hektarar.

Vélvæðing sveitanna á síðustu árum hefur gert bændum kleift að anna hlutverki sínu í þjóðfélaginu þrátt fyrir sífellda fækkun þeirra sem að landbúnaði starfa. Sveitarómantíkin er liðin undir lok. Menn gátu leyft sér að vera sælir í fátækt sinni á meðan búhokrið lét þeim í té lífsnauðsynjar, fæði, klæði og skæði án þess að þurfa að hafa áhyggjur af að birgja aðra upp. Býlin gátu bjargast af eigin rammleik, gátu verið heimur út af fyrir sig. Nú er þessu öðruvísi farið. Ör fólksfjölgun í bæjunum, stórar iðnaðar-, verslunar- og alls konar þjónustustéttir gera landbúnaðinn óhjákvæmilegan lið í þjóðfélaginu. Hann verður að standa sína „plikt“. Annars brestur öryggi um afkomu þjóðarinnar.

Áður, meðan þorpin og bæirnir framleiddu talsverða mjólk og aðrar landbúnaðarvörur í hjáverkum, var allur stuðningur við bændur litinn hornauga af neytendum í bæjum. Nú er hins vegar almennt viðurkennd sú staðreynd, að ekkí sé unnt að gera áætlun um framkvæmdir í landinu, ný iðnfyrirtæki, samgöngutæki, hótelrekstur o. s. frv. án þess samtímis að athuga hvort landbúnaðurinn geti rækt sitt hlutverk, því að það er firra ein að landið verði nokkru sinni byggilegt með því að flytja inn svo nokkru nemi helstu landbúnaðarafurðir, svo sem mjólk og kjöt.

Um visst tímabil getur verið bráðnauðsynlegt að styrkja þær framkvæmdir í sveitum sem gefa ekki arð strax, en verða arðbærar og nauðsynlegar í framtíðinni. Flestar þessar framkvæmdir er'u þó það arðbærar strax að þær geta svarað aftur hæfilegum vöxtum og afborgunum af 10–20 ára lánum. Stofnsjóðum landbúnaðarins er ætlað að lána til slíkra framkvæmda. Þeir eru því miður illa á vegi staddir, þar sem ríkisframlög hafa hvergi nærri nægt til að vega upp á móti árlegum vaxtamismun á útlánavöxtum sjóðanna og vöxtum á lánum sem þeim hafa verið útveguð sem starfsfé og vegna gengislækkananna.

Árin 1950 og 1951 var gerð áætlun um aukningu landbúnaðarframleiðslunnar um 10 ára skeið. Framkvæmd þessarar áætlunar hefur tekist vel og vitanlega kostað mikið fjármagn. Sjóðir bankans hafa á þessu tímabili, 1951–1960, lánað sem hér segir: Veðdeildin 37.3 millj., Ræktunarsjóður 308.4 millj., Byggingarsjóður 96.7 millj., eða samtals 442.4 millj. kr. Framleiðsluaukning þessara síðustu 10 ára er bráðnauðsynleg. Landnámsstjóri sagði í erindi sem hann flutti um landbúnaðarmál um 1960 að ef kyrrstaða hefði orðið í landbúnaði síðustu 10 ár léti nærri að inn hefði þurft að flytja um helming af þeim neysluvörum sem af landbúnaði fást.

Fólksfjölgun er nokkuð ör í landinu, þannig að á næstu 10 árum er talið að aukningin nemi um 37 þús. manns en árið 2000 verði fólksfjöldinn orðinn 390 þús. eða meira en tvöfaldur á við nú. Þessari væntanlegu fólksfjölgun verður að mæta með aukinni framleiðslu á neysluvarningi. Landnámsstjóri telur að mjólkandi kúm þurfi að fjölga um 44–50 þús. gripi á næstu 40 árum, kjötframleiðsla að aukast um 12–15 þús. tonn, kartöflur og grænmeti og gróðurhúsaframleiðslan að tvöfaldast, svo og afurðir alifugla. Þessar framkvæmdir allar kalla á aukið fjármagn, eflingu lánsstofnana landbúnaðarins, en eins og ég lýsti hér að framan eru aðalsjóðirnir óstarfhæfir og því aðkallandi að finna ráð til þess að rétta þá við, gera þá sjálfbjarga og starfshæfa.

Þessi lýsing landnámsstjóra frá 1960 og sú hvatning sem hann gefur þá bændunum í landinu sýnir í sjálfu sér að hið opinbera hefur ekki haft lítil áhrif á það hvernig mál hafa þróast og hvernig við stöndum nú.

Ég sé nú, herra forseti, að klukkan er farin að ganga sex og sé ekki ástæðu til þess að tala hér yfir tómum sal. Ég var beðinn að fresta máli mínu hér í nótt og varð að sjálfsögðu við því. En ég gerði þá ekki ráð fyrir því að það yrði notað þannig að þegar salur tæmdist yrði samt haldið áfram fundi. Það sem ég mun eiga eftir að segja á ég eftir að segja við hv. þm. Mun ég því fresta máli mínu þangað til við 3. umr.