22.05.1984
Sameinað þing: 94. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6582 í B-deild Alþingistíðinda. (6188)

Þinglausnir

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Háttvirtir alþingismenn. Nú verður gefið stutt yfirlit um störf Alþingis.

Þingið hefur staðið yfir frá 10. okt. til 20. des. 1983 og frá 23. jan. til 22. maí 1984, alls 193 daga.

Þingfundir hafa verið haldnir:

Í neðri deild

107

Íefri deild

113

Í sameinuðu þingi

95

Alls

315

Þingmál og úrslit þeirra:

I. Lagafrumvörp:

1.

Stjórnarfrumvörp:

a.

Lögð fyrir neðri deild

38

b.

Lögð fyrir efri deild

81

c.

Lagt fyrir sameinað þing

1

120

2.

Þingmannafrumvörp:

a.

Borin fram í neðri deild

49

b.

Borin fram í efri deild

18

67

187

Úrslit urðu þessi:

a.

Afgreidd sem lög:

Stjórnskipunarlög

1

Stjórnarfrumvörp

93

Þingmannafrumvörp

17

111

b.

Vísað til ríkisstjórnarinnar:

Þingmannafrumvörpum

2

c.

Felld:

Stjórnarfrumvarp

1

Þingmannafrumvarp

1

2

d.

Ekki útrædd:

Stjórnarfrumvörp

25

Þingmannafrumvörp

45

70

187

II. Þingsályktunartillögur:

Bornar fram í sameinuðu þingi

110

Úrslit urðu þessi:

a.

Ályktanir Alþingis

25

b.

Felld

1

c.

Vísað til ríkisstjórnarinnar

4

d.

Afgreidd með rökstuddri dagskrá

1

e.

Ekki útræddar

78

f.

Vísað frá

1

110

III. Fyrirspurnir:

Í sameinuðu þingi 148. Sumar eru fleiri saman á

þingskjali, svo að málatala þeirra er ekki nema . .

73

Allar voru fyrirspurnir þessar ræddar eða

svarað skriflega nema 16.

Mál til meðferðar í þinginu alls

370

Skýrslur ráðherra voru

14

Tala prentaðra þingskjala

1128

Svo sem marka má af þessu yfirliti hafa mörg mikilvæg mál verið til meðferðar og hlotið afgreiðslu. Þótt menn hafi greint á um ýmislegt, sem gert hefur verið, sameinast allir alþm. í þeirri ósk að störf þessa þings megi verða til heilla landi og lýð.

Þetta þing, sem nú er að ljúka, hefur að ýmsu leyti verið með sérstökum hætti. Fleiri þingflokkar eru nú á Alþingi en nokkru sinni áður frá endurreisn þess. Fleiri þingmál hafa nú legið fyrir þessu þingi en nokkru sinni áður. Allt reynir þetta meira en áður á skipulag og starfshætti Alþingis.

En Alþingi byggir á traustum grunni og langri reynslu sem vísar veginn þegar aðlaga þarf vinnubrögð nýjum aðstæðum og viðhorfum. Engar verulegar breytingar hafa verið gerðar á þingsköpum Alþingis um langt skeið. Það var því tímabær ákvörðun, sem tekin var á þessu þingi, þegar ákveðið var að setja á stofn nefnd til að endurskoða þingsköp. Þessi nefnd vinnur nú að þessu þýðingarmikla máli.

Ekki gerist þörf að gerbreyta eða umbylta lögum um þingsköp. Hins vegar hafa einkum hin síðustu ár komið fram hugmyndir um breytingar í einstökum efnum eins og hv. alþm. er best kunnugt um. Má þar til nefna atriði eins og t. d. meðferð þáltill., fyrirkomulag fsp. framkvæmd utandagskrárumræðna, störf og hlutverk þingnefnda og útvarp frá Alþingi.

Þing það sem nú er að ljúka hefur ekki farið varhluta af gagnrýni frekar en oftast áður. Gagnrýni er í sjálfu sér góðra gjalda verð þegar í henni felast gagnlegar ábendingar og aðhald fyrir okkur þm. Slíkt ber ekki vott um andúð og virðingarleysi fyrir Alþingi, heldur þvert á móti sýnir áhuga og stolt fyrir elstu og mikilvægustu stofnun landsins.

Hin almenna umræða um starfshætti Alþingis er af hinu góða því að þm. geta margan lærdóm af henni dregið, bæði við mótun þingskapa og framkvæmd þeirra. Hins vegar má ekki heldur gína við hverri flugu sem kastað er fram í hinni mikilvægu umræðu um Alþingi og störf þess. Þar kennir stundum grasa sem sprottin eru af meiri eða minni misskilningi og vankunnáttu, svo að ekki sé meira sagt.

Það má heldur ekki, þó í góðum tilgangi sé, seilast um of til erlendra fyrirmynda um starfshætti Alþingis. Það ber jafnan að hafa í huga að Alþingi hefur í veigamiklum efnum sérstöðu, þegar borið er saman við flestar erlendar löggjafarsamkomur. Það eru mörg vandamál í löggjafarþingum sem stafa af margföldu fjölmenni á við það sem við höfum á Alþingi. Þess vegna ber að varast að apa eftir vinnubrögð sem eru ill nauðsyn til að mæta vanda hinna fjölmennu löggjafarþinga en hjá okkur kunna að geta hindrað að Alþingi njóti þess ómetanlega hagræðis sem fylgir fámennri löggjafarsamkomu. Mestu varðar að í þeirri stöðugu viðleitni sem halda verður uppi til að aðlaga starfshætti Alþingis kröfum tímans hverju sinni verði tekið mið af þeirri sérstöðu og löngu reynslu sem elsta löggjafarþing heims hefur yfir að ráða.

Við Íslendingar minnumst gjarnan á það við hátíðleg tækifæri eða á mikilvægum stundum að við eigum elsta löggjafarþingið. Kannske minnum við ekki síst erlenda menn á þessi sannindi þegar svo ber undir. Engum ber frekar að hafa þessa staðreynd í heiðri en einmitt Alþingi sjálfu.

Þetta þing, sem nú er að ljúka, er haldið 1053.–1054. ári frá stofnun Alþingis. Spurning er hvort ekki sé bragarbót að því að árafjölda frá stofnun Alþingis sé jafnan getið á þskj. hliðstætt því sem nú er getið tölu löggjafarþinga. Þennan sið mætti taka upp á næsta þingi, ef rétt þætti.

Þá verður á þessu ári breyting er varðar stöðu skrifstofustjóra Alþingis. Friðjón Sigurðsson skrifstofustjóri lætur af störfum fyrir aldurs sakir. Í dag samþykktu forsetar Alþingis að ráða Friðrik Ólafsson lögfræðing og ritstjóra Lagasafnsins skrifstofustjóra Alþingis frá 1. sept. n. k. Þegar næsta reglulegt Alþingi kemur saman hefur því Friðjón Sigurðsson látið af störfum skrifstofustjóra.

Friðjón Sigurðsson hefur verið skrifstofustjóri Alþingis í 28 ár og áður var hann búinn að vera fulltrúi á skrifstofu Alþingis í 12 ár. Þetta er langur starfstími og Friðjón Sigurðsson hefur verið skrifstofustjóri Alþingis í meira en 1/4 þess tíma sem þetta embætti hefur verið við lýði frá fyrsta löggjafarþinginu 1875. Á starfstíma Friðjóns Sigurðssonar hefur orðið mikil breyting á starfsháttum Alþingis. Þessar breytingar koma við skrifstofustjórann með tvennu móti. Annars vegar auka þær umsvif og verkefni skrifstofustjóra. Hins vegar gera þær meiri kröfur til forsjár og stjórnunar af hálfu skrifstofustjóra.

Friðjón Sigurðsson hefur staðið að nauðsynlegum breytingum í rekstri þingsins og jafnframt gætt þess að ekki hafi verið ofgert. Þannig hefur í senn Alþingi lagað sig að kröfum tímans og gætt hefur verið þess að staðið væri á gömlum merg í umróti liðandi stundar. Friðjóni Sigurðssyni eru færðar þakkir fyrir hans mikilvægu störf í þágu Alþingis, sem hann hefur unnið af sérstakri kostgæfni, elju og samviskusemi.

Nú við þinglausnir vil ég þakka öllum alþm. fyrir ágætt og ánægjulegt samstarf á þessu þingi. sérstakár þakkir færi ég varaforsetum, sem jafnan hafa fúslega veitt mér hina ágætustu aðstoð. Ég þakka skrifurum þingsins eljusemi og kostgæfni í störfum. Skrifstofustjóra og öllu starfsfólki Alþingis þakka ég fyrir mikið og gott starf og fyrir ánægjulega samvinnu í hvívetna. Ég óska utanbæjarþm. góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu og ég vænti þess að við hittumst öll heil á komandi hausti þegar Alþingi kemur saman á ný. Heill og hamingja fylgi öllum hv. alþm. og starfsliði Alþingis.

Fyrir hönd Alþingis bið ég öllum Íslendingum árs og friðar.