22.05.1984
Efri deild: 113. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6555 í B-deild Alþingistíðinda. (6128)

30. mál, almannatryggingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég á ekki sæti í hv. heilbr.- og trn. þessarar deildar og vil ég því nota tækifærið hér nú til að lýsa stuðningi við það frv. sem hér er til afgreiðslu.

Eins og hv. 2. þm. Austurl. kom inn á við 1. umr. málsins er hér um anga af stærra máli að ræða, það er 150. máli þessa þings, frv. til l. um fæðingarorlof. Það frv. er búið að liggja í heilbr.- og trn. þessarar deildar síðan 8. febr. s. l. og hefur ekki fengist afgreitt úr n. þrátt fyrir ítrekuð tilmæli mín um það til formanns n., hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar.

Ég vil upplýsa hv. þdm. um að af þeim rúmlega tuttugu umsögnum sem beðið var um um það frv. hafa sjö skilað sér, eftir því sem ég best veit, þar af fimm jákvæðar, en tveir aðilar töldu það ekki í verkahring sínum að taka efnislega afstöðu til frv. Jafnframt hefur borist undirskriftalisti austan af Héraði til stuðnings frv. og undir hann skrifuðu 472 alls. Sams konar undirskriftir eru nú að safnast fyrir í Reykjavík. Jafnframt má minna á að fyrir skömmu samþykkti aðalfundur Félags einstæðra foreldra áskorun til Alþingis um að veita þessu frv. framgang. Þetta hefur ekki dugað til að þoka frv. úr nefndinni og verður ekki annað sagt en að þar með sé verið að hunsa þann vilja sem fram kemur í umsögnum um frv., undirskriftalistum og áskorunum til Alþingis.

Ég harma að slík málsmeðferð skuli eiga sér stað á Alþingi Íslendinga að málið skuli ekki einu sinni eiga að ganga fram til atkvgr. Slík vinnubrögð eru mönnum vart sæmandi. En þann litla anga af fæðingarorlofsmálum, sem hér er nú til afgreiðslu, styð ég auðvitað heils hugar.