14.11.1983
Efri deild: 14. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

88. mál, starfsmannaráðningar ríkisins

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v., flm. þess frv. sem hér er á dagskrá um starfsmannaráðningu ríkisins, beindi til mín spurningu um hvort fjmrh. mundi vilja beita sér fyrir framgangi þessa máls á Alþingi nú.

Ég svara því stuttlega: Nei, ég mun ekki gera það og vil það ekki. Það stendur hér í grg. á þriðju síðu að frv. þetta sé flutt í þeim tilgangi að stuðla að hæfilegri endurnýjun á mannaskipan í ríkiskerfinu. Það er ekkert í ríkiskerfinu sem kemur í veg fyrir þessa hæfilegu endurnýjun eða sem kemur í veg fyrir að ráðamenn geti komið í veg fyrir kyrrstöðu þannig að þetta frv. er óþarft þess vegna. Það fer eftir hverjum þeim sem stjórnar í það og það skiptið hvað hann fylgist vel með, hvernig starfið gengur, hvort hann er ánægður með það hvort það er komin kyrrstaða eða ekki. Og hann getur þá gert sínar ráðstafanir.

Síðan er sagt: „Hvergi er jafnbrýnt að forðast stöðnun og kyrrstöðu og í starfi forstöðumanns stofnunar“. Í 4. gr. segir, með leyfi forseta:

„Sé sá háttur viðhafður sem mælt er fyrir í 3. gr. skal skipað eða kosið í stöðu til minnst þriggja ára en mest sex ára.“

Þetta frv. kemur ekkert í veg fyrir kyrrstöðu eða stöðnun á þessu þriggja ára tímabili. Það skal skipa þessa aðila, þeir verða þá ekki hreyfðir á þessu fyrsta tímabili. Og það fer allt eftir manninum sjálfum hvort kyrrstaða myndast á þessu tímabili eða ekki í því starfi sem hann á að gegna. Þetta frv. gerir því ekki gagn að því leytinu til.

Ég sé margar hættur í þessu frv. T.d. hérna í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðh. getur ákveðið með reglugerð að forstöðumaður ríkisstofnunar skuli kosinn úr hópi tiltekinna starfsmanna stofnunarinnar.“

Á ráðh. að fara að velja hvaða starfsmenn eigi að kjósa úr ákveðnum hópi annarra starfsmanna þá sem eiga að stjórna stofnuninni? Sömu menn og ráðh. velur og hafa þá heimild til að kjósa sér úr sínum hópi forstöðumann stofnunar, sömu menn skulu hafa kjörgengi og kosningarétt, ekki allir starfsmenn. Þetta fyrirkomulag er í Alþb., að kjósa menn í embætti til ákveðins tíma og láta þá svo hætta. Það er hægt að endurnýja stöður í Alþb. til ákveðins tíma en ekki lengur. Það er verið að yfirfæra hér hugsunina sem þeir Alþb.-menn, sem ég kalla nú kommúnista svona almennt, nota sjálfir heima fyrir. En ég er andstæðingur þess skipulags og mun þess vegna ekki, og það er svar mitt við spurningunni, ég mun ekki beita mér fyrir framgöngu þessa máls hér á Alþingi. Það þýðir ekki að ekki sé réttlætanlegt að endurskoða starfsmannahald og ráðningar hjá ríkinu. Annars held ég að það hafi verið gert ef ég man rétt, ef minni mitt bregst mér ekki, með lögunum um verkfallsrétt opinberra starfsmanna þar sem fastráðningar voru felldar niður og falla niður eftir því sem tíminn líður. Mig minnir að það hafi verið, en það getur vel verið að það sé rangt hjá mér.