22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6577 í B-deild Alþingistíðinda. (6182)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það er ekki tími til eða tök á að taka þetta mikilsverða mál, sem byggðastefna og mál þar að lútandi eru, til umfjöllunar nú. Það mun ég ekki gera. Það er rétt, sem fram hefur komið, að þetta hefði betur verið komið á dagskrá fyrr svo að menn hefðu getað gert því betri skil.

Ég mun einnegin, vegna þess að málin eru mér persónulega að mörgu leyti mjög skyld, leiða hjá mér nú að víkja að einstökum þáttum, sem að þessum málum lúta, en vil aðeins segja í sambandi við tilvitnanir sem hv. 8. þm. Reykv. nefndi, að það voru nú ekki lýsandi dæmi heldur valin meira til að sýna þá hliðina sem menn þó kjósa af þessari starfsemi. En vegna þess sem kom fram í máli hv. 4. landsk. þm., um skipan ráðuneytismanna, kerfismannanna í stjórnum fyrirtækja, sem rekin eru á vegum rn., vil ég taka fram að ég hef gert mér ljósa grein fyrir þeim vanköntum sem á því eru og raunar tekið þá nýbreytni eindregið upp að ráðuneytismenn skipi ekki stjórnir slíkra fyrirtækja. Aftur á móti ætla ég þeim hverjum um sig að hafa eftirlit með einstökum fyrirtækjum, það er annað mál, en ekki vera ábyrgir af starfsemi viðkomandi fyrirtækja. Ég hef hins vegar þá skoðun um stjórnendur í slíkum fyrirtækjum, sementsverksmiðju, kísiliðju, sjóefnavinnslu, járnblendi o. s. frv., að þar eigi að sitja mest í stjórnum menn úr atvinnulífinu. Menn mega gjarnan hafa pólitíska hliðsjón af skipan manna í því sambandi líka því að ýmsir verðmætir vitmenn í pólitík eru frammámenn í atvinnulífinu sem betur fer. En þetta er mín skoðun og ég nefni þetta sérstaklega í sambandi við orð hv. 4. landsk. þm., Guðmundar Einarssonar.

Þeim mun meiri ástæða hefði verið til að gera þessum málum mun ítarlegri skil en nú er kostur á vegna þeirra ástæðna sem komu hér fram sérstaklega í máli hv. 3. þm. Vestf., Karvels Pálmasonar, því að enn sækir á okkur þessi óhamingja, sem hefur orðið okkur þung í skauti, sem er röskun í byggð landsins. Ég segi ekki að að öllu leyti sé hún og hafi allan tímann verið ill einvörðungu. Það er ástæðulaust að gera sér þann veg til. En eftir sem áður er það áreiðanlega þegar til lengdar lætur mikið hagsmunamál okkar að byggja landið allt. Þar er heldur ekki átt við að menn byggi útnára og hafi ekkert nema kostnað af því að hjálpa þeim sem þar vilja setja sig niður við að hjara. Það er allt annað mál. Þá eru menn að seilast um hurð til lokunnar ef þeir ætla sér þá dul að framkvæma byggðastefnu með þeim hætti.

Það er líka rétt að á framkvæmd byggðastefnunnar og skilgreiningu hefur kannske skort að því leyti sem framkvæmdin hefur verið á undan og farið öðruvísi úr hendi en ella hefði verið, ef menn hefðu orðið á eitt sáttir um skilgreiningu og stefnumótunina sjálfa. Margt hefur þó vel áunnist vegna þessarar starfsemi, en margt má betur fara og víst er um það, að það er stefna þessarar ríkisstj. að endurskoða þessa starfsemi og tilhögun í samræmi við það sem segir í stjórnarsáttmála. Það hefur gengið hægar og tregar en menn hefðu kosið og þegar hafa skilið leiðir hjá þeim sem skipaðir voru til þessa verks að endurskoða og leggja fyrir tillögur um endurskoðun sem síðan yrði fylgt eftir með lagabreytingu á hinu háa Alþingi. Nýlega hefur nefndin skilað klofin áliti sínu, að vísu ekki sérstaklega sundurgreindu eða með nákvæmum útlistingum, en ég á von á því að ríkisstj. taki þessi mál í framhaldi af því fljótlega til meðferðar. Hins vegar var þessi þáttur að vísu í spurningu frá hv. 3. þm. Reykv. og beindist að starfandi forsrh. og læt ég að öðru leyti útrætt um þetta mál.