22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6564 í B-deild Alþingistíðinda. (6157)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Brtt. á þskj. 981, sem nú hefur verið felld, hefði tryggt eðlilegan framgang málsins af hálfu Alþingis og komið þessu máli inn á rétta braut án þess að því fylgdi að tefja hefði þurft framkvæmdir eða að opnað væri fyrir fjárhagsheimildir til framkvæmdavaldsins sem óþarft er og varasamt á þessu stigi málsins. Ég vek athygli á því að með samþykkt till. meiri hl. atvmn. eru alþm. að samþykkja að heimila framkvæmdavaldinu að hefjast handa um fjárhagslega áhættusamt fyrirtæki án þess að ljóst liggi fyrir hvaða fjárhagslegar skuldbindingar þeir leggja á ríkissjóð, ekki síst þar sem ekkert er vitað um hvernig staðið verði að markaðsmálum eða eignaraðild. Alþingi sem ábyrgð ber á þessu máli er með þessari afgreiðslu að afhenda framkvæmdavaldinu óútfyllta ávísun. Ég tel þessa málsmeðferð allt í senn óþarfa, óeðlilega og varasama og segi því nei.