14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

81. mál, rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Árni Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Mig langar í örfáum orðum að fjalla um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Í fyrsta lagi vil ég segja að frv. er mjög af hinu góða og ég tel nánast alla liði þess vera til mikilla bóta.

Það sem rekur mig í ræðustól er einfaldlega það að í 17. gr. þessa frv. eru tölul. 7 og 8 sem ég vil benda sérstaklega á, þar sem Hafrannsóknastofnun er ætlað að stunda rannsóknir á eldi sjávarlífvera. Í 8. tölulið segir „að stunda rannsóknir sem miða að aukinni fjölbreytni í öflun sjávarfangs“. Hér eru á ferðinni ákaflega mikilvægir þættir í starfsemi Hafrannsóknastofnunar og ég vildi beina til hæstv. sjútvrh. að hann beitti sér fyrir að þeir yrðu efldir til mikilla muna.

Það mun hafa verið árið 1980 eða '81 að ég og hv. þm. Magnús H. Magnússon fluttum frv. til l. um breyt. á lögum um Rannsóknastofnanir atvinnuveganna, þar sem við vildum fá inn í lögin ákvæði um eflingu eldis sjávarfiska eða rannsókna á eldi sjávarfiska hjá Hafrannsóknastofnun. Þetta frv. var samþykkt hér á þingi að hluta til, fór að vísu að mínu mati ákaflega brenglað út úr þinginu að því leyti að aðalatriðin hurfu á brott. Engu að síður var gert ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun gæti fengið sérfræðing í sína þjónustu er fjallaði eingöngu um rannsóknir á eldi sjávarlífvera.

Nú höfum við hv. þm. Magnús H. Magnússon að undanförnu verið að spyrja eftir hvað liði framgangi þessa máls. Við höfum fengið þau svör að Hafrannsóknastofnun væri að bíða eftir íslenskum sérfræðingi sem starfað hefur í Kanada og unnið þar mjög merkilegt starf, m.a. við eldi skarkola og auk þess gert tilraunir með eldi þorsks sem Norðmenn hafa náð ótrúlegum árangri í á undanförnum árum.

Ég vil ekki láta hjá líða í umr. um þessa merkilegu stofnun, Hafrannsóknastofnun, að minna eindregið á þetta atriði. Við stöndum frammi fyrir því núna að sjávarafli fer mjög minnkandi og sérstaklega hvað varðar dýrustu og verðmætustu fisktegundir þjóðarinnar. Ég hef látið það álit mitt í ljós á hinu háa Alþingi að við ættum að leggja mun meiri áherslu á það heldur en við höfum gert að efla eldi sjávarfiska þar sem það væri heppilegt. Við þyrftum þannig í raun og veru að reyna að hafa ráð náttúrunnar sjálfrar nokkuð í hendi okkar svo að við gætum stuðlað að því á ýmsan hátt að fiskstofnar, sem eru þessari þjóð lífsnauðsynlegir, fengju að viðhaldast með þokkalegu móti.

Ég segi þetta núna sérstaklega vegna þess að Norðmenn hafa sýnt þessu máli mikinn áhuga eins og fiskrækt almennt. Þeim hefur tekist að rækta þorsk sem er mjög merkilegt vísindalegt afrek og ég vildi gjarnan að við Íslendingar hefðum fetað í fótspor þeirra með það að efla rannsóknir af þessu tagi sem ég tel að gæti rennt stoðum undir framtíð þessa samfélags sem við búum í og við áttum okkur á þessa dagana að byggir á allt of einhæfum atvinnugreinum.

Virðulegi forseti — ég ætlaði nú að segja herra forseti — og mér verður að fyrirgefast þar sem ég er að þessu í fyrsta skipti í langan tíma. En ég vildi eingöngu leggja áherslu á þessi atriði og hvetja hæstv. sjútvrh. til þess að gera það sem í hans valdi stendur til þess að efla þennan þátt í starfi Hafrannsóknastofnunar, sem ég tel kannske mikilvægara heldur en flest annað sem þessi stofnun hefur fengist við á undanförnum árum og áratugum.