14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Okkur bregður auðvitað nokkuð við þegar við verðum fyrir því að hlusta á sjónvarpsfréttir eins og þær í gær, þar sem reifuð eru áform í túninu hjá okkur heima án þess að við höfum með nokkrum hætti af því frétt áður. En svo mikið er víst varðandi þessi áform að hversu vel sem þessir ágætu menn eru að sér í hernaðarfræðum þá eru þeir mjög fátækir að vitneskju í pólitík, því að fyrir þessum áformum, held ég að sé óhætt að segja, eins og reyndar hefur komið hér fram í dag, eru auðvitað engar pólitískar forsendur til.

Mér þótti ágæt yfirlýsing hæstv. utanrrh. af þessu tilefni. Mér þótti hún ekki bara ágæt heldur sjálfsögð og ég átti auðvitað von á því að hún yrði einmitt þannig. Og í samræmi við það hefur málflutningur allra verið hér í dag, nefnilega að svona lagað komi ekki til mála, fyrir því séu engar forsendur. Og að sú varnarstöð sem hér er sé rekin á allt öðrum grundvelli en þarna sé verið að tala um.

En þá verð ég líka um leið að mótmæla þeim málflutningi, sem hér hefur komið fram t.d. hjá hv. þm. Steingrími Sigfússyni, að hér sé rekin árásarstöð. Ég held að það hafi einmitt verið sérstaklega að því gætt að stöðin hér í Keflavík væri eftirlits- og varnarstöð og að það fyrirkomulag sem við höfum haft í þeim efnum hafi gefist okkur nokkuð vel. Og við skulum halda okkur við það. Það hefur tryggt okkur frið fram að þessu og hefur gefist okkur vel og við skulum ekki rugga þeim báti.

En ég hjó eftir því að önnur þeirra blaðagreina sem í er vitnað hér sem frétt er nú ekki aldeilis ný. Hún mun vera síðan í mars s.l. Og hin er frá því einhvern tíma í október. Þetta vekur mann náttúrlega til umhugsunar um það að ekki fylgjumst við allt of vel með. Og ekki veit ég hversu gömul þessi skýrsla er sem í er vitnað. Af því litla sem ég hef séð um hana verður ekki einu sinni ráðið hvenær hún hafi verið skrifuð eða gefin út. (Gripið fram í: Í júlí.) Í júlí? Já. Og það minnir okkur á það að eins og umræðan er í heiminum og eins og menn geta tekið upp á öllum mögulegum og ómögulegum athugunum þá þurfum við að leggja okkur betur fram um að fylgjast með, hvort I:eldur við ráðum til þess sérstaka ráðgjafa eða nýtum sendiráð okkar og mannafla betur til að fylgjast með. Mér finnst nú að varnarmálaráðuneytið bandaríska, sem hefur þó látið vinna þessa skýrslu að því er virðist vera fyrir sig, gæti vel leyft sendiráði okkar í Washington að vita af því þegar væri verið að fjalla um mál sem varða einmitt okkar svæði á hnettinum, snerta varnir á þessum hluta jarðkringlunnar. Mér finnst að það gerði ekkert til og mætti beina því til þeirra.

En aðalatriðið er það að við leggjum meira á okkur við að fylgjast með þeirri umr. sem í gangi er í þessum efnum og veljum til þess mannafla svo að við komum ekki af fjöllum þegar verið er að fjalla um þessi mál.

Að Lokum tek ég undir yfirlýsingu hæstv. utanrrh. um þetta mál. Ég tel að hún hafi verið bæði ágæt og hárrétt.