22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6580 í B-deild Alþingistíðinda. (6186)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðeins örstutt aths. út af fsp. hv. 3. þm. Reykv. Hann vitnaði í nokkur atriði sem tilgreind eru í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. og spurði hvað hefði miðað varðandi þau atriði er þar voru nefnd.

Í fyrsta lagi er þetta að segja um endurskoðun á stjórnskipun og lögum um Stjórnarráð Íslands: Það hefur verið starfandi nefnd í því máli og hefur hún starfað mjög ötullega, skilað frá sér verulegum upplýsingum og gögnum. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að frekari ákvarðanir hafa ekki verið teknar, enda er hér um mjög stórt mál að ræða og eðlilegt að það taki nokkurn tíma. En ég get fullvissað hv. þm. um að það er staðfastur ásetningur ríkisstj. að reyna að halda þessu verki áfram og gera breytingar í ýmsum þáttum stjórnskipunarinnar, enda á ég von á að allir geti verið um það sammála að það sé eðlilegt að taka þau mál annað slagið til endurskoðunar í ljósi breyttra tíma og nýrra sjónarmiða og vinnubragða.

Í öðru lagi nefndi hv. þm. Ríkisendurskoðun. Ég get greint frá því að sama nefnd og áður gat hefur tekið til endurskoðunar frv.-drög sem liggja fyrir í því máli og eru að miklu leyti byggð á frv. sem flutt var á Alþingi fyrir allmörgum árum. Nú hefur nefndin sent frá sér drög að slíku frv. og vænti ég þess að það mundi verða lagt fram á n. k. Alþingi.

Í þriðja lagi nefndi hann rekstrareftirlit. Það tengist nú m. a. breyttum starfsháttum í eftirliti ríkisins og Alþingi og ég tel að Ríkisendurskoðun hljóti að verða mikilvægasti þátturinn í þeirri endurskipulagningu. Það hefur færst mjög í vöxt eftir að núv. ríkisstj. tók við að láta fara fram úttekt á starfsemi ýmissa stofnana og verður því starfi að sjálfsögðu haldið áfram.

Í fjórða lagi nefndi hann útboð. Það hefur einnig færst í vöxt, þó að það hafi verið stundað í nokkrum mæli lengi, að láta fara fram útboð sérstaklega í opinberar framkvæmdir. Einnig hefur komið til umræðu og menn hafa reynt fyrir sér um að bjóða út þjónustuþætti. Þar hefur niðurstaðan í sumum tilfellum orðið sú að það hefur ekki þótt hagkvæmt, en það hlýtur að vera eðlilegt að einnig sé tekið til athugunar hvort ekki sé hægt að bjóða út ýmsa þjónustuþætti sem ríkið sér um.

Að síðustu spurðist hann fyrir um endurskoðun á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Það hefur komið hér fram að nefnd hefur starfað að því máli og skilað áliti. Hún varð ekki sammála og frekari afstaða til þeirra starfa hefur ekki verið tekin af ríkisstj. Það er uppi ágreiningur um nokkur atriði, en full samstaða um önnur mjög mikilvæg atriði. Það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt að ágreiningur sé um slík mál eða menn séu hikandi um mjög róttækar breytingar í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að starf Framkvæmdastofnunar ríkisins hafi verið mikilvægt fyrir þróun byggðar í landinu og eftir að þær upplýsingar hafa borist, eins og hafa komið fram í þeirri skýrslu sem við höfum fengið á okkar borð, að þarna hafi verulega hallað undan fæti, þá er að sjálfsögðu eðlilegt að menn hiki við að gera þær breytingar sem yrðu til þess að stuðningur við atvinnuvegina mundi minnka.

Það eru uppi mjög margar raddir um að það verði að draga úr störfum í landbúnaði og í sjávarútvegi vegna þess að þar séu of margir við störf. Það er vissulega rétt í mörgum tilvikum. En á sama tíma hefur þjónustubáknið, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, þanist út og virðist því miður halda áfram að þenjast út. Ég verð ekki var við að þeir sem gagnrýna mest þau störf sem unnin eru í atvinnuvegum víða úti um land geri sambærilegar kröfur til útþenslu þjónustukerfisins hér, sem er einkum til húsa hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er enginn vafi á að sá flutningur á mannafla sem hefur átt sér stað núna síðustu árin er fyrst og fremst til kominn vegna þess að þjónustan er í mun meira mæli byggð hér upp, sem er að miklu leyti eðlilegt, en atvinnulífið úti um land hefur ekki getað tekið við þeim mannafla sem þar hefur verið fyrir hendi.