14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 789 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég ætlaði nú ekki að blanda mér í umr. um þetta mál, en mig langaði þó aðeins til að varpa fram fsp. í sambandi við 6. gr., en 6. gr. kveður svo á að ráðning manns til starfa hjá ríkinu skal vera með tvennum hætti. Í fyrsta lagi ráðning til ákveðins tíma sem ekki skal vera lengri en tvö ár og í öðru lagi ráðning til óákveðins tíma með gagnkvæmum uppsagnarfresti.

Það sem ég á við í þessu efni er þetta: Hver ræður þessu? Hver tekur ákvörðun um það hvor aðferðin skuli viðhöfð? Það er hægt að ráða menn til óákveðins tíma, t.d. eru bankastjórar ráðnir með gagnkvæmum uppsagnarfresti. (RA: Sá sem ræður í stöðurnar.) Allir bankastjórar hafa það ákvæði í sínum starfskjörum að vera ráðnir með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Það er hægt að segja bankastjórum upp störfum. Sama er að segja um forstjóra í Framkvæmdastofnun og fleiri stöður. Það hefur ekki verið gert mikið af þessu en það er eigi að síður staðreynd að hægt er að gera það.

En það sem mig langaði til að spyrjast fyrir um er þetta: Hver er meiningin með þessari 6. gr.? Það er æði mikill munur á því hvort maður er ráðinn til ákveðins tíma sem ekki skal vera lengri en tvö ár, eða hann er ráðinn til óákveðins tíma með uppsagnarfresti, að vísu. Og það er að mínu mati eiginlega nauðsynlegt að gera á þessu gleggri skil því ef um er að ræða að þetta sé laust og í hendi þess sem ræður þessu, er þá í raun og veru um verulega miklar breytingar að ræða í framkvæmdinni frá því sem verið hefur? Og þess vegna langaði mig til þess að spyrjast fyrir um það hvernig þetta væri raunverulega hugsað, hvort það væri ekki ráð að setja frekari leiðbeiningarreglur um það hvað mætti ganga langt í því að ráða menn til óákveðins tíma.

Nú er margt í þessu máli sem ég álít að þurfi að skoða, eins og t.d. það að við Íslendingar höfum náttúrlega ekki alveg ótakmarkaðan fjölda hæfra manna. Þannig að það kemur auðvitað til skoðunar þegar menn taka ákvarðanir um hvort æskilegt sé að skipta mikið um, gera róttækar breytingar í þá átt að láta menn hætta í stórum stíl og aðra menn taka við, hvað menn hafa mikið mannval í þessum efnum. Ég óttast það dálítið, einmitt í sambandi við þessa grein, að ef það er algerlega í hendi viðkomandi aðila hvort um ráðningu til ákveðins tíma eða ráðningu um óákveðinn tíma á að vera að ræða, að það verði æði mikill ruglingur í þessu öllu. Þarf ekki að hafa fastari reglur um þetta atriði? Þess vegna langar mig nú til að spyrja flm. að því hvort hann hafi hugsað þetta atriði sérstaklega og hvernig hann gæti hugsað sér að það yrði í raun og veru framkvæmt þegar til stykkisins kemur?