22.05.1984
Neðri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6559 í B-deild Alþingistíðinda. (6147)

332. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. hélt hér í gær athyglisverða ræðu um bankamál og gat þeirrar stefnú, sem nú er verið að framkvæma, skipulagða á persnesku töfrateppi á þann veg að bindiskylda afurðalána Seðlabanka skuli lækkuð um 5% á sama tíma og hækka ber um 10% innlánsskyldu bankanna. Er þetta í anda Sjálfstfl. og frjálshyggjunnar eftir því sem mér skilst. Ég fæ ekki séð hver raunveruleg stefna í málum ríkisbankanna er eins og hún birtist hinum almenna þm.

Í beinu framhaldi og í tengslum við þetta hlýtur maður að spyrja sjálfan sig hvort það sé yfirlýst stefna stjórnvalda að fjandskapast gegn ríkisbönkunum og þá fyrst og fremst hvað þeir hafi af sér brotið. Ef ætlunin er að halda þessari stefnu áfram hlýtur það að þrengja mjög að getu ríkisbankanna til að standa undir eðlilegri lánastarfsemi bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar. Hugsunin sem fyrst grípur mann er sú: er hugmyndin á bak við þetta að reyna með einhverjum ráðum að efla nú hlutafélagabankana svo til áhrifa í íslensku þjóðlífi að þeir rísi á legg með meiri hraða en verið hefur? En eins og allir vita hafa þeir ekki, þrátt fyrir þó nokkurn starfsaldur, náð neinum verulegum árangri í samkeppni við ríkisbankana sé um eðlilega samkeppni að ræða.

Það frv. sem hér liggur fyrir og fjallar um breytingar á lögum um Búnaðarbanka Íslands er að því leyti sérstætt að grg. er í engu samræmi við grein frv. og hlýtur það að vekja allmikla undrun. Grg. er að miklu leyti stefnuyfirlýsing um það hvað eigi að gera og hvað verði gert á næsta þingi og hefði þess vegna mátt koma út sem sérprentað blað. Það vekur nefnilega athygli að einu rökin sem hér eru haldbær sem meðmæli með því að þetta sé gert eru þau að setja þurfi samræmdar reglur um fjölgun útibúa hjá bönkunum. Það viðurkenna allir. Slíkar reglur verður að setja. En í orði er því haldið fram þessa dagana að bankarnir eigi að keppa innbyrðis. Ef þeir eiga að keppa innbyrðis, hvaða nauðsyn er þá á því að auka samræminguna að öðru leyti? Hún getur ekki verið nein ef mönnum er alvara með því að þeir eigi að keppa innbyrðis.

Það sem blasir við er það, að samþjöppun valdsins eykst með þessu móti, miðstýringin eykst, og er það auðvitað það eina sem er sjáanlegt sem heildarstefna í því sem verið er að gera. Það er verið að auka miðstýringuna. Ég veit ekki hversu virkar hagdeildir bankanna hafa verið. En oft og tíðum hefur manni fundist að sérþekking þeirra væri í algeru lágmarki. Ég hygg að það væri þarft að gera sér grein fyrir því að það sem mest væri virði í þróun bankamála á Íslandi væri aukin sérþekking hagdeildanna á hinum ýmsu sviðum. Ég er þess vegna algerlega andvígur því þegar hér er í grg. frv. talað um breytingu á starfsemi t. d. Búnaðarbankans sem er í andstöðu við lög hans, 3. gr. Má það fátítt heita að mönnum detti í hug að ætla í grg. að hvetja menn til að brjóta lög bankans og hef ég ekki séð slíka ábendingu áður í umsögn með frv.

3. gr. í lögum bankans hljóðar svo, með leyfi forseta: „Meginhlutverk bankans er að styðja landbúnað og greiða jafnframt fyrir fjármálaviðskiptum annarra atvinnugreina.“ En í grg. með frv. segir beinlínis: „Þá er þessi breyting til þess fallin að ýta undir þau viðhorf að hver viðskiptabanki skuli sinna atvinnulífinu í heild en sé ekki bundinn að verulegu leyti af þjónustu við tiltekna atvinnugrein, atvinnurekstur eða hagsmunahóp.“

Með þessu móti er verið að taka ákvörðun um það, ef trúa bæri grg., að Búnaðarbankinn eigi ekki að vera fyrir landbúnaðinn. Og það sem meira er, það er verið að taka ákvörðun um það líka að Iðnaðarbankinn eigi ekki að vera fyrir iðnaðinn, því að í grg. með því frv. er það skýrt tekið fram, með leyfi forseta: „Um frekari skýringar á því frv. sem hér liggur fyrir má vísa til þessa síðartalda frv.,“ þ. e. frv. um Búnaðarbankann. Ekki verður annað séð af þessu en hlutverk Iðnaðarbankans eigi þá að vera að þjóna sínum eigendum í framtíðinni, hann eigi ekki sérstaklega að þjóna iðnaði. Það sé fráleit bankastefna að hann sinni því hlutverki. Finnst mér það dálítið skrýtið á sama tíma og menn eru að tala um að efla beri íslenskan iðnað.

En það vill nú svo til að þó að grg. séu merkilegar þá eru lögin æðri og meðan 3. gr. Búnaðarbankalaganna hljóðar á þann veg sem ég las hér áðan verður grg. ekki skilin á annan veg en þann, að það sé hvatning til starfsmanna Búnaðarbankans, þ. e. bankastjóra og útibússtjóra, að brjóta nú lög bankans sem grimmast fram á haustið eða fram á næsta vetur ef ætlunin er að breyta þessu þá.

Ég verð að segja eins og er að ég skil ekki á hvaða forsendum mönnum dettur í hug að byggja greinargerðir upp á þennan hátt. Ég veit ekki betur en í nágrannalöndum okkar eigi bankar sínar sögulegu rætur eins og hér og þeir tengjast atvinnuvegum. Eigi aftur á móti að taka ákvörðun um það að brjóta þessar sögulegu rætur upp og segja: Allir bankar eiga að þjóna öllum — þá hlýtur sú spurning líka að vakna: Er þá ekki vitlegast að skipta ríkisbönkunum upp á einu bretti, leggja til að bankarnir sem tilheyra Suðurlandi verði að einum banka og nefnist þá bara: Banki Sunnlendinga? Þeir ríkisbankar sem tilheyra Norðurlandi verði þá bara að einum banka og nefnist Banki Norðlendinga og þannig verði Vestfirðingafjórðungur sömuleiðis tekinn. Er þá ekki alveg eins rétt að skipta kökunni þannig til að koma í veg fyrir það að hótelherbergi hér syðra séu að staðaldri full af mönnum, sem þurfa að eiga erindi við hið miðstýrða vald þess bankakerfis, sem við erum búnir að byggja upp?

Ég verð að segja það eins og er að mér finnst dálítið einkennilegt hvernig að þessu er staðið. Og ég verð að bæta því við að ég skil mjög vel afstöðu hæstv. iðnrh. þegar hann hryllir við því, ef svo færi að Iðnaðarbankafrv. yrði samþykkt eitt hér í þinginu. Það þætti honum ekki góð latína og skilur mætavel hvað hann er að gera. En hann þarf ekki að óttast það. Það er greinilega nægur meiri hluti hér í þinginu til þess að koma

Búnaðarbankamálinu hér í gegn. Það er aftur á móti ástæðulaust að standa þannig að því að menn geri ekki grein fyrir afstöðu sinni og hvers vegna menn telja þessi vinnubrögð óeðlileg. Og það var dálítið einkennilegt líka að þegar nafnakallið fór fram var eins og þau væru misjafnlega sterk, rök manna hið innra fyrir því að þeir væru að gera rétt. Þannig kom fram alveg extra ákvörðunarstyrkur hjá hv. 7. þm. Reykv. þannig að skrifari deildarinnar gerði sér alls ekki grein fyrir því hvernig bæri að merkja við svo afdráttarlausa yfirlýsingu. En þegar kom að hv. 2. þm. Norðurl. v., var þetta ákaflega undarlegt. Það var eins og verið væri að pína manninn með gjóandi töngum til að svara. Verður nú að segjast eins og er að það skapar erfiðleika líka þegar á að merkja við hvort það eigi að geta þess alveg sérstaklega í bókun að annar aðilinn hafi mælt með þessu á þennan ákveðna hátt með miklum innblæstri en hinn hafi greinilega verið mjög beygður þegar hann tók þessa afstöðu.

Ég tel ástæðulaust að hafa hér langt mál. Ég vil aftur á móti minna á það að Búnaðarbankinn hefur löngum staðið vel við Seðlabankann og það skilst okkur að sé þó nokkurt keppikefli í fjármálastjórn landsins að svo sé. Það hlýtur þess vegna að leggjast sú skylda á viðskrh. og þá er nú vel að hann er við. Það fer ekki á milli mála að hæstv. iðnrh. hefur bætt við sig fleiri embættum og er nú einnig viðskrh. þjóðarinnar. (Iðnrh.: Það er rétt.) Og það er vel að hann er við því að sanngjarnt væri að viðskrh. gerði nú grein fyrir því á hverju ári hér eftir hvort staða Búnaðarbankans við Seðlabankann væri jafngóð og hún hafði verið meðan bankinn laut aðeins stjórn landbrh. en ekki viðskrh. Ég er hræddur um að það verði ekki jafngóð staða hjá bankanum eftirleiðis. Mér sýnist nefnilega á öllu að ríkisvaldið hafi þó nokkra löngun til að misnota þá aðstöðu sína sem það tetur sig geta fengið fram með þeim hugmyndum sem hér hafa verið settar á blað, hugmyndunum í grg., því að breytingin sem er í 1. gr. væri ómerkileg ef afskipti rn. ættu ekki að vera önnur en þau að koma f veg fyrir það að útibúum fjölgaði í óhófi. En það virðist aðeins vera stigið fyrsta skrefið og stefnan virðist mörkuð í þá átt að leggja niður Búnaðarbankann sem banka fyrir landbúnað.