14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Flm. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim sem hér hafa tekið til máls fyrir jákvæða afstöðu þeirra til málsins. Mér heyrðist á máli þeirra allra að þeir teldu það rétta stefnu sem í frv. felst þótt hv. 9. þm. Reykv. Ólafur Jóhannesson hefði nokkrar athugasemdir að gera og teldi að huga þyrfti vel að því að ekki yrðu gerð mistök í sambandi við samþykkt frv. af þessu tagi.

Það sem einkum hefur borið hér á góma er það til hverra þetta nær. Þá vil ég fyrst víkja að spurningu hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur sem spurði hvort þetta næði almennt til ríkisstarfsmanna og m.a. til starfsmanna Háskóla Íslands. Það er óhætt að svara þessari spurningu alveg hiklaust játandi. Þetta nær almennt til allra ríkisstarfsmanna því að hér segir í 3. gr.: „Ráðh. ákveður í hverjar aðrar stöður, sem undir ráðuneyti hans heyra, skuli skipa tímabundið.“ Þetta er mjög víðtækt ákvæði og opnar ráðh. möguleika til að skipa tímabundið í allar þær stöður sem hann telur að eðlilegt sé að skipa tímabundið í. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að fyrir utan kennarastöðurnar er það langsamlega algengast að menn séu ekki með æviráðningu. Í dag er það þannig að það heyrir frekar til undantekninga, ef kennara- og skólastjórastöðurnar eru fráskildar, að menn séu skipaðir ævilangt til starfans. Það er ekki gert nema um sé að ræða meiri háttar stöður eða embætti og þá langoftast í samræmi við fyrirskipun í lögum. Það er líka t.d. algengt að deildarstjórar og jafnvel fulltrúar í ráðuneytum séu skipaðir ævilangt til starfa. (ÓIJ: Hvað um prófessora?) Um kennara gildir þetta almennt, að þeir eru langflestir skipaðir ævilangt til sinna starfa og að sjálfsögðu þá flestir starfsmenn Háskóla Íslands. (ÓlJ: Hvað um prófessorana?) Prófessorarnir já, já. Ég tel að það sé enginn vafi á því að með ákvörðun ráðh. geti frv. náð til allra þessara starfa ef það er talið eðlilegt. Frv. sjálft ákveður hins vegar einungis ótvírætt að þetta skuli gilda um forstöðumenn atvinnufyrirtækja og ríkisstofnana, en það opnar hins vegar ráðuneytum og ráðherrum leið til að ákveða þetta varðandi allar aðrar stöður hjá ríkinu.

Það má kannske vera að verið sé að fela ráðh. á hverjum tíma of mikið vald með þessu og löggjafinn eigi að taka af skarið í þessum efnum. Kannske vilja menn ganga lengra en gert er í þessu frv. og ákveða þetta varðandi allar stöður. Ég vil ekki útiloka þann möguleika, ég teldi það koma mjög vel til greina. En það væri miklu róttækari og stærri breyting en gerð er tillaga um í þessu frv. Í þessu frv. er athyglinni fyrst og fremst beint að forstöðumönnum fyrirtækjanna vegna þess að ég tel að þar kreppi skórinn mest og sé mest hætta á ferðum að afleiðingarnar geti orðið mjög slæmar ef vanhæfur maður eða illa hæfur maður gegnir slíkri stöðu um mjög langt skeið.

Í sambandi við það, sem er svo aftur önnur spurning og kom fram í máli hv. þm. Ólafs Jóhannessonar, hvort frv. nái til stofnana sem ráðið er til með öðrum hætti en greinir í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, vil ég lýsa því yfir sem minni skoðun að svo sé. Má vel vera að það þyrfti að taka það skýrar fram en gert er í frv. Ég álít að þetta eigi að ná til t.d. ríkisbankanna allra og til Framkvæmdastofnunar, svo nefnd séu dæmi. Og ég vil taka það fram að í frv. sem ég lagði fram hér í þinginu fyrir sex árum var beinlínis sagt í 3. gr.: „Lög þessi taka til ráðuneytisstjóra, bankastjóra, sendiherra, rektora, skólastjóra, sýslumanna, bæjarfógeta“ — það var einmitt það sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson spurði um hér áðan, um sýslumennina og bæjarfógetana — „og annarra yfirmanna dómsmálaembætta, forstjóra atvinnufyrirtækja í eigu ríkisins og annarra forstöðumanna ríkisstofnana.“

Kannske var þetta skýrara í fyrra frv. En þeir sem unnu að þessu máli í fjmrn. núna seinustu árin voru mjög mætir menn, m.a. skrifstofustjóri rn. og fyrrv. hæstaréttardómari, og þeir virðast ekki hafa séð ástæðu til að tiltaka einstök störf með þeim hætti sem ég gerði á sínum tíma og hafa talið það nokkuð ótvírætt að stöður þessar féllu undir þessi hugtök. En ég tek undir það sem hér hefur komið fram að það er betra að taka af allan vafa í þessum efnum. Og í mínum huga er enginn vafi á því að t.d. sýslumenn, þó að þeir gegni fyrst og fremst embættum, þá eru þeir við ríkisstofnun sem heitir sýslumannsembættið á viðkomandi stað, sýsluskrifstofan á viðkomandi stað, þeir veita henni forstöðu og það þarf að láta þetta ná til þeirra eins og annarra. Og ég tala nú ekki um bankastjórana sem eiga að sjálfsögðu að falla undir þetta. Aftur á móti hygg ég að landamærin verði að draga þar sem um er að ræða hlutafélög þar sem ríkið er einungis einn af mörgum þátttakendum. Jafnvel þótt um meirihlutaaðild sé að ræða getur þetta auðvitað ekki átt þar við. En það skiptir heldur ekki máli því það dettur engum í hug að menn af því tagi séu skipaðir í sínar stöður og reynir ekki á það. Ég álít því að þetta nái til allra þeirra tilvika þar sem menn eru í dag skipaðir til sinna starfa, settir eða ráðnir.

Hv. þm. Ólafur Jóhannesson taldi óeðlilegt að biskup væri nefndur í þessu samhengi, en það stafar kannske af því að hann hefur misskilið tilgang minn með þessu frv. Ég tel sem sagt að biskup hefði ótvírætt fallið undir þessa skilgreiningu ef hann væri ekki sérstaklega undanþeginn. Ég tel hins vegar rétt að undanþiggja hann vegna þess að ég álít að það séu nú þegar sérreglur sem gilda um starf hans. Hann er kosinn af prestum landsins og síðan skipaður til síns starfa að lokinni þeirri kosningu. Ég held að það væri þá hyggilegra að breyta þeim ákvæðum sér á parti, í samráði við þau öfl og þá menn sem þar starfa og hef ekki viljað gera sérstaka tillögu um það. Og sama gildir um prestana. Þeir eru kosnir til sinna starfa, einu mennirnir sem eru kosnir beinni kosningu til sinna starfa fyrir utan forseta Íslands. Um forseta Íslands gildir að sjálfsögðu það að hann gegnir sinni stöðu tímabundið. Ég hygg því að það væri heppilegra að taka sérstaklega fyrir starfsmenn þjóðkirkjunnar í sérstöku frv. Þó vil ég ekkert útiloka það að mál þeirra yrðu tekin hér til meðferðar, en taldi ekki ástæðu til að draga þá inn í þetta til þess að valda ekki deilum um minni háttar atriði.

Það er rétt sem hér kom fram að ekki er alveg nógu vel orðaður fyrsti málsliður 5. gr.: „Setja má mann í þau embætti sem jafnan skal skipa í“. Hér er auðvitað átt við: „Setja má mann í þau embætti sem að jafnaði skal skipa í“. Kannske er þetta einhvers konar misprentun eða pennaglöp sem auðvelt er þá að leiðrétta. En sú er að sjálfsögðu hugsunin. Ég vil í þessu sambandi minna á að kennarar eru oftast skipaðir í sín störf. En þegar kennaraembætti losnar þá má eins setja í starfið, eins og menn þekkja, og þá hefur það verið hvort tveggja, að sett væri til eins árs eða til óákveðins tíma. Hér eru tekin af öll tvímæli um það að slíkt yrði óheimilt framvegis, að setja mann til óákveðins tíma. samkv. þessu nýja ákvæði ber að setja mann til eigi lengri tíma en tveggja ára, og sé verið að setja manninn til starfa í lengri tíma en eitt ár þá ber að auglýsa stöðuna. Hér er sem sagt um að ræða þrengingu frá því sem nú er heimilt því að heimilt er nú að setja menn til starfa jafnvel án þess að staða sé auglýst, nema það sé sérstaklega tekið fram í viðkomandi lögum, og er mjög oft gert, eins og menn þekkja, og þá venjulega til skamms tíma. Ég hygg að menn séu nú aldrei settir til starfa í óákveðinn tíma án auglýsingar, það held ég að tíðkist aldrei. En hér er líka verið að þrengja það að hægt sé að setja menn til starfa í óákveðinn tíma.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég gerði hér till. um að málið yrði sent til félmn. Ég viðurkenni að ég var dálítið hikandi þegar ég gerði þá till. Mér fannst dálítið óeðlilegt að málið færi til fjh.- og viðskn. en fannst að það lægi einna næst fyrir að það færi til félmn. sem fjallar um ýmiss konar félagsleg réttindi manna. Þegar ég velti því fyrir mér frekar þá hygg ég nú að frv. til l. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hafi oftast farið til fjh.- og viðskn. hér í þinginu, ég hygg það. Þess vegna gæti auðvitað komið til greina að senda mátið til hennar. En ég skal alveg játa það að mér er heldur verr við að senda málið til hv. allshn., einfaldlega vegna þess að minn flokkur á ekki aðild að þeirri n. hér í d., svo einfalt er það nú. En ég mundi vilja draga til baka till. mína um félmn. með tilliti til þess sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði hér áðan og leggja til að málið færi til fjh.- og viðskn., eins og ég hygg að mál af þessu tagi hafi oft áður gert. Ég vildi þá áður en lengra er haldið átta mig á því hvort hv. þm. gæti ekki á það fallist.