14.11.1983
Neðri deild: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (646)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka þá þolinmæði sem hæstv. forseti deildarinnar hefur sýnt þessum umr. í dag.

Ég hafði ekki hugsað mér að taka aftur til máls fyrr en hæstv. utanrrh. kom í síðari hluta ræðu sinnar, sem hann notaði til að ráðast að Alþb. og þeirri almennu afstöðu sem bað hefur uppi í utanríkismálum. Það er málefni sem er sjálfsagt að ræða við hæstv, utanrrh., en það er kannske ekki hægt að ætlast til þess að ég svari þeirri gagnrýni lið fyrir lið þegar stuttur tími lifir af reglulegum fundartíma Nd. og þegar ljóst er að ég hef aðeins réttindi til að gera stutta aths.

Það er hins vegar nauðsynlegt að það komi fram, að það neitunarvald sem hæstv. utanrrh. taldi að Alþb. hefði haft á síðasta kjörtímabili skipti mjög miklu máli. Það hafði þau áhrif að hernaðarframkvæmdir við flugstöð voru stöðvaðar, það hafði þau áhrif að framkvæmdir við aukningu birgðarýmis í Helguvík og flotahöfn voru stöðvaðar og það hafði þau áhrif að ákveðið var af fyrrv. hæstv. utanrrh. að ekki yrði byrjað á flugskýlum í Keflavík með þeim hætti sem bandaríski herinn hafði ráðgert. Þetta eru dæmi sem skipta mjög miklu máli, en um leið og núv. hæstv. utanrrh. var sestur inn í húsið við Hverfisgötu í Reykjavík, utanrrn., var opnað fyrir þetta allt eins og flóðgátt. Það er auðvitað stefna og skoðun núv. hæstv. utanrrh. að hleypa þessum hlutum fram og hann hafði gert þjóðinni grein fyrir því. En okkar afstaða er sú, að það væri skynsamlegra til þess að tryggja og treysta líf íslensku þjóðarinnar til frambúðar að við festum hana ekki enn frekar í vígbúnaðarneti stórveldisins sem hér situr.

Auðvitað er það barnaskapur þegar hæstv. utanrrh. heldur því fram að óhugsandi sé að þau tæki sem hér eru staðsett verði notuð til að koma af stað árásum. Þekkja menn ekki þær skilgreiningar sem fram hafa komið á AWACS-vélunum, eins og hér voru raktar áðan af.hv. 4. þm. Norðurl. e.? Þekkja menn það ekki sem fram hefur komið m.a. í riti öryggismálanefndar eftir Gunnar Gunnarsson, sem skrifar um GIUK-hliðið, þar sem hann kemst þannig að orði að meginhlutverk AWACS-vélanna sé stjórnun herafla á ófriðartímum? Hvað þýðir þetta annað en að þessum tækjum er unnt að beita í árásarskyni? Það er alveg augljóst mál. Og það er rangt af stjórnvöldum í landinu að stinga höfðinu í sandinn í þessu efni.

Ég held að við þurfum að hafa um þetta ítarlega umr., þó þess gefist ekki kostur núna, því að greinilegt er að margt er órætt í þessu máli þó svo hæstv. utanrrh. hafi lýst því yfir að ekki kæmi til greina að koma eldflaugunum upp hér á næstunni. En hv. 2. þm. Reykn., sem vitnaði hér í „varnarsamninginn“, benti í rauninni á það grundvallaratriði sem verið er að ræða um hér í dag, en það er þetta: Vissulega hafa Íslendingar lokaorðið um það hvaða búnaður er í herstöðinni. En þeir aðilar málsins sem hér er um að ræða eru tveir. Það eru annars vegar Íslendingar og hins vegar bandaríska herstjórnin á hverjum tíma. Ef þessa tvo aðila greinir á um hvaða búnaður er nauðsynlegur í herstöðinni á Íslandi, hvor aðilinn er það sem þá ræður úrslitum? Við segjum: Að sjálfsögðu íslenska ríkisstjórnin. En ég segi: Íslenskur utanrrh., sem hefur ekki á bak við sig skýlausan vilja Alþingis í því efni að ekki komi til mála að sefja hér upp kjarnorkuvopn, er í vanda við þessar aðstæður. Ég tel þess vegna að það sé óhjákvæmilegt að Alþingi lýsi því afdráttarlaust yfir að það sé sammála því að hér eigi ekki að vera kjarnorkuvopn og að hér eigi ekki að setja upp eldflaugar. Og ég tel að það sé óhjákvæmilegt í tilefni af þeirri umr. sem hér hefur farið fram í dag að það verði látið reyna á þennan vilja hv. Alþingis, þannig að það liggi fyrir hvaða skoðanir Alþingi hefur í þessum efnum, því að umr. í dag bendir til þess að yfirgnæfandi meiri hluti alþm. hv. sé þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að hér verði ekki staðsett kjarnorkuvopn og að slíkar eldflaugar verði aldrei heimilaðar á íslenskri grund. - [Fundarhlé.]