22.05.1984
Efri deild: 112. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6551 í B-deild Alþingistíðinda. (6111)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Frsm. 2. minni hl. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir hefur fengið mikla hraðafgreiðslu frá Nd. Það kemur fram í nál. minni hl. samgn. í þeirri deild að þeir átelja mjög harðlega þau vinnubrögð og minnast á að málið hafi ekkert verið rætt í nefnd að gagni og ekki verið sent öllum aðilum til umsagnar sem um það hafi þurft að fjalla. Minni hl. þar lagði til, eins og minni hl. hér þegar frv. var hér fyrir Ed., að frv. yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá með sömu röksemdafærslum og við beittum hér.

Það skal viðurkennt að gerðar hafa verið breytingar á frv. sem ganga nokkuð til móts við sjónarmið okkar. Við lögðum til að frv. yrði frestað til hausts og þess freistað að vinna í því og ná fullri sátt milli aðila við framkvæmd þessara mála. En í brtt. þeim sem samþykktar voru í Nd. er frestað gildistöku ýmissa greina sem er tæknilega hyggilegt fyrst svo mikið ofurkapp er lagt á að samþykkja þetta frv. Við erum þó ekki sátt enn við þessa afgreiðslu, teljum að hyggilegast hefði verið að fresta afgreiðslu frv. til hausts og sumartíminn notaður til að ræða við aðila og fá þá til að leggja frv. lið, vegna þess að þetta fólk á eftir þessu frv. að starfa.

Við munum hins vegar ekki við þessa lokaafgreiðslu greiða atkv. gegn frv. Við treystum okkur ekki til þess að greiða því atkv. og fordæmum þau vinnubrögð sem hafa verið höfð í frammi við málið. Það var skoðun okkar að tekist hefði að ná einingu um þetta frv. og sátt. Í ljós kom að svo var ekki. Þess vegna töldum við að það hefði verið manneskjulegt að viðurkenna að það hefði ekki tekist og nota sumarið til að bæta úr því.