14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Magnús H. Magnússon:

Virðulegi forseti. Ég er í höfuðatriðum efnislega sammála því frv. sem hér er til umr. þó að auðvitað þurfi að skoða það vel í n. Ég er sammála hv. 9. þm. Reykv. um það að aðstæður geta verið mjög mismunandi frá einu fyrirtæki til annars þótt í báðum tilvikum sé um ríkisfyrirtæki að ræða.

En ég vil þó sérstaklega gagnrýna 5. gr. frv. Mér sýnist að hún þýði í reynd að ráðh. geti í svo til öllum tilvikum gengið fram hjá lögboðnum umsagnaraðilum. „Setja má mann í þau embætti sem jafnan skal skipa í," stendur þar, sem þýðir það að ráðh. geti sett mann án þess að leita umsagnar í svo til hvaða embætti sem er þó að það sé að vísu takmarkað við eitt ár. Auðvitað stendur sá maður mikið betur að vígi sem búið er að setja í embætti í eitt ár, ef síðan á að fara að auglýsa og skipa. Ég vil því gagnrýna 5. gr. og tel að það þurfi að breyta henni allverulega, þó að ég sé efnislega í höfuðatriðum sammála hugmyndinni sem liggur á bak við frv.