14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu fróðlegt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast með þeim áformum sem stórþjóðirnar í þessum heimi hafa um vígbúnað. Og það er að sjálfsögðu ekki hægt fyrir friðelskandi þjóð eins og okkur að sætta sig við slík sjónarmið, því þau samrýmast á engan hátt okkar vitund og okkar vilja í þessu landi. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fylgjast sem best með þessum málum og efla okkar eigin vitund um það hvernig slík áform gætu komið við okkur.

Það vekur vissulega nokkra furðu þegar frétt eins og sú sem birtist í gær kemur fram. Ég held að allir Íslendingar geti verið sammála um að fyrirætlanir eins og þar komu fram munu aldrei koma til greina. Ég veit ekki betur en full samstaða hafi verið um það á Alþingi og í þjóðfélaginu að hér yrðu aldrei geymd kjarnorkuvopn. Það kom fram áðan að setja þyrfti sérstök lög um að slíkt skyldi ekki gert. Ég tel að það sé óþarfi, vegna þess að ég hef þá trú á okkar þjóðfélagi og öllum lýðræðisöflum í þjóðfélaginu að slíkt mundi aldrei geta komið til greina. Það hefur og verið ótvíræður vilji Alþingis og ótvíræður vilji allra stjórnmálaflokka í landinu.

Það er hins vegar nokkuð merkilegt að heyra hvernig um þetta er rætt og hvernig um þetta er talað. Ég skal taka það fram að ég er lítill hernaðarsérfræðingur og almennt hef ég lítinn áhuga fyrir þeim málum. Þau koma tiltölulega sjaldan upp í minn huga sem betur fer. En hins vegar er það nokkuð undarlegt þegar menn tala um að loka svæðinu milli Grænlands og Íslands og loka svæðinu milli Íslands og skotlands með einhverjum stýriflaugum. Ég býst við að því svæði verði seint lokað. Hins vegar hefur mér skilist að hér væri um að ræða hugmyndir um að setja upp vopn sem gætu tekið þátt í hugsanlegum hildarleik í heiminum, þ. á m. að skjóta á skip á þessu hafsvæði og trúlega að skjóta eitthvað annað út í þennan heim. Ég hef því ekki trú á að hægt sé að ræða þetta með þeim hætti að loka eigi þessu hafsvæði í eitt skipti fyrir öll og eftir það geti ekkert rússneskt skip og enginn rússneskur kafbátur komist inn á það. Slíkt er að sjálfsögðu ekki ætlunin þegar menn ræða um þetta. Sjálfsagt er þá verið að hugleiða hvort ekki sé hægt að hafa hér á landi eins og í Evrópu einhverjar slíkar stýriflaugar.

Um það skal ég ekki fara fleiri orðum. Ég vildi aðeins taka fram að slíkt kemur alls ekki til greina og ætti í reynd að vera óþarfi að taka það fram hér á Alþingi, en ekki sakar það. En ég vil láta í ljós efasemdir um að við treystum sjálfum okkur ekki betur en það að við þurfum að setja sérstök lög um slíka hluti. Ég hef fullt traust á stjórnmálaöflum í landinu að þau leyfi aldrei uppsetningu stýriflauga hér. Ég vil gjarnan treysta því og ég held að það sé nauðsynlegt okkur öllum. Þess vegna tel ég óþarfa að setja sérstök lög um slíkt.