22.05.1984
Efri deild: 113. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6553 í B-deild Alþingistíðinda. (6117)

67. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Mér hefði fundist eðlilegt að þetta mál hlyti þá afgreiðslu hér í deild að það yrði samþykkt. En það verð ég að segja að mikið er traust hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar á þessari ríkisstj. og því sem hann telur hana liðlega til að afreka í skipulagsmálum landbúnaðarins. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég ber ekki slíkt traust til þessarar hæstv. ríkisstj. í þeim efnum. Ég óttast að enn sem fyrr muni framsóknarsjónarmiðin ráða of miklu um störf og stefnu ríkisstj. í þessum efnum. Ég mun þess vegna greiða atkv. gegn því að þessu máli verði vísað til ríkisstj.

Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstj., sem samþykktur var fyrir réttu ári og vantar þó fjóra daga þar upp á, var samþykkt að verslun með garðávexti skyldi gerð frjálsari. Þar hefur lítið skeð, eins og lýðum er ljóst og atkunna er. Mitt traust á ríkisstj. er ekki þess eðlis að ég marki að miklu þær yfirlýsingar, sem nú hafa verið gefnar, um að aflétta einokun á þessum sviðum. Til þess held ég að vissir valdaaðilar innan ríkisstj. eigi allt of ríkra og mikilla hagsmuna að gæta. En tíminn mun leiða í ljós hvort þessi tortryggni mín er á rökum reist eður ei. Ég mun því greiða atkv., eins og ég sagði, á móti því að þessu máli verði vísað til ríkisstj., en láta mitt atkv. falla á þann veg að þetta mál ætti að ná fram að ganga.